Í nýjasta hefti hagfræðitímaritsins Quarterly Journal of Economics er grein eftir Xavier Sala-I-Martin (Columbia) um tekjudreifingu heimsins. Í greininni rannsakar hann gögn um tekjuskiptingu í mismunandi löndum á árunum 1970 til 2000. Helstu niðurstöður Sala-I-Martins eru annars vegar að fátækt og örbirgð (e. extreme poverty) í heiminum hafi minnkað verulega á þessu 30 ára bili og hins vegar að misskipting tekna í heiminum hafi minnkað verulega á níunda og tíunda áratuginum.
Sala-I-Martin notar fjóra mismunandi mælikvarða á fátækt í rannsókn sinni: $1/dag, $1,5/dag, $2/dag og $3/dag (allt miðað við verðlag árið 1996). Fyrir alla af þessum mælikvörðum kemst hann að þeirri niðurstöðu að hlutfall jarðarbúa sem búa við fátækt hafi lækkað um 30-50%. Þetta þýðir að fjöldi þeirra sem búa við fátækt hefur lækkað um 250 til 500 milljónir á þessum árum.
En það sem er kannski athyglisverðast í niðurstöðum Sala-I-Martins er að örbirgð hefur nánast verið útrýmt alls staðar í heiminum nema í Afríku. Samkvæmt mati hans var örbirgð mjög útbreidd árið 1970. Ef við miðum við $1,5/dag var hlutfall þeirra sem bjuggu við örbirgð árið 1970: 32,7% í Austur Asíu, 30,3% í Suður Asíu, 10,3% í Suður Ameríku og 35,1% í Afríku. Árið 2000 voru þessi sömu hlutföll: 2,4% í Austur Asíu, 2,5% í Suður Asíu, 4,2% í Suður Ameríku en 48,8% í Afríku.
Í stað þess að vera mjög útbreitt vandamál hefur örbirgð því orðið að staðbundnu vandamáli á síðustu 30 árum þar sem ríki eins og Indland, Kína, Indónesía og Suður Kórea hafa lyft hundruðum milljóna þegna sinna úr örbirgð á meðan ríki Afríku sunnan Sahara hafa sokkið dýpra í fátæktarfenið. Árið 1970 bjuggu aðeins 13,4% af öllum þeim sem bjuggu við örbirgð í Afríku. Árið 2000 var þetta sama hlutfall komið í 74,5%.
Flestar af niðurstöðum Sala-I-Martin eru mikið gleðiefni. Þær sýna að hundruð milljóna manna hafa lyft sér úr örbirgð á síðustu áratugum og að misskipting tekna í heiminum hefur minnkað þar sem fátæk ríki hafa vaxið hratt og saxað á forskot hinna ríkari þjóða. En þróunin í Afríku er því miður ömurlegur harmleikur sem vart sér fyrir endan á.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009