Í marga áratugi hefur sú hugmynd grasserað í meðal hluta íslenskra stjórnmálamanna að það væri hollt og nauðsynlegt ef ríkið gæti rekið fólk til vinnu og skipað því að gera stöff í þágu samfélagsins.
Hugmyndin um einhvers konar þegnskylduvinnu var hávær á fyrri hluta 20. aldar og frumvörp um slíkt litu gjarnan dagsins ljós. Þeim hugmyndum var þó slátrað með vísu eftir Pál J. Árdal sem hljómar svo:
Ó, hve margur yrði sæll
og elska mundi landið heitt,
mætti hann vera í mánuð þræll
og moka skít fyrir ekki neitt.
Ekki urðu hugmyndir um skipulagða þegnskylduvinnu að veruleika á tímum seinni heimsstyrjaldar, eða kalda stríðsins, en ákvæði um borgaraleg skyldustörf í þágu almannavarna rataði þó inn í lög um almannavarnir árið 1962. Samkvæmt þeim getur lögreglustjóri hóað í hrausta menn og konur og skipað þeim að gera hluti launalaust ef mikið liggur við.
Segja má að næstseinasta skrefið í átt til borgaralegrar þegnskylduvinnu hafi verið tekið fyrir nokkrum dögum þegar ítarlegri reglur um fyrirkomulag slíkrar þegnskylduvinnu tóku gildi. Síðasta skrefið væri augljóslega að kalla fólk út til slíkrar vinnu. Í reglunum segir ýmislegt.
Á neyðarstigi almannavarna er það borgaraleg skylda manna sem eru á aldrinum 18–65 ára að gegna, án endurgjalds, starfi í hjálparliði almannavarna í umdæmi þar sem þeir dveljast samkvæmt fyrirmælum er lögreglustjóri gefur, að fengnum tillögum almannavarnanefndar eða ríkislögreglustjóra. […]
Ríkislögreglustjóri boðar þá sem kvaddir hafa verið til starfa í hjálparliði almannavarna skv. 1. gr. til námskeiða og æfinga. Ríkislögreglustjóri heldur námskeið fyrir yfirmenn og leiðbeinendur í hjálparliði. […]
Hámarkstími á hverju ári vegna námskeiða og æfinga er þrjár vikur.
Það er auðvitað ekki útilokað að ríkið geti við einhverjar algjörlega fordæmalausar aðstæður neyðst til að skipa óbreyttum borgurum fyrir verkum til að halda innviðum samfélagsins gangandi. En reglugerðin virðist vera almennari en það, og gera ráð fyrir uppsetningu einhvers konar skipulags þjálfunarprógrams fyrir net formlegra hjálparliða. Ef ekki stendur til að koma upp slíkum kerfum þá er engin ástæða til að hafa um það reglugerðir.
Neyðarúrræði á að nota mjög sparlega. Þau eiga að vera takmörkuð og tímabundin. En reglugerðin er ótímabundin, opnar á ýmislegt og felur í sér breytingu á því hvernig við höfum hugsað um umgjörð almannavarna hingað til. Hingað til höfum við reitt okkur á sjálfboðaliða, en ekki tilneytt fólk. Það væri ekki gott ef að þessi veira myndi breyta því góða fyrirkomulagi sem við getum verið svo stolt af.
Ég ætla að gefa mér að hugmynd með setningu reglugerðarinnar hafi ekki verið að læða inn einhvers konar herskyldu heldur að vera við öllu búin ef til algers neyðarástands kæmi, í ljósi þess faraldurs sem nú gengur yfir heimsbyggðina. Þannig hafi þetta verið tilraun stjórnvalda til að vera “við öllu búin”. En það á ekki halda slíkum neyðarúrræðum lifandi að óþörfu. Réttast er að afnema þessa reglugerð um leið núverandi ástandi er lokið. Óþarfi að gefa rugluðu fólki í framtíðinni of einhverjar spennandi en vondar hugmyndir.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021