Undanfarin ár hefur umræða um jafnréttismál og femínisma aukist í þjóðfélaginu. Kvenréttindabaráttan frá miðri síðustu öld hefur að margra mati breyst í svokallaða jafnréttisbaráttu með áherslu á það að kynin séu jöfn á flestum sviðum þjóðfélagsins. En hvað er jafnrétti og hvað felst í jafnréttisbaráttu?
Jafnrétti er jafn réttur til einhvers. Felst þá t.d. jafnrétti í lagasetningu sem miðar að því gera möguleika eins til ákveðinnar stöðu minni á kostnað annars? Varla, því það er ójafn réttur.
Á Íslandi er femínismi oft tengdur aðgerðum félaga á borð við Femínistafélag Íslands. Hefur það m.a. að markmiði sínu að auka femíníska og gagnrýna umræðu á öllum sviðum þjóðlífsins ásamt því að vinna að jafnrétti kynjanna. Að mati þeirra eru jákvæð mismunun og kynjakvótar til þess fallin að ná markmiði um jafnrétti. Þá hefur hugmyndum verið skotið á loft sem lúta að því að minnka möguleika karla til setu í stjórnum fyrirtækja til að ná fram jafnrétti. Sú umræða snýst í raun um misréttisbaráttu en ekki jafnréttisbaráttu.
Skilgreiningum á femínisma ber ekki saman, eins og algengt er þegar nokkuð opin hugtök eru notuð víða í heiminum. Til að mynda er einn afkimi þessa hugtaks einstaklings-femínismi (i-feminism, stendur fyrir individual feminism). Sú hugmyndafræði gengur út á að raunverulegt jafnrétti sé fólgið í því að konur hafi jafnan lagalegan rétt og karlar, þ.e að kynjunum sé ekki mismunað lagalega. Augljóslega eru einstaklings-femínistar algjörlega á öndverðum meiði við femínista innan Femínistafélags Íslands þar sem annar femínisminn gengur út á jafnrétti en hinn misrétti.
Einstaklings-femínismi kristallast í jafnri persónulegri ábyrgð og vali hvers einstaklings, þ.m.t. hverrar konu, þar sem hugmyndafræðin gengur út frá því að frelsi og fjölbreytileiki gagnist konum vel.
Jafnrétti á, að mínu viti, að snúast um frelsi einstaklinga óháð kyni. Hver einstaklingur á að hafa rétt til að gera það sem hann vill, án þess þó að beita aðra ofbeldi. Jafnréttisbarátta á því að snúast um að auka frelsi hvers einstaklings en ekki aðeins frelsi sumra á kostnað annarra. Af þessu er ljóst að ekki hægt að skapa jafnrétti meðal kynjanna með því að binda í lög jákvæða mismunun, s.s. forréttindi til handa konum vegna kyns þeirra, ekki frekar en hægt er að binda í lög forréttindi til handa körlum vegna kyns þeirra. Mismunun, þó hún sé tengd jákvæðni, er frelsiskerðing og á ekkert skylt við jafnrétti.
- Þú ert það sem þú hugsar - 9. nóvember 2007
- Verða allt sem þú getur - 15. júní 2007
- Hver velur hvað ég borða? - 8. september 2006