Í dag lýkur ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í Jóhannesborg. Í kjölfarið kemur íslenska sendinefndin, með Siv Friðleifsdóttur í broddi fylkingar, heim með reiðinnar ósköp af samþykktum, ályktunum og öðrum plöggum sem barin voru saman á elleftu stundu, af vansvefta embættismönnum, eftir mikið málþóf og málamiðlanir.
Það hefur ýmislegt gengið á hjá ráðherra í þessari ferð. Á leiðinni út varð hún fyrir því óláni að farangurinn hennar týndist, eins og kemur fram á bráðskemmtilegri vefdagbók hennar á www.siv.is, svo hún þurfti að kaupa sér nýjar buxur og blússu „í hvelli“ fyrir ráðherrafund. Það kemur reyndar ekki fram hvernig blússan féll í kramið á fundinum, en það er nú svosem smávægileg yfirsjón hjá ráðherra að gleyma að taka það fram. Hitt er verra, hversu lítið fram kemur á vefdagbók Sivjar um landbúnaðarviðræður þær sem fram hafa farið á ráðstefnunni. Sendinefnd Íslands lagði mikla áherslu á aðgerðir til að auka hlutfall endurnýtanlegrar orku í heiminum, sem er góðra gjalda vert í sjálfu sér. Siv er eðlilega annt um umhverfið. Hún er umhverfisráðherra og hefur nýtt þessi rök með góðum árangri til að verða sér úti um undanþágur frá Kyoto bókuninni. Þróunarríkin, sem eiga óhægt um vik með að reisa vindmyllur og vatnsaflsvirkjanir, hafa tekið illa í umræðuna um endurnýjanlega orku og hefur það valdið Siv miklu hugarangri.
Ráðstefnan fjallar hins vegar ekki aðeins um umhverfismál. Efnahagsmál eru jafnstór hluti af þessari ráðstefnu, enda eru umhverfisspjöll mannkyns, sem og geta okkar til að takast á við þau, nátengd sókn okkar í betri lífsgæði og aukna framleiðni. Það er þess vegna hálfömurlegt að sjá leiðtoga iðnríkjanna heimta og heimta frá þróunarríkjunum. „Minni mengun frá Afríku“ segja leiðtogar ríkja sem brutu af sér hlekki fátæktar og vannæringar með því að brenna kynstrin öll af kolum alla síðustu öld. En þegar að því kemur líta í eigin barm og skoða hafta- og styrkjastefnu í landbúnaði, sem kostar hundruð milljarða bandaríkjadala, er fátt um fína drætti.
Umhverfisráðherra virðist hafa ákveðið að taka á getuleysi sínu til að ræða um landbúnaðarstefnu iðnríkjanna með því að láta eins og málið sé ekki á dagskrá. Það eina sem Siv hefur að segja um þessi mál er að á fyrsta degi var stuttlega rætt um það „… hvort og hvernig eigi að taka á niðurgreiðslum t.d. í landbúnaði og opnun vestrænna markaða fyrir vörur frá fátækum ríkjum“. Þess er kannski ekki að vænta að Siv sé spennt fyrir því að ræða hvort (hvað þá hvernig) eigi að taka á slíkum málum. Hún er jú ekki bara umhverfisráðherra, hún er líka Framsóknarráðherra.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020