Um þessar mundir stendur yfir auglýsingaherferð á vegum fjölmargra fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka undir yfirskriftinni: “Ég ætla að bíða”. Auglýsingarnar hvetja unglinga til þess að bíða með að byrja að neyta áfengis. Rökin fyrir því að unglingar eigi að bíða sem sett eru fram í auglýsingunum eru eftirfarandi:
“Rannsóknir hafa leitt í ljós að upphafsaldur áfengisneyslu hefur mikil áhrif á notkun og misnotkun áfengis síðar á ævinni. Því yngri sem börnin eru þegar þau byrja að neyta áfengis þeim mun meira drekka þau síðar á ævinni og líkur á misnotkun aukast.”
Í auglýsingunni eru síðan nokkur dæmi og línurit um fylgni áfengisneyslu og aldursins þegar börn byrja að drekka.
Þessar auglýsingar eru sorglegt dæmi um misnotkun á tölfræði. Í auglýsingunum er verið að reyna að fá unglinga til þess að fresta því að hefja áfengisneyslu með því að halda því fram að þau geti minnkað líkurnar á ofdrykkju síðar á lífsleiðinni. Þessi staðhæfing á einungis við rök að styðjast ef orsakasamband er milli aldurs barna þegar þau hefja neyslu áfengis og ofdrykkju síðar á lífsleiðinni. Upplýsingarnar í auglýsingunni snúast hins vegar eingöngu um að fylgni sé milli aldurs barna þegar þau hefja neyslu áfengis og ofdrykkju síðar á lífsleiðinni.
Markhópur auglýsingarinnar (börn og unglingar sem ekki hafa numið tölfræði) er því í raun blekktur. Fimmtán ára unglingurinn sem les auglýsinguna er látinn halda að ef hann bíður með að byrja að drekka þar til hann er 17 ára minnki hann líkurnar á því að hann muni eiga við áfengisvandamál að stríða á fullorðinsárum um heil 15 prósentustig (úr 40% í 25%). Í raun segir auglýsingin nákvæmlega ekki neitt um það hvaða áhrif slík tveggja ára bið mun hafa á líkurnar á áfengisvandamálum síðar á lífsleiðinni.
Fylgnin milli ofneyslu og aldurs við upphaf neyslu getur öll verið til kominn vegna mismunandi aðstæðna á heimili mismunandi barna eða mismunandi uppeldis eða mismunandi ættgengra þátta. Allir þessir þættir eru líklegir til þess að hafa áhrif á aldur barna við upphaf neyslu og líkurnar á ofneyslu síðar á lífsleiðinni.
Því miður er allt of algengt að opinber áróður sem haldinn er að börnum sé uppfullur af upplýsingum sem ekkert mark er takandi á. Þetta er bagalegt ekki aðeins vegna þess að fyrir vikið eru börn verr upp lýst en ella heldur einnig vegna þess að þetta grefur undan trúveruleika þess áróðurs sem opinberir aðilar halda að börnum almennt og gerir það að verkum að börn og unglingar taka minna mark á ráðleggingum opinberra aðila en æskilegt væri.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009