Valgerður Sverrisdóttir, nýskipaður viðskipta- og iðnaðarráðherra, er mikill höfðingi. Enda er hún úr sveit. Nánar tiltekið Grenivík, en fædd á Lómatjörn í Grýtubakkahreppi 23. mars 1950. Eins og sönnum höfðingjum sæmir hélt hún veglega upp á fimmtugsafmæli sitt um síðustu helgi. Hinn nýi ráðherra var svo rausnarlegur að bjóða öllu starfsfólki ráðuneytanna í helgarferð til Grenivíkur til þess að samfagna með sér tímamótunum og þáðu fjórtán af þrjátíu starfsmönnum boðið. Valgerður lét, eins og alkunna er, ráðuneytið borga brúsann og segir nú kinnroðalaust að það skipti ekki neinu máli þar sem þetta hafi komið í staðinn fyrir sumarferð starfsmanna.
Þetta kallast upp á vonda íslensku „spin control“ og er til þess gert að beina óþægilegri umræðu í meðfærilegri farveg. Svo virðist sem fjölmiðlar ætli að gleypa þessar útskýringar ráðherrans hráar. Það er kannski von þar sem Valgerður virðist alls ekki týpan til þess að ljúga blákalt, enda úr sveit og því væntanlega laus við fals og klæki stórborgarinnar. Valgerður lét þess sérstaklega getið í sjónvarpsviðtali að það væri ekkert óeðlilegt við þetta þar sem landsbyggðarráðherrar hlytu að halda upp á afmæli sín úti á landi. Jafnframt sagði hún að sumarferðir tíðkuðust víða í fyrirtækjum og því væri heldur ekkert óeðlilegt við þær.
Ekki er DEIGLUNNI kunnugt um hversu stór hluti fyrirtækja býður starsmönnum sínum í sumarferðir. En ef þetta er viðtekin venja þá ráðleggur DEIGLAN lesendum sínum að kynna sér búsetu stjórnenda fyrirtækja sinna svo þeir lendi ekki í því að sumarferð þeirra sé fórnað fyrir partí á Grenivík – eins og meirihluti starfsmanna viðskipta- og iðnaðarráðuneytisins þarf nú að sætta sig við.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021