Það er ýmist haft eftir Mark Twain eða Benjamin Disraeli að til séu þrjár tegundir af lygum: “Lygar, bölvaðar lygar og tölfræði” og víst vita flestir að hægt er að beita tölfræði til blekkinga og að slíkum brögðum er beitt daglega og oft á dag. Hin algenga misnotkun á tölfræðiupplýsingum ætti að verða til þess að fólk, og sérstaklega fjölmiðlafólk, tæki slíkum upplýsingum með fyrirvara og hefði fyrir því að skoða forsendur gagnanna áður en dregin er ályktun. Því miður skortir alltof oft mjög upp á að svo sé.
Á miðvikudag birtust niðurstöður könnunar á vegum Jafnréttisráðs og Nefndar um efnahagsleg völd kvenna (allt er nú til!) á launamuni kynjanna. Í fyrirsögnum fréttatímanna var undantekningarlaust sagt að niðurstaðan væri sú að konur fengju 70% af launum karla. Í umræðum í fréttaþættinum 19-20 sögðu skýrsluhöfundar að þetta sýndi að launamunurinn væri enn svipaður og á þeim tíma þegar sérstakir kjarasamningar voru gerðir annars vegar við karlmenn og hins vegar konur og unglinga. Væri sú niðurstaða sönn væri vissulega ástæða til að hafa áhyggjur. En sem betur fer er ekki allt sem sýnist.
Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar kemur þó í ljós að fyrirsagnatúlkunin er alls ekki rétt. Upphafsorð skýrslunnar eru:
Réttari fyrirsögn hefði því verið “Konur fá 92,5% af launum karla” eða “Konur fá 89% af launum karla” – ekki 70%. Þetta er mikið misræmi og illskiljanlegt að aðstandendur skýrslunnar hafi ekki gert fjölmiðlafólki betur grein fyrir niðurstöðunni. Hún er nefnilega sú að launamun kynjanna má skýra að langmestu leyti af hlutlægum en ekki huglægum þáttum. Það sem eftir stendur, 7,5 – 11%, má hugsanlega rekja til kynferðis. Miðað við flestar rannsóknir sem birst hafa þá hljóta þetta að teljast ágæt tíðindi.
Staðreyndin varðandi launamun kynjanna og misrétti á grundvelli kynferðis er sú að hlutirnir horfa til betri vegar. Mikilvægasta breytingin er sú að ungar konur á vinnumarkaði standa ungum mönnum ekki lengur að baki hvað varðar hlutlæga þætti s.s. eins og menntun. Það kom t.a.m. fram í nýlegri rannsókn bandarísku stofnunarinnar Employment Policy Foundation að nú gegna bandarískar konur í 49% stjórnunar og sérfræðistarfa þótt þær séu einungis 47% alls vinnuafls (með sömu vinnubrögðum og Jafnréttisráð beitir mætti allt eins halda því fram að í þessu fælist gríðarlegt misrétti karlmönnum í óhag). Á Íslandi er staðreyndin sú að konur eru um 62,5% nema í sérskólum og háskólum hér á landi og í meirihluta í öllum deildum Háskóla Íslands nema verkfræði. Það þarf það ekki að bera vott um óhóflega bjartsýni að telja að kynjabundin launamunur muni heyra sögunni til eftir örfáa áratugi.
Vissulega er enn nokkuð í land með að konur og karlar séu á sama stað í atvinnulífinu. Það helgast m.a. vegna þess hversu skammt er síðan atvinnuþátttaka kvenna varð eins almenn og nú er. Það ætlar hins að verða erfitt að fá forsvarsmenn baráttunnar til þess að viðurkenna að verulegur árangur er að nást. Þess í stað kjósa Jafnréttisráð og nefndin góða að stilla niðurstöðum könnunar sínar upp á villandi forsendum. Jafnréttisráð býr nefnilega við þann undarlega veruleika að vöxtur hennar og framgangur er ekki háð árangri – heldur skorti á árangri. Því er líklegt er að fyrr muni englar frjósa í helvíti en að Jafnréttisstofnun sendi frá sér fréttatilkynningu þess efnis að baráttunni sé lokið – sigurinn í höfn.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021