Nú þegar staða sólar nær hámarki sjást gamalkunnar fræsinga- og malbiksvélar æ oftar á götum borgarinnar. Þær munu sjást alloft í sumar og gleðja okkur með nærveru sinni í borgarumferðinni næstu fjóra mánuðina. Dagar malbiksvíns og fræsingarósa eru hafnir að nýju, þetta sumarið sem ófá sumurin þar áður.
Þótt fæstir hafi gaman af fræstum götum, hvössum brúnum og lokunum hér og þar í tíma og ótíma þá taka flestir vörunni fegins hendi. Rennisléttu malbiksyfirborði án nokkurra hjólfararása. En árangurinn er því miður oft ótrúlega skammvinnur. Líftími yfirborðsins er ekki nema fáein ár, alltént á mestu umferðargötunum. Kostnaðurinn við endurbæturnar er sömuleiðis gífurlegur. Nokkrir tugir manna eru nánast í vinnu allt liðlangt sumarið við að halda ástandinu í sama horfi.
Eins og komið var inn á í pistli fyrr á þessu ári þá eru malbiksviðgerðir, eins og svo óramargt er tengist samgöngumálum, lýsandi fyrir ytri áhrif á ákveðnum markaðsgalla. Þessi galli er sá að allir notendur umferðarkerfisins, og í raun allir skattgreiðendur í það heila, eru í raun eru að borga fyrir ákveðið val sem bundið er við afmarkaðan notendahóp. Og í þessu tilviki er heildin ekki einungis að gjalda þess í formi þeirra fjármuna sem varið er í malbiksviðgerðir ár hvert. Heildin er jafnframt að gjalda fyrir valið með heilsuspillandi hliðaráhrifum í formi svifryksmengunar á veturna. Jafnt við sem börnin okkar.
Sá tími er liðinn að nagladekk eru nauðsynlegt öryggistæki í borgarumferðinni á veturna. Nýjar tegundir vetrardekkja (einkum loftbóludekk) eru álíka árangursríkar við hálkuaðstæður og nagladekk, ekki síst þegar hemlavarna nýtur við í bílunum. Þessar aðstæður eru bundnar við hlutfallslega fáa daga yfir vetrartímann. Nagladekk eru þekkt fyrir að veita falskt öryggi og auka umferðarhraðann þegar hann má síst við því. Og eilítil aukning í hraða eyðir fljótt því litla forskoti sem nagladekk hafa á flestar aðrar gerðir vetrardekkja. Og ekki má gleyma verri svörun nagladekkja við votar aðstæður. Fjallað var um þetta nánar í eldri pistli.
Víðast hvar í nágrannalöndum okkar er nagladekkjanotkun bönnuð. Hætta sem skapast af uppsöfnun regnvatns í hjólförum, mengun og kostnaður er ærin ástæða til að banna þessa notkun. Á norðlægum slóðum er hún þó leyfð en oft mjög takmörkuð innan borgarsvæða.
Í Noregi var nýlega tekið gjald af notkun nagladekja innan borgarmarka allra helstu borga þessa lands. Gjaldtakan er sáraeinföld. Dregin er lína utan við byggðina er skilgreinir mörk gjaldtökunnar. Innan þess verður viðkomandi bíll annað hvort að vera á viðurkenndum vetrardekkjum yfir vetrartímann eða á nagladekkjum og að auki með gildan nagladekkjapassa í bílrúðunni. Ellegar hlýtur viðkomandi sekt. Þessa passa er hægt að kaupa rétt eins og hvert annað líkamsræktarkort. Gildistíminn er annað hvort allt tímabilið eða afmörkuð tímabil, eins og mánuður, vika eða jafnvel dagspassi. Þetta er gert til að fólki utan af landsbyggðinni sé gert kleyft að heimsækja borgirnar án þess að vera sektað. Markmiðið um hlutfallslega fækkun nagladekkja í umferðinni niður í 20% náðist fljótlega, þar sem gjaldið tók mið af ákveðinni verðlagsbestun til að sá árangur myndi nást.
Er ekki orðið löngu tímabært að skoða af fullum þunga sams konar gjaldtöku af nagladekkjum hér á landi eins og í öðrum siðmenntuðum löndum? Og enda þessa síendurteknu daga malbiksvíns og fræsingarrósa sem við upplifum hvert sumarið á fætur öðru.
- Hálendisfrumvarpið er dautt, lengi lifi hálendisfrumvarpið - 10. júní 2021
- Gamalt vín á nýjum belgjum - 7. apríl 2021
- Borgarlína á toppnum - 20. febrúar 2021