Af heimasíðu Alþingis.
|
Nú lítur út fyrir að Halldór Ásgrímsson sé að hætta í stjórnmálum. Halldór langaði mjög að verða forsætisráðherra en því miður fyrir hann reyndist löngunin til að hafa kafla um forsetisráðherratíð sína í ævisögunni mun meiri en hæfileikinn til að gegna slíku embætti.
Halldór brosti út í bæði þegar hann og Davíð gengu af fundi eftir kosningarnar 2003 og tilkynntu um að Davíð mundi víkja fyrir Halldóri eftir sextán mánuði. Það var einlægt bros og eiginlega hjartnæmt að sjá, líkt og þegar einhver sem maður elskar brosir þegar hin fullkomna jólagjöf birtist út úr jólapakkanum. En þetta var líka seinasta skipti sem við sáum Halldór brosa.
Halldór var nefnilega þessi forsætisráðherra sem var afskaplega áhyggjufullur yfir öllu saman og undirstrikaði þessar áhyggjur sínar með því að stofna um þær hvers kyns nefndir. Hann var hafði áhyggjur af háu matvælaverði. Stofnaði nefnd. Hann heyrði af því að menn hafi verið að hlera símtöl fyrir áratugum síðan. Lofaði strax að skipa nefnd. Svaka leiður og áhyggjufullur.
Dag einn ákvað Kjaradómur að hækka laun Halldórs í samræmi við gildandi lög. Þetta fannst Halldóri leiðinlegt að heyra. Hann sendi dómurunum bréf og bað þá um að dæma aftur. Og varð svaka leiður yfir því að þeir tækju illa í þessa hugmynd.
Auðvitað hefði Davíð aldrei stressað sig út af einhverri Kjaradómsólgu. Ef eitthvað er jafnöruggt og það að dómar Kjaradóms um laun þingmanna veki deilur í þjóðfélaginu, þá er það það að þær deilur lognast út af þegar merkilegri fyrirsagnir fara að birtast í fjölmiðlum. En Halldór gat ekki hætt að hafa áhyggjur og afnám launhækkun sína með lögum. Kannski kristallast mistæki Halldórs best í því að honum tókst ekki einu sinni að verða vinsæll á því að lækka eigin laun. Jafnvel sem popúlisti var hann fremur slappur.
Eflaust hafði Halldór ýmsar ágætar hugmyndir og vildi vel. Evrópuhneigðin hans kom t.d. skemmtilega á óvart en hún náðu nú ekki langt út fyrir ræðupúltið. Líklegast var hann hræddur við hvað öðrum framsóknarmönnum fannst um hana. Svo bauð hann fram í Reykjavík til að gera flokkinn þéttbýlisvænni. Líklegast eina djarfa ákvörðunin á ferlinum, en gekk nótabene ágætlega.
Halldór hættir vegna þess að hann er áhyggjufullur. Í þetta skipti af stöðu Framsóknarflokksins. En kannski er þetta bara tylliástæða fyrir Halldór til að losa sig út úr vinnu sem var erfiðari og leiðinlegri en hann hélt að hún mundi vera. „Þetta virtist eitthvað svo létt og skemmtilegt hjá Davíð!“ hugsar Halldór ef til vill.
Halldór Ásgrímsson var ekkert sérstaklega góður forsætisráðherra og hann brann út strax á fyrstu dögum í embættinu. Menn eiga í sjálfu sér skilið smá virðingu fyrir að átta sig á því að þeir séu ekki starfi sínu vaxnir. Halldór á því skilið smá hrós fyrir þessa (væntanlegu) ákvörðun sína. Þ.e.a.s. ef hann heldur sér frá Seðlabankastólum og öðrum dæmigerðum eftirlaunastöðum útbrunninna stjórnmálamanna.
En það verður varla sagt að framtíð Framsóknar sé björt. Flokknum er eiginlega vorkunn að þurfa velja að milli Guðna Ágústssonar og Finns Ingólfssonar sem framtíðarleiðtoga. Hvor um sig tákna þeir tvo helstu lesti flokksins í augum almennings: Sveitalubbaháttinn og sérhagsmunagæsluna.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021