Verðtrygging hefur viðgengist hér á landi í nær aldarfjórðung og heil kynslóð þekkir því ekkert annað. Verðtrygging er notuð til þess að tryggja að fjárhagsskuldbindingar í framtíðinni haldi kaupmætti sínum. Bæði er hægt að taka verðtryggð lán, sem eru þá í öllum tilvikum til fimm ára eða lengur en einnig er hægt að verðtryggja bankainnstæður séu þær bundnar í þrjú ár eða lengur. Verðtrygging miðast við vísitölu neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar út og getur því haft mikil áhrif til hækkunar langtíma fjárhagsskuldbindinga ef verðbólga er mikil. Vissulega gæti þetta haft áhrif til lækkunar slíka skuldbindinga ef verðhjöðnun ætti sér stað en slíkur aðstæður munu tæplega koma upp í okkar hagkerfi í fyrirsjánlegri framtíð.
Af þessari útskýringu má sjá að rökin fyrir verðtryggingu er frekar augljós og auðskilin. Verðtrygging kemur í veg fyrir að upphæð sem við ákveðum að leggja fyrir og ávaxta til lengri tíma lækki að raungildi vegna þess að tryggt er að hún heldur að minnsta kosti í við verðlag og tapar þar með ekki kaupmætti sínum. Verðtrygging gefur lánveitendum einnig ákveðið öryggi þar sem hún tryggir að löng lán á borð við húsnæðislán og greiðslur af þessum lánum í framtíðinni halda kaupmætti sínum. Þetta er helsta ástæða þess að þeir sem taka 40 ára fasteignalán sjá það oft ekki lækka að nafnvirði fyrr en jafnvel helmingur lánstímans er liðinn.
Ákvæði um verðtryggingu er einnig að finna í kjarasamningum flestra stéttarfélaga og þrátt fyrir að þeir séu sjaldnast verðtryggðir að fullu þá eiga slík ákvæði að sjá til þess að kaupmáttur launa rýrni sem minnst. Þetta veldur hættu á því að kjarasamningum sé sagt upp keyri verðbólga úr hófi fram. Í stuttu máli sagt er helsti kostur verðtryggingar sá að hún dregur úr óvissu og þar með áhættu fyrir þá sem taka lán og þá sem veita þau og sömuleiðis þá sem gera samninga um laun fram í tímann.
Við síðustu verðbólgumælingu Hagstofunnar í byrjun apríl kom í ljós að verðbólgan hafði aukist um 1,14% milli mánaða og 12 mánaða verðbólga því 5,5%. Miðað við verðbólgumarkmið Seðlabankans upp á 2,5% er þetta heldur hátt og því miður virðist bankinn hafi misst tökin á verðbólgunni að sinni. Peningamálastefna Seðlabankans hefur mest áhrif á styttri óverðtryggða vexti og það er hluti af ástæðunni fyrir því að bankanum gengur verr en ella að ná tökum á verðbólgunni.
Þróun gengis krónunnar spilar einnig inn í þetta. Miðað við lokagengi gærdagsins hefur krónan nú veikst um rétt rúm 22% frá áramótum og reyndar verið enn veikari innan tímabilsins. Þetta veldur því að innfluttar vörur verða dýrari sem aftur veldur meiri verðbólgu. Peningamálastefna Seðlabankans hefur lítil áhrif á þessa þróun því ekki þarf nema einn sæmilega stóran erlendan aðila sem ákveður að selja sínar krónur til þess að hafa umtalsverð áhrif á okkar litla gjaldmiðil.
Þó margt gott megi segja um verðtrygginguna gæti talist undarlegt að flestar þjóðir sem við berum okkur saman við beita henni ekki og hljóta þær að hafa nokkuð ríkar ástæður til. Hún væri líklega alls ekki slæm ef verðbólga hér væri lítil og undir markmiði Seðlabankans en við núverandi aðstæður er hún til þess fallin að skapa óstöðugleika í hagkerfinu. Það er einmitt óstöðugleikinn sem hefur leikið hérlenda fjármálamarkaði grátt að undanförnu sem og auðvitað aukin umfjöllun erlendra aðila um þennan óstöðugleika og ofhitnun í hagkerfinu.
Í ljósi þess að Seðlabankanum hefur nánast ekkert gengið að halda verðbólgu niðri frá því að bankinn tók upp verðbólgumarkmið árið 2001 verður að teljast ólíklegt að böndum verði komið á verðbólguna í bráð. Nauðsynlegt er að halda umræðu um kosti og galla verðtryggingar á lífi og ekki loka á þann möguleika að afnema hana í áföngum á nokkuð löngu tímabili. Þetta gæti verið skref í átt til langtímastöðugleika hérlendis með hæfilegum hagvexti sem væri sannarlega æskilegt ástand. Sumir verkalýðsleiðtogar hafa lýst andúð á þessari hugmynd en það er þó líklega frekar hræðsla við breytingar en nokkuð annað, einfaldlega vegna þess að þeir þekkja vart aðrar aðstæður. Hins vegar má ekki slá umræðuna útaf borðinu að óathuguðu máli og á hinn bóginn má heldur ekki breyta aðeins breytinganna vegna.
- Siðlaust guðlast - 5. september 2007
- Þess vegna er Laugavegurinn dauður - 6. mars 2007
- Hvað á RÚV að þýða? - 12. febrúar 2007