Mörgum virðist finnast fátt fánýtara en óvirkjaður foss. Að hugsa sér alla orkuna sem fer til spillis! Hana mætti nýta til að bræða málma eða auðga úran.
|
Ísland býr að tveimur miklum náttúruauðindum. Annars vegar er um að ræða fiskistofnana við Ísland og hins vegar náttúru landsins. Eins og í öðrum löndum er mikið kapp lagt á að nýta þessar náttúruauðlindir sem best . Þó er verulegur munur á því hvernig til hefur tekist. Líklegast ræður þar mestu að um eðlisólíkar auðlindir er að ræða og að önnur auðlindin hefur mjög lotið markaðslögmálum en hinni er ráðstafað í pólitískum tilgangi.
Kvótakerfið í sjávarútvegi var mikið gæfuspor fyrir Íslendinga. Í dag er almennt viðurkennt að fiskveiðistjórnunarkerfi Íslendinga hafi gagnast hvað best við að vernda sjávarstofna frá rányrkju – og þar með er stuðlað að því að auðlindin haldi áfram að gefa af sér um alla framtíð. Lykilatriði í þeirri þróun var að veiðikvótinn er framseljanlegur og veðsetjanlegur. Þessir tveir eiginleikar, sem valdið hafa miklum illdeilum, gera það að verkum að nýtingarréttur auðlindarinnar flyst á milli fyrirtækja og leitar í þann farveg þar sem verðmætasköpunin er mest. Erfitt er að ímynda sér að hægt hefði verið að koma þessu farsæla kerfi á í upphafi nema með því að gefa veiðiheimildirnar, enda töldu útgerðarmenn ekki að verið væri að afhenda þeim rétt til þess að veiða heldur var í þeirra auga verið að taka af þeim rétt til þess að veiða.
Vel heppnuð stefna stjórnvalda og hagsmunaaðila í varðveislu sjávarstofnanna ætti að vera mönnum lexía þegar spurningar vakna um nýtingu annarra náttúruauðlinda.
Í marga áratugi hefur sú stefna verið ríkjandi á Íslandi að virkjun fallvatna feli í sér mikil tækifæri fyrir íslensku þjóðina. Jafnan hefur það verið kappsmál stjórnvalda að laða til landsins „orkufrekan“ iðnað svo hægt sé að nýta auðlindina. Þar hefur hugsunin verið einhvern veginn þannig að það sé synd að nýta ekki auðlindina – rétt eins og það hefur lengi verið talinn ósiður á Íslandi að klára ekki matinn sinn. Það hefur verið sérstakt kappsmál að lokka til landsins iðnað sem krefst mikillar fjárfestingar og mikillar orku – en minna hefur verið lagt upp úr fjárhagslegum ávinningi verkefnanna.
En náttúruauðlindir Íslendinga eru ekki aðeins fólgnar í því rafmagni sem hægt er að framleiða úr þeim. Náttúran hefur gildi í sjálfri sér. Fegurð er verðmæt þótt hún sé gagnlaus. Og ef slík rök eru slegin út af borðinu sem tilfinningavella þá er heldur enginn skortur á efnahagslegum rökum sem mæla gegn því að fulltrúar stjórnvalda ferðist um heiminn og selji íslenska náttúru á útsöluprís og halda því fram að um endurnýjanlega auðlind sé að ræða – og því umhverfisvænni en aðrir valkostir.
En náttúra Íslands er ekki endurnýjanleg auðlind. Með því að ráðstafa henni undir vatnsaflsvirkjanir, til að skapa störf sem engin þörf er á um þessar mundir, er verið að rústa náttúrunni til frambúðar. Þegar búið er að sökkva landi undir lón er ekki hægt að hætta við og koma því aftur í upprunalegt horf.
Eins og staðan er núna er verið að stunda rányrkju á annari af helstu náttúruauðlindum landsins. Úr því okkur Íslendingum lánaðist að snúa af þeirri braut í sjávarútvegi – hví skyldum við þá klúðra málum þegar kemur að hálendi Íslands og náttúrunni?
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021