Úrslit fyrri umferðar frönsku forsetakosninganna eru merkileg tíðindi. Hinn róttæki og umdeildi Jean-Marie Le Pen skaut sjálfum forsætisráðherra Frakklands, sósíalistanum Lionel Jospin ref fyrir rass. Þótt engin velkist í vafa um að Jacques Chirac fari með sigur af hólmi í seinni umferðinni, þá er engu að síður um að tefla mjög söguleg kosningaúrslit.
Merkilegt nokk þá eru Frakkar í mjög svipaðri stöðu nú og Austurríkismenn voru í þegar flokkur Jörgs Haiders komst í ríkisstjórn þar í landi. Þá fóru Frakkar fremstir í flokki Evrópuþjóða sem vildu slíta á öll tengsl landið og töluðu um „fasískt Austurríki“ – hvað ætli Frökkum, sem gjarnan vilja kalla sig ljósmæður lýðræðis í Evrópu, finnist um ástandið í sínum ranni nú? Það verður í það minnsta fróðlegt að fylgjast með viðbrögðunum í Brüssel við sigri Le Pens…
Sigur Le Pens er fyrst og fremst ósigur stóru flokkanna tveggja, Gaulista (RPR: Rassamble Pour la Republique) og Sósílistaflokksins (PS). Lítil þátttaka í kosningunum, að ekki sé minnst á sjálfa niðurstöðuna, ber vott um ósegjanlega þreytu almennings í Frakklandi gagnvart valdaflokkunum tveimur. Það þarf ekki að koma á óvart, þegar flokkarnir tveir eru skoðaðir í nánd.
Sósílistaflokkurinn í Frakklandi er í eðli sínu mun vinstrisinnaðri en systurflokkar hans á Bretlandi og í Þýskalandi. Hann er hugsanlega meira í ætt við það sem breski Verkamannaflokkurinn var undir stjórn Neils Kinnocks og þýskir sósíaldemókratar hefðu orðið undir stjórn Oscars Lafontains. Enda hefur ríkisstjórn Jospins knúið í gegn mörg af vitlausustu baráttumálum vinstri manna, t.d. styttingu vinnuviku, sem vitanlega hefur leitt til stóraukins atvinnuleysis. Fleira af vitlausum málum mætti nefna. En þessi vitleysisgangur hefur þó ekki dugað til að halda vinstriarmi flokksins ánægðum og er það einkum meint alþjóðahyggja Jospins, sem einkum birtist í upptöku evrunnar, sem fer í taugarnar á vinstri arminum. En hvernig sem á málin er litið má ljóst vera að stefna Jospins, sem hefur verið forsætisráðherra Frakklands síðustu 6 ár, hefur beðið skipbrot með ósigri hans.
En úrslitin eru ekki síður áfall fyrir Chirac. Sitjandi forseti hefur aldrei fengið jafn fá atkvæði í fyrstu umferð forsetakosninga. Flokkurinn höfðar ekki lengur til franska einkageirans, eins og hann gerði, og vegna fylgispektar hans við skriffinskubáknið í Brüssel, sjá franskir hægrimenn enga sérstaka ástæðu til að ljá honum atkvæði sitt. Í reynd má segja að RPR er hálfgert rekald í pólitísku tilliti, flokkurinn var fyrst og fremst þjóðernisflokkur undir stjórn Charles de Gaulle og allt frá því að hershöfðinginn úrilli féll frá hefur flokkurinn átt við tilvistarvanda að stríða.
Þegar tölurnar frá Frakklandi eru skoðaðar kemur í ljós, að ekki er um að ræða mikla fylgisaukningu þjóðernisofstopmannsins Le Pens. Stuðningsmenn stóru flokkanna hafa hins vegar ákveðið að sitja heima. Af hverju? Hugsanlega vegna þess að þeim hefur litlu máli þótt skipta hvor þeirra Chiracs eða Jospins ynni. Kannski er almenningur í Evrópu að átta sig á að því að stjórn mála er í sífellt ríkari mæli að færast til Brüssel, frá almenningi. Allar helstu ákvarðanir sem snerta daglegt líf fólks í Evrópulöndunum eru þannig teknar af embættisblókunum í Brüssel og það hlýtur að letja fólk til þátttöku í hinu lýðræðislega ferli. Kannski er þarna komið fram eitt sterkasta teiknið um lýðræðishalla Evrópusambandsins?
Það liggur auðvitað beinast við að leiðtogar Evrópuþjóða snúi bökum saman og rísi upp gegn þjóðernishyggju í vöggu lýðræðisins. Mjög sennilega mun Evrópusambandið hrinda af stað áætlun um málið og fjölmargir starfshópar verða skipaðir. En uppgangur þjóðernissinna er ekki vandamálið. Vandamálið er að stjórnmálamenn Evrópu eru ekki lengur í tengslum við almenning. Almenningur sem getur ekki haft áhrif á stjórnarhætti verður fráhverfur lýðræðinu. Rót vandans liggur í Brüssel.
- Uppgjör og ábyrgð - 15. apríl 2010
- Evrópusambandið í hlutverki handrukkara - 13. nóvember 2008
- Standa þarf vaktina - 26. september 2008