Jafnréttisbaráttan snerist upphaflega um það að kynferði ætti ekki að skipta máli – að konur ættu að ekki að þurfa að þola misrétti fyrir það að vera kvenkyns og að líta ætti til einstaklingsins sjálfs en ekki kynferðis hans. Eftir að lagalegu misrétti var loks hrundið hefur jafnréttisbaráttan breyst. Nú snýst jafnréttisbaráttan um að tryggja að staðalmyndir fortíðarinnar muni ekki koma í staðinn fyrir lagalegt misrétti. Þessi barátta er mikilvæg og það er lofsvert starf sem baráttumenn fyrir jafnfrétti hafa unnið við að benda á hversu skammt á veg jafnrétti er komið. Sem betur fer hefur nú verið tryggt hér á landi að allir séu jafnréttháir fyrir lögunum. Þar með er hins vegar ekki öll sagan sögð því í mörgum starfsstéttum virðist sem konum sækist verr en körlum að hljóta viðurkenningu og frama. Til þess að jafnrétti ríki í raun er nauðsynlegt að hugarfar jafnréttis ríki alls staðar í samfélaginu. Sú barátta verður þó tæpast háð nema með fræðslu og samstöðu þeirra sem láta sig jafnréttismál varða.
Það ber hins vegar að vara við þeim hugmyndum, sem gjarnan skjóta upp kollinum, að leiðin til að tryggja jafnrétti í reynd sé sú að hverfa aftur til lagalegs ójafnréttis. Birtingarmynd þessarar tilhneigingar kom fram á ráðstefnu á Bifröst í byrjun júní. Í fréttum frá ráðstefnunni kom fram að samþykkt hefði verið ályktun um það að setja ætti lög sem skylduðu skráð fyrirtæki í Kauphöllinni til þess að hafa að minnsta kosti fjörtíu prósent af stjórnum fyrirtækjanna skipaðar kvenfólki. Var þess getið að þær konur sem sóttu ráðstefnuna hafi samþykkt ályktunina með dynjandi lófataki. Það er áhyggjuefni að hópur á borð við þennan leggi til að misrétti verði bundið í lög. Í raun ætti jafnréttissinnum, konum jafnt sem körlum, að hrjósa hugur yfir því að tillögur um slíkt séu ræddar af alvöru.
Fyrir utan þá staðreynd að hugmyndir Bifrastarkvennanna brjóta augljóslega í bága við jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar verður ekki heldur framhjá því litið að hugmyndin er niðurlægjandi fyrir konur. Við viljum hvorki gjalda fyrir kynferði okkar okkar né njóta sérstakra lögbundinna forréttinda vegna þess. Þrátt fyrir að eigendur fyrirtækja hafi hingað til valið fleiri karlmenn en konur í stjórnir þá þýðir það ekki að eðlilegt sé að leiðrétta það með lögum. Slík aðgerð væri yfirlætisfull í garð kvenna því með henni væri gefið í skyn að konum væri ókleift að keppa á jafnréttisgrundvelli um ábyrgðarstöður í viðskiptalífinu.
Ef fyrirtækjum verður gert skylt að velja í stjórnir sínar á grundvelli kynferðis mun það vissulega leiða til þess að hlutföll kvenna og karla verða jafnari. Hins vegar er verulega líklegt að þær konur, sem munu sitja í stjórnum í skjóli laganna, verði ekki fullgildir þátttakendur í þeim. Það er ekki hlutverk ríkisins að hlutast til um það hverjir sitja í stjórnum fyrirtækja á frjálsum markaði. Setning laga sem felur í sér tiltekið hlutfall stjórnarmeðlima í fyrirtækjum felur í sér frelsiskerðingu fyrir fyrirtæki og félög.
Mjög fáar konur sitja nú í stjórnum hlutafélaga. Það er ekki ásættanlegt ástand. Við sem ritum undir þessa grein höfum þó þá trú á markaðinum og kynsystrum okkar að til þess að breyta þessum hlutföllum þurfi konur aðeins að halda áfram að hasla sér völl og sýna getu sína. Varla líður á löngu þar til eigendur fyrirtækja sjá tækifærin sem felast í því að nýta sér þessa hæfileika. Konur þurfa enga meðgjöf í viðskiptalífinu. Við erum tilbúnar.
Drífa Kristín Sigurðardóttir, lögfræðingur
Ingunn Guðbrandsdóttir, MA nemi í mannauðsstjórnun
Ásdís Rósa Þórðardóttir, sameindalíffræðingur
Berglind Hallgrímsdóttir, verkfræði
Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, nemi í stjórnmálafræði
Þórhildur Birgisdóttir, MA nemi í alþjóðasamskiptum
Guðrún Pálína Ólafsdóttir, viðskiptafræðingur
Unnur Brá Konráðsdóttir, lögfræðingur
Stefanía Sigurðardóttir, framhaldsskólanemi
Fanney Rós Þorsteinsdóttir, lögmaður
Ingunn H. Hauksdóttir, endurskoðandi
Hrefna Lind Ásgeirsdóttir, nemi í hugbúnaðarverkfræði
Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir, nemi í stjórnmálafræði
Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir, lögmaður
Sigrún Helga Jóhannsdóttir, lögmaður
Rúna Malmquist, viðskiptafræðingur
Sesselja Dagbjört Gunnarsdóttir, nemi í viðskiptafræði
Ásta Lára Jónsdóttir, nemi í stjórnmálafræði
Katrín H. Hallgrímsdóttir, lögmaður
Helga Kristín Auðunsdóttir, viðskiptalögfræðingur
Bryndís Harðardóttir, hagfræðinemi
Heiðdís Halla Bjarnadóttir, nemi
Jarþrúður Ásmundsdóttir, viðskiptafræði
Ásta Sigríður Fjeldsted, nemi í verkfræði
Erla Ósk Ásgeirsdóttir, stjórnmálafræðingur
Diljá Mist Einarsdóttir, nemi
Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir, laga- og stjórnmálafræðinemi
Soffía Kristín Þórðardóttir, verkefnastjóri
Kristín María Birgisdóttir, nemi í stjórnmálafræði
- Við erum tilbúnar - 19. júní 2006