Fátt hefur veitt mér meiri þroska í gegnum tíðina heldur en að sinna dómgæslustörfum í körfubolta á unglingsárum. Þótt ég hafi ekki verið á kafi í dómgæslunni nema tvo vetur þá lærðist margt sem hefur staðið með mér alla tíð síðan.
Fyrst og mikilvægast var það auðvitað reynslan sjálf og samneytið við aðra dómara, sem kenndu óhörnuðu ungviðinu sitthvað ómetanlegt um þá jafnvægislist að viðhafa í senn sjálfsöryggi og auðmýkt í vandasömu verkefni. Það var gagnlegt að læra að höndla þá taugaspennu sem fylgir því að taka sem bestar ákvarðanir við erfiðar aðstæður. Og það reynir líka á dómara að þurfa að standa með ákvörðunum sínum þrátt fyrir mótmæli og eigin efasemdir. Að vera 18 ára unglingur að dæma í leik úti á landi þar sem var fjöldi skoðanaglaðra áhorfenda reyndi bæði á taugar og þroskaði hugrekkið til að standa gegn straumnum þegar svo bar undir.
Sumt í lífsgreglum dómarans nær langt út fyrir íþróttina. Tvær reglur eru mér hugleiknar núna; önnur nokkuð augljós en hin leynir kannski ögn á sér.
Fyrri reglan er sú að dómari í íþróttum má aldrei láta mótmæli eða látbragð leikmanna, þjálfara eða áhorfenda hafa áhrif á sig. Reglan er augljós en það er fjandanum erfiðara að vera viss um að maður sé algjörlega ónæmur fyrir slíku. Rannsóknir á því hvernig standi á því að lið eigi að jafnaði meiri sigurlíkur á heimavelli benda til að mynda til þess að smávægileg áhrif á dómgæslu heimaliði í hag séu ráðandi breyta. En dómari sem hættir að treysta sínu eigin mati (og mati annarra dómara, og þeirra sem hægt er að treysta), en reynir að gera leikmönnum, þjálfurum og áhorfendum til geðs kæmist býsna snarlega í óleysanlegan vanda. Leikurinn myndi umsvifalaust leysast upp í vitleysu ef áhorfendur með alls konar skoðanir og hagsmuni sjá að það hafi áhrif á dómarann að rífa kjaft. Hinn meðvirki dómarinn kæmist fljótt að því að með því að friða einn þá reitir hann annan til reiði, og þannig yrði niðurstaðan af meðvirkninni aldrei önnur en sú að gera alla ennþá reiðari við dómarann en áður og leikurinn sjálfur yrði fullkominn farsi.
Hin reglan er kannski ekki eins augljós, en í raun ekki síður mikilvæg. Hún er sú að dómara ætti ekki að reyna að bæta upp fyrir ein mistök með því að gera önnur. Ef dómara yfirsést brot á öðrum enda vallarins ætti hann semsagt ekki að leyfa sambærilegu broti að eiga sér stað á hinum endanum, eða að gera mistökin að fordæmisgefandi ákvörðun. Ef dómari freistast til þess að beita þessari aðferð til þess að leiðrétta yfirsjónir sínar er hætt við að allskostar saklausir leikmenn þurfi að greiða gjaldið fyrir mistök dómarans, og eftir því sem slíkum tilvikum fjölgar þeim mun flóknari reikningskúnst verður að finna nákvæmlega hvenær dómarinn hefur jafnað út sín eigin mistök með því að láta þvæluna ganga yfir bæði liðin. Öllu skiptir að reyna að ná næsta dómi réttum, alveg sama hvað hefur áður gengið á í leiknum.
Í þessum tveimur reglum felst ágæt lífsspeki. Ef manni er treyst fyrir ábyrgð ber manni að beita sinni eigin dómgreind, og láta ekki hávaða og hagsmunaþras koma sér úr jafnvægi—og jafnvel þótt maður taki stundum rangar ákvarðanir, þá er alltaf réttast að halda sínu striki og reyna að taka rétta ákvörðun næst, en ekki reyna að bæta upp fyrir gömul mistök með því að gera fleiri.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021