Enn ein vikan rennur sitt skeið á enda með deginum í dag. Og eflaust eru margir sem huga að því að lyfta sér eilítið upp eins og hefð er fyrir. Það má því eiga von á mannmergð í miðbæ Reykjavíkur í kvöld.
Margir slyngir viðskiptamenn sjá í mikil viðskiptatækifæri í mannmergð sem þessari. Er skyggja fer sést guli og geðþekki Vöffluvagninn oftar en ekki taka sér stöðu á miðju Lækjartorgi. Ýmsir aðrir veitingavagnar taka sér stöðu á sínum hornum, reiðubúnir að seðja hungur þreyttra djammara.
En maginn er ekki eina hungrið sem slyngir viðskiptamenn reyna að seðja í miðborginni um helgar. Trúbadorinn Jójó er nefnilega eitt góðra dæma um listamenn sem leita uppi markaði fyrir list sína. Ekki síst þegar viðskiptavinurinn er e.t.v. ekki með fullkomna stjórn á útgjöldum sínum.
Rétt eins og vöfluvagninn sést Jójó iðulega taka sér stöðu í anddyri Pennans í Austurstræti þegar rökkva fer. Og veðurfar og vosbúð skiptir hann litlu. Hann býr sig einfaldlega betur. Loðhúfan er sjaldan langt frá. Með munnhörpu, gítar og lítinn magnara að vopni kyrjar hann gamalkunna slagara. Og jafnvel frumsamda.
Fátt er eins notalegt eins og að heyra hina ljúfu – en þó e.t.v. misgóðu – tóna úr magnara Jójó mæta manni á röltinu eftir Austurstræti. Þessi gamalgróna borgargata má muna fífil sinn fegurri. En tónarnir gefa henni þó eilítinn stórborgarkeim. Smá bragð af mannlífi fyrri tíma. Stemningu sem maður saknar óneitanlega eftir að hafa upplifað hana erlendis í mun stærri skömmtum.
Jójó þiggur – að því er pistlahöfundur best veit – enga opinbera styrki. Það er ekki mjög líklegt að hann hafi komið til álits í vali á borgarlistamanni Reykjavíkur þetta árið sem fyrri ár. En það er alveg ljóst að Jójó er verðmætasti listamaður borgarinnar í hugum sumra. Að minnsta kosti í huga þessa pistlahöfundar. Hann gerir meira fyrir mannlífið í borginni en allir hinir samanlagt. Og ég tippa hann alltaf duglega þegar hann sést á sínum stað. Maður uppsker að launum stutt “thank you so much” og smá bros. Við Jójó erum vinir og ég kann vel að meta þá vináttu. Og maður leggst í rúmið með bros á vör, þreyttur, útdjammaður en alsæll eftir ævintýri næturinnar.
Ef þú kæri lesandi ert á sama máli, þá er dagskipunin einföld. Ef þú hyggur á ferð í miðbænum í kvöld: muna að tippa Jójó!
- Hálendisfrumvarpið er dautt, lengi lifi hálendisfrumvarpið - 10. júní 2021
- Gamalt vín á nýjum belgjum - 7. apríl 2021
- Borgarlína á toppnum - 20. febrúar 2021