Víða um heim er algengt að bækur um samfélagsleg málefni raði sér ofarlega á lista yfir þær bækur sem seljast mest. Í Bandaríkjunum er hefð fyrir því að blaðamenn og fræðimenn skrifi bækur um samtímann og hafa margar þeirra haft veruleg áhrif á pólitíska og samfélagslega umræðu þar í landi.
Hér á landi er þessi hefð ekki nándar nærri eins sterk. Hér láta samfélagsspekingar sér nægja að skrifa nokkrar greinar í Moggann eða á netið og mæta svo í spjallþætti til að rífast við þá sem eru þeim ósammála. Bók Andra Snæs Magnasonar, Draumalandið – sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð, má því segja að sé brautryðjandi í þessum geira bókmennta og viðtökurnar hafa verið slíkar að ljóst er að með því að hrinda þessari hugmynd í framfæri hitti höfundur á þörf sem enginn annar hafði komið í verk að svala.
Boðskapur Andra Snæs í Draumalandinu er áhugaverð blanda klassískrar frjálshyggju, umhverfisverndarstefnu og umhyggju fyrir listum og menningu. Eflaust má lesa margt úr skrifunum og túlka prédikunina á ýmsa vegu en grunnstefið í þeim skoðunum sem Andri færir rök fyrir er að óttinn við framtíðina og breytingar sé bremsa á framfarir í samfélögum. Stjórnmálamenn spila á ótta fólks með því að lofa þeim stöðugleika en í staðinn er farvegur fólks til nýsköpunar og framtakssemi stíflaður. Þessi stífla kallar svo á enn meiri afskipti stjórnmálanna af fólki og eykur kröfur til stjórnmálamanna um að setja fram lausnir – stórar hugmyndir og bjargráð.
Tvö dæmi sem Andri Snær fjallar ítarlega um eru herstöðvar og stóriðja. Svo vill til að dæmin eru mjög viðeigandi á Íslandi. Afstaða til beggja hefur á Íslandi klofið þjóðina og kallað fram hatrammar deilur og flokkadrætti. Fyrir vikið er líklegt að kaldastríðspólitíkusar og sérstakir áhugamenn um álbræðslu líti hugmyndir Andra Snæs hornauga. Erindi bókarinnar nær þó langt út fyrir þessi tilteknu hitamál í íslensku samfélagi. Í bókinni gerist Andri Snær nefnilega málsvari þeirrar bjartsýnu og mannvænglegu frjálshyggju sem byggist á frelsi fólks til þess að finna orku sinni, sköpunarkrafti og þekkingu farveg í opnu samfélagi. Bókin snýst um þá trú, sem haldið er fram af austurríska skólanum í hagfræði, að sjálfssprottið skipulag frjálsra einstaklinga í samfélagi skapi meiri hamingju og verðmæti heldur en miðstýrður áætlunarbúskapur á vegum ríkisins.
Andri Snær fjallar einnig um tengsl skapandi hugsunar í listum og menningu við nýsköpun í vísindum og viðskiptum. Sé litið til sögunnar er vart hægt að deila um þá sýn. Nýjungar verða til þegar fyrirliggjandi þekkingu er blandað saman á nýjan hátt – þannig verður súkkulaðikaka til þegar deigi og súkkulaði er blandað saman og bíll verður til þegar vél og hjólum er blandað saman og Internetið þegar tölvum og símalínum er blandað saman. Allar nýjungar hvíla því á skapandi hugsun og æfingar í skapandi hugsun – hvort sem er í frumvísindum eða listsköpun – geta því gagnast fleirum heldur en þeim sem ætla að gera sér annað hvort að lifibrauði. Með skapandi hugsun sér fólk tækifæri þar sem áður voru hindranir og samfélög breyta krepputímum í góðæri með því að sjá nýjar leiðir. Hinn skapandi eyðileggingarmáttur markaðarins, sem Schumpeter fjalaði um, er drifkraftur velsældar – en til þess að hann fá unnið sitt gagn þurfa stjórnmálamenn að hætta að þvælast fyrir honum. Þess í stað eiga þeir að nota vald sitt til að stuðla að umhverfið geri skapandi fólki kleift að finna nýjar leiðir þegar þær gömlu verða ófærar.
Sköpunarkraftur samfélagsins bíður hins vegar skipbrot þegar fólk hefur ekki lengur trú á því að það geti sjálft skapað verðmæti úr eigin þekkingu. Þá komast til valda stjórnmálamenn sem halda að þeir séu þess umkomnir að taka betri ákvarðanir um framtíð hóps einstaklinga heldur en einstalkingarnir hver í sínu lagi. Hvort sem bjargráðin felast í stóriðju, herstöð eða gangnagerð þá er mikilvægt að fólk spyrji sig þeirrar spurningar: „Hvort er líklegra að ég sjálfur eða framsóknarmenn allra flokka viti hvernig ég get skapað verðmæti úr því sem ég hef fram að færa?“ Ef svarið er „ég sjálfur“ ætti fólk að taka því með fyrirvara næst þegar stjórnmálamaður lofar að „bjarga atvinnuástandi“ með því að gera stórkarlalegan „business deal“ í útlöndum í krafti ríkisvaldsins og almannafjár.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021