Sú var tíðin að stjórnmálamenn stýrðu, á einn eða annan hátt, nánast allri fjölmiðlaumfjöllun í landinu. Blessunarlega tilheyrir slík afskiptasemi fortíðinni og telst íslenskt fjölmiðlaumhverfi nú vera nokkuð gott og með því frjálsara í heiminum. Það er ekki síst að þakka tilkomu svokallaðra upplýsingalaga.
Skrautfjaðrir fortíðar
Árið 1996 mælti ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fyrir frumvarpi um upplýsingalög. Löggjöfin var nýmæli í íslenskum rétti sem og stjórnmálum og þrátt fyrir að þau hafi átt fyrirmynd sína í erlendri löggjöf, og Ísland raunar verið nokkuð seint að taka við sér í málaflokknum, má segja að ásamt lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu og setningu stjórnsýslulaganna tveimur árum fyrr í svokallaðri Viðeyjarstjórn, séu upplýsingalögin einhver sú mesta skrautfjöður sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur síðan getað skreytt sig með.
Með lögunum var loksins lögfestur almennur réttur almennings til upplýsinga um mál innan stjórnsýslunnar, og eðli málsins samkvæmt ekki síður skylda hins opinbera til til að veita almenningi allar upplýsingar nema þeim sem sérstaklega voru undanþegin í lögunum af sérstökum ástæðum.
Þessi lög og ný útgáfa þeirra frá árinu 2012 hafa valdið straumhvörfum varðandi aðgang fjölmiðla og almennings að upplýsingum. Þau hafa hjálpað fjölmiðlum að rannsaka og upplýsa almenning um störf stjórnvalda og þannig veitt þeim nauðsynlegt aðhald. Í raun hefur ánægjan með lögin verið slík að sjaldan hafa úrtöluraddir heyrst – kannski einna helst frá þeim sem ljóstrað hefur verið upp um eða mæðulegum embættismönnum, þreyttum á því að tína til umbeðnar upplýsingar. Það kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna lagði fram frumvarp sem mun, að öllu óbreyttu, gera lögin ómerk.
Ærandi mótsagnir
Í stuttu máli gerir frumvarp forsætisráðherra fjölmiðlum nánast ómögulegt að nálgast upplýsingar í krafti laganna. Skylda til að afla álits þriðja aðila (þess sem upplýsingarnar varða) og réttur hans til að krefjast frestunar réttaráhrifa er til þess fallinn að taka þann hluta upplýsingalaganna algjörlega úr sambandi. Í dag þegar óskað er eftir upplýsiingum í krafti laganna er biðtími afgreiðslu úrskurðarnefndar upplýsingamála meiri en hálft ár. Ef úrskurðarnefndin þyrfti að leita álits allra sem upplýsingarnar varða þá mun sú stjórnsýsla þyngjast til muna með tilheyrandi töfum. Ef þriðji aðili skýtur málinu til dómstóla mun það taka fjölda ára áður en dómur fellur og upplýsingar fást afhentar.
Það er kaldhæðnislegt að í greinargerð með frumvarpi forsætisráðherra er sérstaklega vitnað í þann áskilnað stjórnarsáttmálans að auka þurfi gagnsæi í atvinnulífi og allri stjórnsýslu til að efla traust almennings á rekstri fyrirtækja. Hvernig einhver getur komist að þeirri niðurstöðu að það að hindra aðgang blaðamanna að opinberum upplýsingum, oft og tíðum um atvinnulífið, geti á einhvern hátt aukið gagnsæi, er rannsóknarefni í sjálfu sér.
Frumvarpið verður enn hjákátlegra í ljósi umræðu um aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19. Ótrúleg fjárútlát úr ríkissjóði til atvinnulífsins, bæði í formi fjármuna og ríkisábyrgða, hafa vakið upp eðlilegar áhyggjur af misnotkun og spillingu. Þetta varð m.a. til þess að nöfn allra fyrirtækja sem settu sex eða fleiri starfsmenn á hina svokölluðu hlutabótaleið voru gerð opinber. Það verður að teljast skjóta skökku við að á sama tíma og þessi umræða er í gangi, með fulltingi ofurhneykslaðra ráðherra sem töldu það mikið réttlætismál að birta yfirlit yfir þessi fyrirtæki til að koma í veg fyrir misnotkun þeirra á opinberu fé, þá sé forsætisráðuneytið að setja lög sem munu gera fjölmiðlum og öðrum mun erfiðara að rannsaka og fylgjast með afdrifum einnar stærstu millifærslu Íslandssögunnar á opinberum fjármunum til einkaaðila. Veit hægri höndin hvað sú vinstri er að gera?
Þarf almenningur upplýsingar?
Í hverri viku heyrum við erlendar fréttir af aðgerðum óforskammaðra stjórnvalda til að takmarka, hindra, stöðva eða skaða frjálsa fjölmiðlun. Eitt sinn gerðist slíkt nær eingöngu í einræðisríkjum en nú er þöggunin farin að sjást víðar, m.a. í ríkjum sem hafa til þessa talið sig vera boðbera frelsis og jafnræðis. Aldrei hefði maður þó búist við því að slíkir tilburðir hlytu brautargengi hér á landi. Miklu heldur ætti það að blasa við að í okkar fámenna samfélagi, þar sem allir tengjast öllum, sé gífurleg hætta á ómálefnalegri ákvarðanatöku og spillingu. Að í slíku samfélagi sé gagnsæi og aðhald algjörlega lífsnauðsynlegt og nauðsynlegra en víða. Því miður virðast einhverjir ekki sammála því.
Kannski ætti þetta ekki að koma svo mikið á óvart. Bæði ráðherrar í núverandi ríkisstjórn sem og stjórnarliðar á þinginu hafa t.d. verið iðnir síðustu mánuði við að grafa undan Mannréttindadómstól Evrópu. Eitt af því sem hann hefur áorkað hér á landi er að slá skjaldborg utan um blaðamenn og verja þá m.a. gegn því að vera dæmdir fyrir meiðyrði fyrir ummæli sem þeir hafa eftir viðmælendum sínum. Réttarframkvæmd sem var látin ótalin árum saman á meðan henni var beitt til að hóta, hræða og þagga niður í blaðamönnum.
Í einum af þessum dómum þar sem Mannréttindadómstóllinn dæmdi blaðamanninum Erlu Hlynsdóttur í hag komst dómurinn svo að orði að ekki einasta sé það hlutverk og skylda fjölmiðla að miðla upplýsingum og hugmyndum um öll mál sem erindi eiga við almenning, heldur er það einnig réttur almennings að fá þær. Þessi skilningur Mannréttindadómstólsins virðist ekki eiga mikinn hljómgrunn innan forsætisráðuneytisins Vinstri grænna. Alla vega er þetta frumvarp líklega stærsta atlaga að íslenskum fjölmiðlum og upplýsingarétti almennings í seinni tíð.
Arfleið eyðilögð
Þegar Vinstri græn hófu ríkisstjórnarsamstarf við hægri vænginn, vonuðust margir til þess að flokkurinn myndi hafa jákvæð áhrif og ná að breyta mesta afturhaldinu, hræðslunni og óbilgirninni í arfleið hinna tveggja flokkanna. Sem dæmi má nefna hið mannfjandsamlega regluverk í kringum flóttamenn og hælisleitendur – kerfi sem fulltrúum jafnt sem kjósendum Vinstri grænna leiðist ekki að gagnrýna. Því miður er ekki að merkja að Vinstri græn hafi haft nein jákvæð áhrif í þessum málaflokkum en standa þess í stað fyrir niðurrifi á einni veigamestu löggjöf og almennri réttarbót í landinu.
Það er oft sagt að á erfiðum tímum sem þessum þurfum við framsýnt fólk í forystu, ekki stjórnmálamenn fortíðar. Það breytir því ekki að þeir stjórnmálamenn fortíðar sem sátu á Alþingi á tíunda áratug síðustu aldar og veittu upplýsingalögum, stjórnsýslulögum og Mannréttindasáttmála Evrópu brautargengi voru á þeim tímapunkti töluvert víðsýnni en þeir stjórnmálamenn sem reyna nú að færa okkur um það bil 30 ár aftur í tímann.
Á sínum tíma höfðu margir á vinstri vængnum miklar áhyggjur af neikvæðum áhrifum þess að Vinstri grænir gengju til samstarfs við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Núverandi útspil forsætisráðherra sýnir glöggt að kjósendur vinstri grænna voru ekki þeir einu sem hefðu átt að hafa áhyggjur. Ætla fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í ríkistjórn virkilega að láta það óátalið að þessi mikilvæga arfleið þeirra sé gerð að engu?
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020