Árið 1744 lögðu tveir ráðherrar á skoska þinginu, Alexander Webster og Robert Wallace upp í vegferð við að því að tryggja afkomu ekkja og barna presta sem létust um aldur fram. Hugmyndin var sú að prestar myndu greiða hlutfall tekna sinna inn í sjóð og fjármagnið yrði notað til þess að tryggja framfærslu fjölskyldna þeirra sem féllu of snemma frá. Vandamálið sem þeir stóðu frammi fyrir var að finna út hversu mikið hver prestur átti að greiða í sjóðinn. Ef hlutafallið væri of lítið þá myndi sjóðurinn tæmast en ef það væri of mikið gæti það verið baggi á prestinn.
Til þess að finna út úr því fengu þeir til liðs við sig stærðfræðiprófessor að nafni Colin McClory. Saman lögðust þeir í að safna gögnum um lífslíkur Skota, fjölda barna á heimili og hversu mörg ár ekkjur lifðu menn sína. Þeir unnu út frá hugmynd Bernouli um stórar tölur sem segir að það sé erfitt að spá fyrir um einstakan viðburð (t.d. lífslíkur Einars Einarssonar í Vatnskoti) en það sé hægt að finna út nokkuð nákvæmlega hversu lengi maður eins og Einar Einarsson lifir.
Samkvæmt útreikningum þremenninganna þá þurftu prestarnir að greiða að lágmarki rúmlega 2 pund en máttu hækka framlagið upp í rúm 6 pund. Þeim reiknaðist þá til að eftir tæp 20 ár, 1765 þá myndi sjóðurinn standa í 58,348 pundum. Niðurstaðan reyndist vera 58,347.
Þetta verkefni er oft talið upphaf nútíma líftrygginga og eru tryggingarfélög í dag með sérstaka tryggingastærðfræðinga í vinnu sem eru að reikna út lífslíkur og finna þannig út hvað ætti að rukka fyrir líftryggingar. Þessi saga kemur bæði fyrir í Sapiens eftir Hariri og eins í Peningarnir sigra heiminn eftir Niall Ferguson.
Ofangreint er gott dæmi um það hvernig fólk hefur tekist á við áhættu; líkur á því að ákveðinn atburður eigi sér stað. Í gegnum tíðina höfum við búið okkur til fleiri og fleiri tæki til þess að takast á við óvissu. Fyrirtæki geta keypt sér áhættuvarnir og tryggingar fyrir sífellt fleiri óvissuþáttum. Þá er hægt að fylgja dæmisögum úr Biblíunni og nýta góðu árin til þess að byggja upp forða fyrir slæmu árin.
En það eru ansi fáir sem eru svo heppnir að eiga varaforða fyrir 100 ára plágur.
Í efnahagslegum afleiðingum Covid-19 faraldursins er nú orðið nokkuð almennt talið að hið opinbera þurfi að stíga inn þegar allt annað bregst. Hið opinbera erum við og því felur þetta í sér í raun og veru að við erum að taka lán frá sjálfum okkur í framtíðinni. Við erum að skerða framtíðartekjur með því að eyða þeim í dag.
Það var vel þekkt aðferð í harðindum að fella gengið þannig að útflutningur yrði samkeppnishæfari. Kostnaðinum var dreift yfir alla í skertum ráðstöfunartekjum í gegnum veikara gengi sem leiddi af sér verðbólgu og hærra verð á innfluttum vörum.
Nú á að fara aðra leið sem felst í beinni inngripum en hefur verið beitt í langan tíma.
Áskorunin felst í því að það hefur aldrei farið fram umræða um hvernig slíkar björgunaraðgerðir eigi að vera. Þannig komu í fréttum vikunnar fram upplýsingar um fyrirtæki sem voru ekki í fjárhagsvandræðum en höfðu samt óskað eftir ríkisstuðningi. Viðbrögðin voru hörð en spurningin sat samt eftir. Hverjum á og hverjum má bjarga? Eiga aðgerðir bara að gagnast fyrirtækjum sem eru við dauðans dyr eða mega þær gagnast fyrirtækjum sem gætu staðið sterkari eftir? Ef þær eiga bara að gagnast fyrirtækjum sem standa á brauðfótum, hversu miklir þurfa brauðfæturnir að verða áður en það má kalla eftir aðstoð?
Í það minnsta munum við þurfa að svara fjöldamörgum spurningum á komandi vikum og mánuðum um þessi málefni.
En einn lærdóm mætti draga af skotunum snjöllu. Hugmyndina um að byggja upp innviðasjóð sem gæti virkað sem sveiflujafnari stjórnvalda þegar í harðbakkan slær væri skynsamleg viðbót við þá aðferð að stjórnvöld (við öll) skuldsetjum okkur þegar stóráföll bresta á.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021