Á þessari ótrúlegu mynd má sjá hvernig business skrímslið er að hrella landbúnaðinn að mati Guðna.
|
Í kvöldfréttum Nýju fréttastofunnar á þriðjudaginn var viðtal við Guðna Ágústsson sem tekið var í kjölfar frétta, daginn áður, um að tveir oddvitar sveitastjórna á Suðurlandi vildu taka upp búsetuskyldu á jörðum. Fram kom í máli ráðherrans að til greina gæti komið að kanna hvort taka ætti upp slíka búsetuskyldu. Ástæðan er sú að undanfarin misseri hefur verið vaxandi áhugi meðal kaupahéðna að kaupa jarðir, sérstaklega hlunnindajarðir. Jarðirnar eru víða um land og er boðið í eyðijarðir sem og jarðir í búskap. Eins og oft vill gerast þegar eftirspurn eftir auðlind eykst þá hækkar verðið að sama skapi. Slíkum hagfræðilögmálum á Guðni reyndar erfitt með að kyngja eins og bent hefur verið á í öðrum pistli.
Þetta telja sumir bændur vera hið versta mál og þrýsta nú á sinn ráðherra að skakka leikinn og setja aftur á kerfi átthagafjötra og takmarkana á eignarhaldi bújarða. Rökin eru þau, að þótt það sé í sjálfu sér gott mál að jarðir hafi hækkað í verði, þá eru kaupendurnir ekki nógu góðir. Fjársterkir kaupahéðnar eru ekki líklegir til að yrkja jörðina og stunda hefðbundinn landbúnað. Þeir búa ekki á jörðunum allt árið, börnin þeirra fara ekki í skóla í sveitunum og þeir taka lítið þátt í félagslífi bænda. Hátt verð gerir einnig erfitt fyrir nýja aðila, sem vilja stunda landbúnað, að fjárfesta í greininni og torveldar það endurnýjun í bændastéttinni.
Þetta eru réttmætar áhyggjur manna í starfsgrein sem á undir högg að sækja. Það væri óheppilegt ef búskapur jarða legðist af á Íslandi en það er mjög skiljanlegt að slíkt gerist miða við núverandi kerfi. Landbúnaður er ekki arðbær atvinnugrein. Greinin er styrkt af ríkissjóði um tugi milljarða króna en allt kemur fyrir ekki. Hvernig má það vera? Svarið er einfalt. Landbúnaðurinn er fastur í viðjum hafta, takmarkana, ríkisstyrkja og lögbundinna milliliða. Nýjasta útspilið er svo að setja á meiri höft og takmarkanir í formi ábúðarskyldu til að bjarga málunum. Fjárfestar hafa komið auga á verðmæti í jörðum sem hið miðstýrða skrímsli landbúnaðarráðherra hafði ekki reiknað með. Allt í einu eru jarðir verðmætar ef þær eru teknar úr búskap og notaðar í eitthvað allt annað. Kerfið er að rotna innan frá.
Það blasir við að gera þarf róttækar breytingar á landbúnaðarkerfinu ef kerfið á ekki að drepa landbúnaðinn. Ef hefðbundinn búskapur á að geta keppt við aðra fjárfesta um jarðir verður arðsemiskrafan í greininni að aukast. Frjáls verðmyndun verður að koma til og hagræðing verður að vera möguleg til að auka framleiðni. Óarðbærar fjárfestingar í formi ríkisstyrkja og hugmyndir embættismanna hvað sé fallegt og gott, verða að heyra sögunni til. Það er mikilvægt að landbúnaður verði leystur úr kerfi hafta og miðstýringar. Það mun leiða til sveigjanlegri og betri nýtingar á eignum bænda og skila sér í lægra vöruverði til neytenda.
Orða Jónasar Hallgrímssonar í kvæðinu Alþingi hið nýja um að bóndi sé bústólpi standa enn. En bú þarf að vera „business“ til að eiga einhvern möguleika á að verða eitt af mörgum stólpum þessa lands. Eina skrímslið sem landbúnaðarráðherra ætti að vera hræddur við er sitt eigið.
- Stjórnarhættir sjávarútvegsfyrirtækja - 26. maí 2021
- Dokkan og Ríkið - 18. febrúar 2021
- Villuljós og vinnuleit - 15. desember 2020