Búrundí er lítið landlukt land fyrir norðan Rúanda. Löndin tvö eiga það sameiginlegt að vera fyrrverandi nýlendur Belgíu sem hefur haft afar afdrifaríkar afleiðingar fyrir bæði löndin. Belgísku nýlenduherrarnir skiptu fólkinu sem bjó í löndunum upp í tvo flokka byggðum á ógeðfelldum kynþáttakenningum þess tíma. Belgar sendu fremstu sérfræðinga sína til landanna til að rannsaka alla íbúana. Þeir sem voru hávaxnir, með ákveðna höfuðbyggingu og andlitsdrætti voru gerðir að Tútsum en restin var skilgreind sem Hútar. Tútsarnir (sem voru mun fámennari) voru síðan gerðir að yfirstétt í báðum löndum. Rétt er að geta þess að fyrir þessa skiptingu var enginn munur á stöðu þessa fólks og það tilheyrði allt sömu þjóð.
Búrundí fékk sjálfstæði árið 1962 og allt til ársins 1993 var landinu stjórnað af herforingjum sem tilheyrðu Tútsum. Þetta tímabil er markað af miklum hörmungum og átökum milli stjórnar Tútsa og þeirra landsmanna sem tilheyrðu hópi Húta. Versta dæmið um slík átök átti sér stað árið 1972 en þá gerðu Hútar í hernum uppreisn gegn stjórninni. Hluti af stefnu uppreisnarmanna var að drepa alla þá Tútsa sem þeir fundu á átakasvæðinu. Náðu þeir að drepa eitthvað á bilinu 2000-3000 Tútsa áður en þeir voru stöðvaðir. Ríkisstjórnin svaraði með því að lýsa yfir herlögum í landinu og hóf að drepa Húta á kerfisbundinn hátt. Stjórnarherinn byrjaði á því að drepa alla þá Húta sem skilgreindust sem framámenn, menntamenn eða höfðu hlotið herþjálfun. Eftir að búið var að eyða þeim hópi snéri stjórarherinn sér að venjulegum Hútum. Alþjóðasamfélagið hefur ályktað varlega að alla vega 150.000 manns hafi verið drepnir í þessu þjóðarmorði.
Árið 1993 voru fyrstu lýðræðislegu kosningarnar haldnar í Búrundí. Flokkur Húta vann kosningarnar og var Hútinn Ndadaye kosinn forseti landsins. Þann 21. október 1993 var Ndadaye myrtur, líklega af hópi Tútsa innan hersins. Morðið hrinti landinu út í blóðuga borgarastyrjöld. Í hefndarskyni fyrir morðið á Ndadaye hófu venjulegir Hútar að drepa alla Tútsa sem þeir náðu til. Er talið að 25.000 Tútsar hafi verið drepnir í þessari lotu. Herinn svaraði með því að brytja niður svipaðan fjölda af Hútum.
Borgarastyrjöldin hélt áfram en stærsti hluti landsins komst eftir þetta aftur undir stjórn herforingja Tútsa. Árið 2000 var lýðræðið endurvakið og frá árinu 2004 hefur landinu verið stjórnað af ríkisstjórn undir forystu Húta.
Hver sem skoðar sögu Rúanda og Búrundí sér hversu hræðilegar afleiðingar þessi skipting Belga á fólkinu í Húta og Tútsa hefur haft fyrir bæði löndin. Hefur þessi skipting verið eins og rauður þráður í átakasögunni. Hún hefur stillt fólkinu upp í andstæðar fylkingar og gefið því tilefni til ofbeldis sem hefur endaði í þjóðarmorðum.
Atburðirnir í Rúanda vöktu mikla athygi á sínum tíma en minna hefur farið fyrir umfjöllun um ástandið í Búrundí. Það er athyglisvert því að á svipuðum tíma og þjóðarmorðin áttu sér stað í Rúanda voru þúsundir brytjaðar niður í nágrannalandinu en um það heyrðist hvorki hósti né stuna frá alþjóðasamfélaginu. Enginn alþjóðlegur dómstóll var settur upp vegna glæpanna í Búrundí en það var gert í Rúanda, engu fjármagni var pumpað inn í landið og engar hástemmdar ræður haldnar um að alþjóðasamfélagið myndi aldrei leyfa slíku að gerast aftur.
Þessi tvískinningur sýnir glöggt hversu tilviljunarkennt það er hvort alþjóðasamfélagið bregst við þjáningum í heiminum. Staðreyndin virðist vera sú að það er nánast algjörlega háð duttlungum og hagsmunum ríkisstjórna og stjórnmálamanna hvort íbúar viðkomandi landa fá viðurkenningu á þeim hörmungum sem þeir verða fyrir og fá þá hjálp sem á þarf að halda.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020