Það er algjörlega óskiljanlegt hvers vegna tónlistar- og skemmtanabransinn, sem framleiðir allt þetta svala efni, er eiginlega meira púkó en landbúnaðurinn þegar kemur að fríverslun. Hagsmunaðilar iðnaðins hafa, með hjálp ríkisstjórna, byggt upp flókið kerfi einkaleyfa, höfundarréttargjalda, svæðaskiptinga, innflutningshafta og margfaldrar skattheimtu sem bókstaflega neyða annars löghlýðið fólk til að útvega sér skemmtiefnið á annan, oft vafasaman máta.
Brátt styttist í HM í knattspyrnu. Á Íslandi, eins og annars staðar geta knattspyrnuáhugamenn valið um það að horfa á mótið hjá einu tilteknu fyrirtæki, eða sleppa því alfarið.
Ef kaupa á bók þá er hægt að fara á netið og kaupa hana. Ef menn vilja ferðast með flugvél milli tveggja staða þá er oftast minnsta mál að koma slíku í kring gegnum netið. Bílar, hús, tónleikamiðar, allt er fáanlegt á netinu. En einhvern vegin er netaðgengi að gamaldags afþreyingu, í formi tónlistar, kvikmynda eða sjónvarpsþátta en alveg ótrúlega fábrotið og ávalt háð miklum hömlum.
Ef Íslendingur vill fylgjast með þáttaröðinni 24 þá er honum boðið að kaupa sér áskrift að Stöð 2, bíða í nokkrar vikur eftir að þátturinn rati til Íslands, verði þýddur og síðan sýndur í sjónvarpinu á einhverjum tilteknum tíma. Ef viðkomandi vill hins vegar fylgjast með þáttaröð sem alls ekki er sýnd á Íslandi stendur honum til boða að … gera það ekki.
Sjónvarpsstöðvar heimsins eru enn fastar í einhverju asnalegu kerfi einkaleyfa og hafta. Menn kaupa sér leyfi til að sýna tiltekinn sjónvarpsþátt í ákveðinn tíma og menn kaupa sér einnig einokun, þ.e.a.s. að engin annar í sama landi fái að sýna hann.
Nýlega bárust fréttir af því að breskt fyrirtæki sem sýnir Enska boltann hafi ákveðið að hætta að taka við áskriftargreiðslum frá Íslendingum, enda eiga aðrir sýningarréttinn á Íslandi. Neytendur fá sem sagt ekki sjálfir að ákveða hjá hverjum þeir kaupa vöruna. Líkt og á tímum einokunarverslunar er búið að ákveða það fyrir þá.
iTunes tónlistarbúðin er til dæmis ekki enn aðgengileg á Íslandi og ekkert bendir til að það muni breytast í bráð. Ástæðan er væntanlega flókið alþjóðleg net höfundarréttarlaga sem hagsmunaaðilar tónlistariðnaðarins hafa þrýst í gegn. Hinu íslenska STEFi þætti það eflaust óheillavænleg þróun ef menn gætu keypt sér tónlist í gegnum breskar eða bandarískar netsíður án þess að hin íslensku hagsmunasamtök fengu krónu í vasann. Þess vegna starfa allar tónlistarbúðir aðeins í einu landi, þær þurfa alltaf að semja við stefin á staðnum.
Það skiptir litlu máli hve margar málstaðsvekjandi ráðstefnur menn halda eða hve margar skammgreinar menn skrifa í blöðin. Það þarf einfaldlega að koma á almennilegum heimsmarkaði með tónlist og afþreyingu, þar sem efnið er ódýrt og aðgengilegt alls staðar í heiminum, á sama tíma. Annars mun fólk alltaf reyna að finna leiðir fram hjá höftunum.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021