Þann 21. september árið 1957 birtist maður á svarthvítum sjónvarpsskjám bandarískra heimila. Hann átti eftir að hafa örlagarík áhrif sem kunna nú rúmlega hálfri öld síðar að binda enda á 1500 ára sögu og breyta heimsmyndinni eins og við þekkjum hana.
Þarna var á ferðinni fyrsti lögfræðiþátturinn sem náði lýðhylli þar sem lögfræðingur með hjartað á réttum stað mætti í réttarsalinn og leysti mál í þágu hins góða. Mættur var til leiks fullskapaður sjónvarpslögfræðingurinn Perry Mason sem varð fljótt heimilisvinur milljóna manna og leysti úr lagaflækjum vikulega í níu ár þar til síðasti þátturinn var sýndur 22. maí 1966.
Perry Mason sýndi og sannaði að almenningur naut þess að sjá lögfræðinga veita skúrkum ráðningu og ruddi hann brautina fyrir aðra sjónvarpslögfræðinga sem fylgdu í úrræðagóð fótspor hans. Silfurrefurinn og verjandinn Ben Matlock vann hug og hjörtu áhorfenda víða um heim á níunda og tíunda áratugnum, ekki síst á Íslandi þar sem þættirnir voru sýndir á RÚV. Svo mikil var sæmd Matlock að hann var fyrsti þátturinn sem RÚV sýndi á fimmtudagskvöldum eftir að útsendingar á þeim degi hófust haustið 1987.
Fleiri lögfræðingar geystust fram á skjávöllinn til að svala réttlætiskennd áhorfenda. Ally McBeal var ekki af sama sauðahúsi og Mason og Matlock og átti mögulega aðeins flóknara ástarlíf en þeir kumpánar en hún gaf þeim ekki eftir í gáfum, réttsýni og útdeilingum á maklegum málagjöldum. Svo virðist sem rýnihópar sjónvarpsstöðvanna hafi síðan ákveðið að rúm væri fyrir fleiri en eina stjörnu í hverjum þætti og í kjölfarið komu á borð við The Practice, Boston Legal og Suits þar sem teymi lögfræðinga lét finna fyrir sér í réttarsalnum milli þess að þau urðu ástfangin hvert af öðru.
Síðastnefndi þátturinn varð einmitt sögusvið í atburðarásinni sem hófst hjá Perry Mason fyrir 63 árum með mögulega afdrifaríkum afleiðingum fyrir alla heimsbyggðina. Lögfræðiþættirnir Suits hófu göngu sína 2011 og þar fékk þrítug bandarísk leikkona sitt fyrsta stóra tækifæri eftir að hafa spreytt sig á litlum hlutverkum um árabil. Meghan Markle lék aukahlutverk í þáttunum og öðlaðist frægð eftir því sem vinsældir þáttarins jukust. En árið 2016 varð hún ein frægasta kona í heimi eftir að fregnir bárust af ástarsambandi hennar við Harry Bretaprins. Tveimur árum síðar, árið 2018, hætti Meghan í Suits sem höfðu skotið henni upp á hinn konunglega stjörnuhiminn. Sama ár giftist hún Harry og þau urðu hertoginn og hertogaynjan af Sussex. Árið 2019 eignuðust þau lítinn prins sem ber hið lítt almúgalega nafn Archie Harrison Mountbatten-Windsor.
Að giftast prins og eignast barn sem er sjöunda í röðinni til að erfa bresku krúnuna hefur ævintýrahljóm en ljóminn dofnar aðeins við svefnlausar nætur með ungabarn, umsátur papparazza og hina óvægnu breska pressu sem hefur farið óblíðum höndum um hertogahjónin. Harry og Meghan tóku sér sjö vikna frí núna yfir jólin (ekki mjög almúgalegt) og mættu aftur til starfa núna á þriðjudaginn. Aðalfréttin þann dag var að Meghan skartaði stórum svitablett undir handakrikanum (mjög almúgalegt). Daginn eftir tilkynntu hertogahjónin að þau myndu draga sig í hlé frá hefðbundnum störfum konungsfjölskyldunnar og verja meiri tíma í N-Ameríku. Tilviljun?
Ákvörðun Meghan og Harry hefur valdið miklum úlfaþyt í Bretlandi og BBC segir þetta hafa skaðað konungsfjölskylduna sem var grandalaus um ákvörðunina. Fjöldi fólks gagnrýnir Meghan fyrir að hafa slæm áhrif á saklausa Harry og að hafa látið hann fjarlægjast konungsfjölskylduna. Aðrir koma hertogahjónunum til varnar og saka konungsfjölskylduna á móti um að hafa ekki veitt þeim nægilegan stuðning. Á meðal gagnrýnenda er breski þáttastjórnandinn Piers Morgan sem sakar hertogahjónin um svik og hefur kallað eftir því að Elísabet II Englandsdrottning svipti Meghan og Harry öllum konunglegum titlum áður en “this pair of grasping, selfish, scheming Kardashian-wannabes bring down the Monarchy.”
Árið 519 komst til valda maður að nafni Cerdic í konungsríkinu Wessex á Bretlandi. Cerdic er forfaðir Elísabetar II Englandsdrottningar og sagt er að breska krúnan hafi verið við lýði í 1500 ár. Á þessari löngu vegferð hefur breska krúnan oft lent í ófærð og moldviðri. Í nálægri fortíð má nefna þegar Játvarður VIII afsalaði sér krúnunni til að vera með fráskildri konu, þegar Karl Bretaprins skildi við Díönu og þegar hún síðar lést á vofeiflegan hátt. En mögulega mun einmitt þessi ákvörðun Meghan og Harry vera þúfan á veginum sem á endanum veltir hlassinu og kveikir röð atburða sem leiðir að lokum til þess að breska krúnan verður aflögð. Allt af því að Perry Mason taldi okkur öllum trú um að lögfræðingar ættu erindi upp á dekk.
- Vinnum upp mannfagnaði - 11. maí 2021
- Sameiginlegir hagsmunir - 6. apríl 2021
- Draumaverksmiðju-kryddið - 9. mars 2021