Í umræðu um mögulega lögleiðingu einhverra vímuefna kemur sú skoðun iðulega fram að lögleiðing sé of drastískt skref og ótímabært en menn gætu hins vegar fallist á það að rangt sé að “refsa veiku fólki” og því sé afglæpavæðing eðlileg nálgun, og kannski jafnvel pólitískt raunhæfari.
Nú liggur fyrir að á heilu kjörtímabili þar sem málin hafa svo sannarlega verið til umræðu og áhersla lögð á afglæpavæðingu fremur en lögleiðingu hefur lagaumgjörðin ekki þokast mikið áfram. Þannig að það er spurning hvort rökin um hina pólitísku raunhæfni haldi.
Til að gæta sanngirnis eru þó komin lög um neyslurými. Þau lög sýna raunar flækjustig afglæpavæðingar-nálgunar. Í lögunum er sveitarfélagi heimilt að gera samning við lögreglu um að hunsa hluta landslaga í húsnæði neyslurýmis og á ákveðnu svæði í kringum það.
Notendur neyslurýmis hafa þó enga leið til að afla sér efnanna öðruvísi en að brjóta lög, enga leið til að geyma þau án þess að brjóta lög, engin matvælastofnun eða lyfjaeftirlit gætir að öryggi þeirra og ef þau lenda í vandræðum með að greiða fyrir efnin fá þau ekki hefðbundna réttarvernd á við aðra skuldara.
Vímuefni, lögleg sem ólögleg, eru gríðarlega ólík. Þau eru misvanabindandi, misvirk og mishættuleg. Sami lagarammi getur ekki átt við þau öll. Sum mætti selja á sérstökum stöðum, sum mætti selja gegn lyfseðli, sum ættu kannski hreinlega að vera áfram ólögleg.
En málið er samt að við sem samfélag ýmis tæki og tól til að reyna hvetja fólk til að gera minna af óhollum hlutum. Þessi eru til dæmi skattlagning, aldursmörk, reglur um sölustaði og sölutíma, reglur um styrkleika og innihald, takmarkanir og bann á auglýsingum og fleira. Þessi tæki eru tiltæk ef við tökum þá afstöðu að setja lög um það sem virðist fylgja okkar samfélagi. Þau tæki eru ekki til staðar ef við tökum þá afstöðu að líta í gegnum fingur okkar, því okkur líður aðeins betur með það.
Í grunninn snýst afglæpavæðing nefnilega um að gúddera eftirspurnina en fordæma áfram framboðið. Það er dæmi sem mun ekki ganga upp til lengdar. Þó að meiningin sé góð.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021