Nokkur óvissa ríkir um þessar mundir um kjarasamninga. Verkalýðshreyfingin krefst þess að ríkisstjórnin liðki fyrir framlengingu þeirra með því að gera breytingar á skattkerfinu. Hún hefur sett fram kröfu um 15% skattþrep á tekjur undir 150 þúsund og vill þar að auki að breytingar verði gerðar á eftirlaunakerfi þingmanna, ráðherra og æðstu embættismanna. Ríkisstjórnin er sögð hafa boðið hækkun á persónuafslættinum sem að mestu væri verðlagsuppfærsla. Forystumenn verkalýðshreyfingarinnar segjast svartsýnir á lausn.
Kröfur verkalýðshreyfingarinnar eru óraunhæfar og að hluta óskynsamlegar. Það er vel þess virði að veita þingmönnum og ráðherrum góð eftirlaun til þess að þeir sækist síður í alls kyns stöður hjá hinu opinbera á sínum efri árum.
Hugmyndir ríkisstjórnarinnar um hækkun persónuafsláttarins eru mun skynsamlegri. Ríkisstjórnin á hins vegar að vera mun rausnarlegri en fréttir herma að hún hafi verið fram að þessu. Á undanförnum árum hafa nánast allar breytingar á skattkerfinu gagnast þeim tekju- og eignahæstu í samfélaginu mest. Eignaskattur hefur verið afnuminn. Hátekjuskattur hefur verið afnuminn. Stærstur hluti skattalækkana síðustu 15 ára hafa verið í formi lægri skattprósentu. Þetta hefur haft þau jákvæðu áhrif að jaðarskattar hafa lækkað mikið. En á móti kemur að hlutur þeirra tekjulægstu í heildarskattbyrðinni hefur hækkar talsvert.
Geir Haarde lýsti því yfir í ræðu sinni á 17. júní að það væri hlutverk stjórnmálamanna að vaka yfir hag og velferð þeirra sem lakar eru settir en aðrir. Við þetta bætti hann: “Það mun mín ríkisstjórn gera.” Nú hefur Geir tækifæri til þess að sanna að þessi orð voru meira en bara falleg yfirlýsing á hátíðisdegi. Það væri ánægjulegt ef ríkisstjórnin setti fram rausnarlegar tillögur um hækkun persónuafsláttarins.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009