Í þróunarlöndunum lifa um 1 milljarður manna á minna en einum dollara á dag,
17% búa við langvarandi hungur, eitt af hverjum 12 börnum deyr fyrir 5 ára aldur og 115 milljónir barna hafa ekki aðgang að grunnmenntun.
Með Þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna hefur alþjóðasamfélagið sett sér skýr og metnaðarfull markmið um að draga verulega úr fjölda þeirra sem búa við sára fátækt og misrétti, án grunnmenntunar eða lágmarks heilbrigðisþjónustu. Þau fela meðal annars í sér að milli 1990 og 2015 sé dregið úr barnadauða um 2/3 og að þeim sem búa við sára fátækt og hungur sé fækkað um helming, auk þess sem stefnt er að öll börn á grunnskólaaldri séu í skóla.
Hagfræðiprófessorinn Jeffrey Sachs, sem er yfirmaður Þúsaldarverkefnis Sameinuðu Þjóðanna, hefur sett fram sannfærandi röksemdarfærslu fyrir auknum útgjöldum til þróunarmála í bók sinni The End of Poverty. Hann leggur áherslu á að allra fátækasta fólkið — það sem lifir á minna en einum dollara á dag — hafi ekki möguleika á að byggja upp eignir, afla sér menntunar eða á annan hátt komast upp úr sárustu fátæktinni og að alþjóðasamfélagið verði að hjálpa þessum hópi til að komast á “fyrsta þrepið í stiganum til þróunar”. Í bókinni kemur einnig fram að samkvæmt útreikningum geti Þúsaldarmarkmiðunum verið náð ef ríkari lönd heimsins leggja til 0,7% af landsframleiðslu til þróunaraðstoðar. Slíku framlagi hefur síðustu 35 árin verið marglofað af ríkari löndum heims.
Árið 1985 ályktaði Alþingi um að framlög íslenska ríkisins til þróunarmála skyldu aukin upp að 0,7% markinu á næstu 7 árunum þar á eftir. Efndirnar voru ekki betri en svo að árið 1999 stóðu framlögin í 0,09%. Síðan þá hafa þau hækkað, en stóðu þó einungis í 0,21% í fyrra. Til samanburðar hafa Noregur, Danmörk og Svíþjóð öll náð 0,7% takmarkinu og vel það. Ísland er, líkt og þessi nágrannaríki okkar, eitt allra ríkasta land í heimi.
Það er engin ástæða fyrir því að Ísland ætti ekki að taka sömu ábyrgð á alþjóðavettvangi (í hlutfalli við stærð) eins og aðrar vel stæðar þjóðir. En einhverra hluta vegna er aðgerðarleysi staðreynd. Viðhorfið virðist vera að gefa nóg til að halda uppi jákvæðum fyrirsögnum í Mogganum meðan skorast er undan því að taka ábyrgð í samræmi við stöðu meðal ríkustu landa. Ríkjandi aðgerðarleysi — bæði Íslendinga og annarra — er ótækt á meðan 6 milljónir barna deyja árlega vegna fyrirbyggjanlegra orsaka, milljónir barna eyða æskunni í að sækja vatn eða eldivið og alnæmisfaraldurinn er á góðri leið með að snúa til baka allri þróun sem átti sér stað í Afríku milli 1960 og 1990.
Það skiptir væntanlega ekki sköpum fyrir þróunarmál í Afríku, þegar á heildina er litið, hvaða stefnu lítið land eins og Ísland tekur í þessum málum. En aukin þróunaraðstoð frá Íslendingum (upp að 0,7% markmiðinu) myndi skipta sköpum fyrir þá sem nytu hennar og auka þrýsting á aðrar þjóðir að ná sama markmiði (sem er jafnvel mikilvægara). Eins og staðan er í dag er framlag Íslendinga skammarlega lítið og því nauðsynlegt að taka markviss skref til úrbóta.
- Við, þau og loftslagsbreytingar - 20. júní 2007
- Veðjað á þakið - 24. mars 2007
- Kosningar í Bangladesh - 27. janúar 2007