Á morgun fer fram forkeppni Evróvisjón í Aþenu í Grikklandi og mun þar Ágústa Eva Erlendsdóttir stíga á stokk fyrir Íslands hönd í gervi Silvíu Nætur. Engin leið er að spá fyrir um afdrif lagsins í keppninni. Lagið gæti flogið inn í undanúrslit en líka er vel líklegt að um verði að ræða stórkostlegt flopp.
Í gegnum tíðina hafa nokkur „grínlög“ verið send í Evróvisjón og hafa Þjóðverjar verið þar nokkuð iðnir við kolann. Árið 1979 sendu Þjóðverjar hið afar léttleikandi band Dschingis Khan, sem endaði í fjórða sæti keppninnar, með samnefnt lag (sjá nánar pistil Bjarna Más Magnússonar frá 17.2.2006). Þá sendu Þjóðverjar furðuveruna Guildo í keppnina árið 1998 með lagið „Guildo hat euch lieb“ og endaði það í 7. sæti keppninnar. Tveimur árum síðar, árið 2000, sendu þeir svo grínarann Stefan Raab með lagið „Wadde hadde dudde da?“ og lenti það í 5. sæti. Þannig að grínið hefur gefist vel.
Oft hefur það einnig gerst að lög hafa ekki verið algert grín, en svona létt glensuð. Til dæmis sendu Danir rapplagið „Stemmen i mit liv“ árið 1997, sem var svona sprellkennt, og Norðmenn sendu í fyrra hljómsveitina Wig Wam, sem seint verður talin taka sig mjög hátíðlega, með lagið „In my dreams“. Bæði þessi lög náðu ágætis árangri. Í ár senda svo Finnar dauðarokkssveitina Lordi, sem verður einnig að teljast nokkuð létt á því.
Íslendingar hafa hins vegar verið allhúmorslausir í gegnum tíðina og ekki látið sprellið hlaupa með sig í gönur. Þannig hafa Íslendingar almennt sent alvörugefin lög og ætlunin hefur verið að sigra á grundvelli tónlistarlegra gæða laganna. Frá þessu eru þó undantekningar. Þannig verður að telja framlag Íslendinga árið 1988, „Sókrates“, nokkuð glensað, a.m.k. texta lagsins, og jafnframt framlagið árið 1997 þegar Páll Óskar Hjálmtýsson sté á stokk.
Í ár er hins vegar húmorinn alger – og ætlunin er að leggja Evrópu að velli með kímni og háð eitt að vopni. Vonandi er að það gangi vel. Mögulegt er þó að húmorinn sem felst í fígúrunni Silvíu Nótt (sem verður að teljast á býsna háu plani) fari fyrir ofan garð og neðan, en ekkert skal þó fullyrt um það. Kannski er fyrirbærið Silvía Nótt fullmikill einkahúmor fyrir Evrópu. Allt kemur þetta í ljós annað kvöld.
- Skrílslæti í ráðhúsi Reykjavíkur - 25. janúar 2008
- Að dæma sig til áhrifaleysis - 22. janúar 2008
- Valgerður Sverris er sorry - 23. nóvember 2006