Síðastliðið sumar vorum við enn á ný minnt á árekstur íslamskra bókstafstrúarmanna og Vesturlanda, þegar 56 manns létu lífið og yfir 700 slösuðust í sjálfsvígsárásunum í London. Munurinn var þó sá að áreksturinn er ekki lengur milli austurs og vesturs þar sem sjálfsmorðárásamennirnir voru fæddir og uppaldir í Bretlandi.
Fyrir flest okkar eru sjálfsmorðsárásir með öllu óskiljanlegar og hvað þá að bókstafstrúarmenn, jafnt menn sem konur (og oft á tíðum unglingar) bíði í röðum eftir að fá að sprengja sig í loft upp í nafni trúarinnar. Þeir vilja ólmir fórna eigin lífi fyrir hugsjónina og til að verða að píslarvottum, og þar með tryggja sér passa til Paradísar. Þetta hljómar náttúrulega snarbilað. Flest elskum við lífið og okkur sjálf alltof mikið til að vera tilbúin til að fórna öllu þessu aðeins fyrir einhverja hugsjón, af hverju getur þeim ekki bara liðið eins? Árlega látast mörg hundruð óbreyttra borgara í sjálfsmorðsárásum um heim allan, og eru fórnarlömbin oft börn og gamalmenni. Það virðist þó engu breyta fyrir píslarvottana, fjölskyldur þeirra eru að springa úr stolti yfir hetjunum sem eru verðlaunaðar í Paradís. Það hlýtur að vera orðið frekar troðið í Paradís.
Er það í mannlegu eðli að fórna lífi sínu fyrir trú eða hugsjón? Hryðjuverkamenn al-Qaeda líta á sig sem hermenn Íslam í heilögu stríði gegn hinu illa. Þeir eru gífurlega einbeittir í baráttu sinni og meirihluti Vesturlandabúa lítur á þá sem ómennska eða geðbilaða einstaklinga. Það er þó ekki raunin því margir þeirra eru vel menntaðir og gáfaðir en ef til vill leitandi svara í lífinu. Þeir sem hafa rannsakað hegðun og eðli hryðjuverkamanna segja að ekki sé til algild regla um hegðunarmynstur þeirra, en að þeir séu alls ekki veikir á geðsmunum. Þeir sem ganga til liðs við hryðjuverkasamtök eru yfirleitt ungir menn, sem segjast finna svör við tilgangi lífsins hjá samtökunum og eru því tilbúnir að helga líf sitt hugsjóninni. Þeir eru auðveld bráð fyrir menn eins og Osama bin Laden.
Rannsakendur hafa einnig borið saman hryðjuverkasamtök eins og al-Qaeda við sértrúarsöfnuði þar sem hryðjuverkamenn tilbiðja leiðtoga sinn (bin Laden) eins og gúrú. Yfirleitt eru þeir einangraðir algerlega frá fjölskyldum sínum og öðrum hópum svo auðveldara sé að heilaþvo þá. Þeir þurfa jafnvel að klæðast öðrum fötum, þurfa að lifa eftir nýjum lífsreglum og breyta lífi sínu á allan hátt. Reynt er að gera þá ómennska t.d. með því að bera alltaf óvininn saman við eitthvað neikvætt eins og skordýr. Í þjóðarmorðinu í Rúanda 1994 voru Tútsar ávalt kallaðir kakkalakkar af bardagamönnum Hútúa; nasistaáróður líkti gyðingum við rottur og Sheikh Omar Abdel Rahman, egypskur leiðtogi Al-Gama’a al-Islamiya hryðjuverkasamtakanna sagði að múslimar þyrftu að drepa óvini Allah, sem væru komnir af svínum og öpum. Með slíkum heilaþvotti hætta hryðjuverkamennirnir að sjá óvini sína sem manneskjur og því mun auðveldara að slátra sjálfum sér og þeim í leiðinni. Hver hefur ekki drepið pöddu?
Margir ungir múslimar sem ganga til liðs við hryðjuverkasamtök hafa einungis fengið menntun í svokölluðum madrasas skólum, sem eru reknir af bókstafstrúarmönnum. Þetta einfaldar starfið mjög mikið fyrir leiðtoga al-Qaeda og svipaðra samtaka þar sem þegar er búið að heilaþvo ungviðið. Sú staðreynd að þrír af Bretunum sem sprengdu sig upp í London í fyrra höfðu farið á námskeið í íslömskum trúarfræðum í Pakistan hlýtur að segja okkur eitthvað.
Mohammed Sidique Khan, eða Sid eins og hann var einfaldlega kallaður, var forsprakki hópsins sem sprengdi sig upp í London. Hann var ekki staðalímynd hryðjuverkamanns. Fæstir vina hans voru múslimar heldur ósköp venjulegir hvítir Tjallar sem segja hann hafa verið mjög vestrænan í hugsun. Hann var virtur innan samfélagsins og var alltaf hlutlaus þegar ágreiningur kom upp milli ólíkra kynþátta í skólanum. Fjölskylda hans, breskir múslimar spyrja sig því sömu spurningar og aðrir Bretar; af hverju gerði hann þetta? Margir múslimar hafa einnig spurt sig hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að eitthvað svipað gerist aftur fyrst þessi góðhjartaði fjölskyldumaður gat umturnast svona og gert þetta. Einnig hafa þeir áhyggjur af því að aðrir samborgarar þeirra líti nú á allan hópinn sem mögulega hryðjuverkamenn. Það kemur mér á óvart að þeir skuli ekki þegar hafa tekið eftir því að margir horfa einmitt á þá af tortryggni og með hræðsluglampa í augunum. Á meðan við höldum áfram að leita leiða til að nálgast þetta eilífðarvandamál á réttan hátt, heldur Paradís áfram að freista.
- Passinn til Paradísar - 18. maí 2006
- Leitin að fjársjóðnum - 19. febrúar 2006
- Jarðsprengjur: ódýrar og auðveldar í framleiðslu! - 28. ágúst 2005