Allir sem reglulega fara um gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar þekkja nauðsyn þess að gripið verði til varanlegra úrbóta og undir það taka flestir sérfræðingar. Um 75 þúsund bílar aka nú um þessi gatnamót á hverjum sólarhring og gera spár ráð fyrir að sú umferð muni enn þyngjast á næstu árum og áratugum. Biðtími við gatnamótin er nú þegar allt of langur og slysahætta einhver sú mesta sem þekkist í þjóðvegakerfi landsmanna.
Á síðasta ári var farið í að föndra við ljós og fleira við þessi gatnamót. En af hverju var ekki farið alla leið strax? Það er ljóst að talsverður kostnaður hefur farið í þetta föndur og þegar gengið verður alla leið þá mun heildar kostnaður verði miklu hærri en hann þurfti að vera. Allt bendir til þess að þessi framkvæmd sé dýr bráðabirgðalausn og bæti ástandið mjög lítið. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa margoft bent á í borgarstjórn og á síðum dagblaðanna að Miklabraut sé tjónamesta gata landsins, bæði hvað varðar fjölda slasaðra einstaklinga og eignatjón.
Í áfangaskýrslu vinnuhóps Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar kom. fram að mislæg gatnamót þarna myndu stytta tafatíma um allt að 70% og fækka umferðaróhöppum um u.þ.b. 80%. En þvert á þessar upplýsingar, og þrátt fyrir fjárveitingar og vilja ríkisins, hefur R-listinn ekki kosið að ganga til þessara brýnu framkvæmda. Það var reyndar eitt af fyrstu verkum núverandi meirihluta að taka þessi gatnamót út af aðalskipulagi árið 1996, en þegar þau voru sett aftur inn á núgildandi skipulag árið 2001 vöknuðu vonir um að hugsanlega væri einhverra breytinga að vænta.
En nú virðast flokkanir sem mynda meirihlutan (Samfylking, Vinstri grænir og Framsóknarflokkur) vera á leiðinni að taka þessa framkvæmd aftur af skipulagi. Á fundi borgarstjórnar í mars síðastliðnum sagði Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsráðs slík gatnamót ákveðna „ógn“ og jafnvel „mjög mikil mistök“.
Í alltof langan tíma hafa mikilvæg verkefni í samgöngumálum verið látin sitja á hakanum af borgaryfirvöldum, ekki síst vegna skorts á ákvörðunum og aðgerðum. Þessu verður að breyta og það verður ekki gert með því að líta framhjá staðreyndum eða leiða umræðuna stöðugt í nýjar ógöngur. Það verður miklu frekar gert með því að horfast í augu við veruleikann og viðurkenna t.d. að mislæg gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar eru forgangsverkefni til að tryggja öruggari og greiðari umferð. Þannig vinnum við raunverulega að hagsmunum þeirra sem í borginni búa.
- Millivegur - 23. apríl 2021
- Þak yfir höfuðið - 16. janúar 2021
- Góðærisvandamál? - 24. mars 2007