Þegar litið er yfir frammistöðu liða í riðlakeppni HM 2006 er óhjákvæmilegt að byrja á landsliði Argentínu. Með fullri virðingu fyrir öðrum liðum í keppninni hefur frammistaða argentínska liðsins vakið mesta athygli. Liðið hefur leikið hraðann og opinn sóknarbolta þar sem fyrstu snertingar sendingar og frábær hreyfing leikmanna án bolta er mjög áberandi. Þessi leikstíll hefur valdið miklum vandræðum fyrir varnarlínu andstæðinga liðsins. Frammistaða liðsheildarinnar og gæði knattspyrnunnar sem liðið spilar kórónaðist í leiknum gegn Serbíu- og Svartfjallalandi en honum lauk með stórbrotnum 6-0 sigri Argentínumanna. Þessi markaveisla er sérstaklega merkileg fyrir þær sakir að landslið Serbíu- og Svartfjallalands fékk aðeins eitt mark á sig í undankeppni heimsmeistaramótsins, fæst allra liða.
Af þeim liðum sem taka nú þátt á HM 2006 er enska landsliðið líklega það lið sem Íslendingar þekkja hvað best enda er mikil umfjöllun og áhorf á enska knattspyrnu hér á landi. Það verður að segjast eins og er að enska liðið hefur valdið nokkrum vonbrigðum. Spilamennska liðsins hefur þótt litlaus og frekar hæg. Þessi staðreynd hefur virkað sem vatn á myllu þeirra fjölmörgu sem hafa gagnrýnt þann landsliðshóp sem Sven Göran-Eriksson, landsliðsþjálfari Englendinga, valdi til þátttöku í mótinu. Hinsvegar verður það ekki tekið af Eriksson að liðið endaði efst í sínum riðli með 7 stig af 9 mögulegum. Enski leikmannahópurinn er vafalaust einn sá sterkasti í keppninni og er liðið því ávallt líklegt til sigurs. Ef landsliðið ætlar sér hinsvegar að standa undir væntingum enska almúgans, sem fer fram á ekkert minna en sigur í mótinu, er ljóst að spilamennska liðsins verður að taka nokkrum framförum.
Á hverju Heimsmeistaramóti er vaninn að eitt til tvö af minna þekktari landsliðunum komi á óvart og spili framar væntingum. Margir muna eflaust eftir framgöngu Suður-Kóreu 2002, Búlgaríu 1994 og skemmtilegri spilamennsku Kamerúna á Ítalíu 1990. Mótið í ár er enginn undantekning og að mati undirritaðs hafa tvö landslið komið sérstaklega skemmtilega á óvart. Fyrst ber að nefna lið Ástrala sem endaði í öðru sæti í sínum riðli og er því komið í útsláttarkeppni mótsins í aðeins annað skipti síðan 1938. Styrkur Ástrala felst einna helst í frábærri stjórnun landsliðsþjálfarans, hinum hollenska Guus Hiddink. Hitt liðið sem vakti athygli undirritaðs er landslið Trinidad og Tobago. Landsliðið er fulltrúi fámennustu þjóðar sem nokkurn tíman hefur unnið sér rétt til þátttöku á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu en íbúafjöldinn er aðeins 1.3 milljónir. Þrátt fyrir að liðið hafi ekki komist upp úr riðlinum og endaði í raun aðeins með eitt stig, var frammistaða þess vissulega eftirtektarverð og sýndi að smáar þjóðir eru sýnd veiði en ekki gefin á leikvelli stóru þjóðanna.
Nú þegar riðlakeppninni er lokið ætti öllum, sem eitthvað hafa fylgst með, að vera ljóst að mótið er líklega það skemmtilegasta sem fram hefur farið í mörg ár. Óvenjulega mörg lið leggja áherslu á að spila hraðann sóknarfótbolta þar sem landslið Argentínu er fremst á meðal jafningja. Þar liggur líka stærsti sigur mótsins, það er ekki markasigur einstakrar þjóðar heldur sigur knattspyrnunnar. Skemmtanagildi mótsins er góður vitnisburður um þá frjóu knattspyrnu sem hefur verið spiluð. Sóknarveislan er enn fremur knattspyrnuunnendum kærkomin eftir að hafa orðið vitni að fræknum en afskaplega ófrjóum sigri Grikkja á Evrópumeistaramóti landsliða í Portúgal 2004.
- Fimm til að fylgjast með - 17. ágúst 2011
- Raunveruleika útgáfan af FM (CM) afturkölluð af UEFA - 15. júlí 2011
- Þorláksmessa knattspyrnuaðdáenda - 10. júní 2010