Afstæði tímans endurspeglast líklega sjaldan eins vel og um þessar mundir. Covid tímabilið virkar í senn sem heil eilífð og örskotsstund. Mér varð hugsað til þessa þegar fréttir bárust í gær af því að fyrstu skammtar bóluefnis á vegum Covaxsamstarfsins hefðu verið afhentir. Það er jú svo langt síðan byrjað var að bólusetja hér á Íslandi. Það eru þó ekki nema átta vikur. Svona flýgur tíminn á hraða snigilsins.
Framleiðsla og dreifing bóluefna til allra jarðarbúa er líkast til eitt umfangsmesta og flóknasta verkefni sem við höfum tekist á við. Samt höfum við farið til tunglsins og erum rétt búin að lenda fjarstýrðum bíl í beinni á Mars.
Covax er verkefni Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og fleiri aðila til að jafna dreifingu bóluefna og koma þeim til fátækari ríkja. Gana var fyrsta ríkið til að fá sendingu. Þar hafa 600 látist og 80 þúsund verið staðfestir smitaðir, svo vitað sé. Í landinu búa 31 milljón og fyrsta sendingin dugar til að bólusetja eitt prósent þjóðarinnar.
Samkvæmt spá heilbrigðisráðuneytisins er áætlað að búið verði að bólusetja alla forgangshópa fyrir júnílok og líkast til alla sem til stendur að bólusetja yfir höfuð. Ísland stendur því einstaklega vel að vígi hvað varðar bólusetningar. Samkvæmt spá The Economist verður búið að bólusetja nægilega mikið í flestum Evrópulöndum og í Bandaríkjunum til að ná hjarðónæmi fyrir lok þessa árs.
Framleiðslugeta á bóluefni er enn nokkuð takmörkuð, þó allt bendi til þess að hún muni aukast eftir því sem líður á árið. Economist gerir ráð fyrir því að búið verði að bólusetja fyrir hjarðónæmi um víða veröld fyrri hluta árs 2023. Eftir rúm tvö ár.
Það sem virðist einna viðsjárverðast við veiruna er hve gjörn hún er að breyta sér. Afbrigði sem þykja smitnæmari skjóta upp kollinum og óvissa ríkir um hve vel bóluefnin vernda fyrir þeim öllum. Á næstu tveimur árum er því allt eins líklegt að upp komi ný afbrigði, þar sem veiran fær að grassera áfram, sem geta aftur smitað hina bólusettu og jafnvel þá sem hafa þegar veikst. Rétt eins og kvefið okkar og hin árlega flensa.
Þetta er nefnilega ekki búið fyrr en það er búið alls staðar. Það liggur á að bólusetja allar byggðir og þangað til því er náð þurfa allir að vera á tánum. Því fyrr sem lífið kemst í sinn vanagang, þeim mun betra. En það er í öllu falli lítill kostnaður fyrir hvert okkar að bera grímur eða fylgja öðrum þeim leiðbeiningum sem sérfræðingar leggja til. Ef það verður til þess að núverandi ástand verði ekki viðvarandi, þá er það vel þess virði.
Ég er hræddur um að ekkert okkar hafi áhuga á að framlengja þessa tilraun um afstæði tímans út í hið óendanlega, hvenær sem það nú er.
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021