Byr í seglum Sjálfstæðisflokksins

Í dag verður kosið í sveitarstjórnarkosningum um allt land. Mikil spenna ríkir í mörgum bæjarfélögum þar sem mjótt er á munum milli einstakra framboða en annars staðar virðist liggja í augum uppi hver úrslit kosninganna verða. Sé litið yfir landið í heild sinni er Sjálfstæðisflokkurinn að bæta við sig fylgi í nær öllum sveitarfélögum.

Í dag verður kosið í sveitarstjórnarkosningum um allt land. Mikil spenna ríkir í mörgum bæjarfélögum þar sem mjótt er á munum milli einstakra framboða en annars staðar virðist liggja í augum uppi hver úrslit kosninganna verða. Sé litið yfir landið í heild sinni er Sjálfstæðisflokkurinn að bæta við sig fylgi í nær öllum sveitarfélögum. Útlit er hins vegar fyrir að Framsóknarflokkurinn sé að tapa verulegu fylgi og gildir þá einu hvort hann er í samstarfi við vinstriflokkana eða Sjálfstæðisflokkinn í viðkomandi bæjarfélögum. Þá er einnig athyglisvert að Samfylkingin er með nokkrum undantekningum á borð við Hafnarfjörð að missa fótfestuna.

Úrslitin virðast ráðin í nokkrum bæjarfélögum. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ undir forystu Árna Sigfússonar mun vinna þar yfirburðasigur og allt stefnir í að Gunnari Birgissyni og félögum í Kópavogi muni takast að vinna hreinan meirihluta. Samfylkingin í Hafnarfirði virðist að sama skapi eiga sigurinn vísan og hreinan meirihluta þar í bæ. Sameiginlegt framboð vinstrimanna á Ísafirði á samkvæmt skoðanakönnunum möguleika á hreinum meirihluta. Sjálfstæðisflokkurinn heldur væntanlega meirihluta sínum í Garðabæ, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ, en á Akureyri er flokkurinn í erfiðari stöðu, þrátt fyrir að halda fylgi sínu, þar sem samstarfsflokkurinn virðiast ætla að bíða afhroð. Mjög spennandi verður að fylgjast með talningunni í Vestmannaeyjum, í Árborg og á Akranesi en í öllum þessum sveitarfélögum virðast sjálfstæðismenn eiga möguleika á að fella meirihluta vinstrimanna.

Athygli manna beinist mjög að höfuðborginni, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn á möguleika á hreinum meirihluta samkvæmt síðustu skoðanakönnunum. Í síðustu borgarstjórnarkosningnum fengu Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Vinstrigrænir sameiginlega tæplega 54% atkvæða undir merkjum R-listans. Af skoðanakönnunum má ráða að Reykvíkingar hafa mjög takmarkaðan áhuga á frekara R-listasamstarfi enda nemur fylgistap þessara flokk sameiginlega meira en 10 prósentustigum. Munar þar mest um mikið fylgistap Samfylkingarinnar sem hefur verið að mælast með 25-27% fylgi í síðustu könnunum. Framsóknarflokkurinn á erfitt uppdráttar í Reykjavík, eins og reyndar í flestum öðrum byggðarlögum, en Vinstrigrænir hafa óvenju sterka stöðu í borginni og eygja möguleika á þremur mönnum.

Það hefur verið nokkuð skondið að fylgjast með kosningabaráttu Samfylkingarinnar í borginni. Samfylkingin tók þann pól í hæðina að Reykjavík væri frábær. Það er nokkuð skynsamlegt hjá ráðandi valdhöfum. Hins vegar hefur kosningastjórn Samfylkingarinnar verið með eindæmum óheppin með þau dæmi sem lögð hafa verð fram til stuðnings þessari fullyrðingu. Má þar nefna að Samfylkingin hefur hreykt sér af Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og bent á hann sem dæmi um uppbyggingu á valdatíma R-listans. Hins vegar háttar þannig til að Húsdýragarðurinn var opnaður árið 1990 þegar Davíð Oddsson var borgarstjóri og síðan endurbættur sem Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn árið 1993 þegar sjálfstæðismenn voru enn í meirihluta í borginni. Annað dæmi sem nefna mætti er auglýsing með Degi Bergþórusyni Eggertssyni, borgarstjóraefni Samfylkingarinnar, þar sem hann stendur við Árbæjarlaugina og bendir á hana sem einn af sínum uppáhaldsstöðum í borginni. Árbæjarlaugin var tekin í notkun áður en R-listi komst til valda fyrir 12 árum og ekki nóg með það, heldur voru sjálfstæðismenn þá harðlega gagnrýndir af flokkunum sem runnu inni í R-listans fyrir flottræfilshátt við byggingu laugarinnar. Leitun er að öðrum eins klaufaskap í kosningabaráttu.

Heilt yfir hefur Samfylkingin smám saman verið að tapa fylgi eftir því sem nær hefur dregið kjördegi. Mjög athyglisvert er að í síðustu könnun er Samfylkingin með undir 27% fylgi en í síðustu kosningum fékk flokkurinn undir forystu Össurar Skarphéðinssonar ríflega 35% fylgi í Reykjavíkurkjördæmunum báðum. Ljóst er að það yrði alvarlegt áfall fyrir Samfylkingu, og þá einkum Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem kom Degi Bergþórusyni til forystu með dyggilegum stuðningi, ef flokkurinn næðist ekki fimm mönnum eða yrði með fylgi undir 30% þegar talningu lýkur í nótt.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur endurheimt sinn fyrri styrk eftir afhroðið í síðustu kosningum. Athyglisvert er að Sjálfstæðisflokkuinn er mælast með tæplega helmingsfylgi, þrátt fyrir að Frjálslyndir séu með upp undir 10% fylgi í skoðanakönnunum, en ýmsir urðu til þess að skýra afhroð flokksins árið 2002 á þann veg að hann hefði glímt við klofningsframboð á vegum F-listans. Ljóst er að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson nýtur víðtæks stuðnings borgarbúa til að stýra borginni á næsta kjörtímabili og mælist stuðningur við Vilhjálm heldur meiri en stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn. Hvort þessi sókn Sjálfstæðisflokksins í borginni dugar til að ná hreinum meirihluta er óvíst og kann það að ráðast af örfáum atkvæðum.

Það er skoðun Deiglunnar að hagsmunum Reykvíkinga væri best borgið ef Sjálfstæðisflokkurinn kæmist í meirihluta og gæti hrint stefnumálum sínum í framkvæmd. Þrátt fyrir að ýmislegt í stefnu flokksins í borginni sé helst til mikið byggt á félagshyggjulegum viðhorfum, þá eru meginlínurnar engu að síður þær að borgaryfirvöld eigi að skapa íbúum og atvinnulífi í borginni skilyrði til að blómstra á eigin forsendum. Það er staðreynd að Reykjavík hefur á flest alla mælikvarða dregist aftur úr nágrannasveitarfélögum sínum á síðustu 12 árum. Það eru brýnir hagsmunir allra Reykvíkinga að rjúfa þessa kyrrstöðu og gera borgina á nýjan leik að dýnamísku samfélagi, þar sem borgaryfirvöld greiða leið íbúanna í stað þess að leggja stein í götu þeirra, þar sem ábyrg forysta er grundvölluð á reynslu og framtíðarsýn.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)