„Þú kemur varla inn í fjölbýlishús í dag, þar sem við eigum ekki íbúð,“ sagði starfsmaður Félagsbústaða hf. við kunningja undirritaðar ekki alls fyrir löngu. Félagsbústaðir keyptu íbúðina við hlið þessa sama kunningja og inn flutti einstæð móðir með stórt plasmasjónvarp og enn stærri amerískan ískáp. Í skjóli nætur flutti síðan húsbóndinn inn með allt sitt hafurtask á öðrum af tveimur bílum fjölskyldunnar. Sjálfur heldur kunninginn áfram að láta sig dreyma um ameríska ískápinn, sem ekki verður í bráð, enda ganga afborganirnar af húsnæðislánunum fyrir.
Til þess að geta átt kost á íbúð hjá Félagsbústöðum þarf fólk að vera undir ákveðnum eigna- og tekjumörkum. Á heimasíðu Félagsbústaða kemur fram að eignamörkin séu kr. 2.390.000. Meðalárstekjur einstaklinga mega ekki hafa farið fram úr kr. 1.796.412 á síðustu þremur árum, en viðmiðið fyrir hjón/sambýlisfólk er kr. 2.515.613. Því miður eru þeir margir sem ekki eiga þess kost að eignast þak yfir höfuðið og því er eina leiðin að fá inni í íbúð í eigu Félagsbústaða. Þá er það svo grátlegt að þegar hafi hreiðrað um sig í einhverjum þessara íbúða fólk, sem ekkert erindi á þangað, líkt og kunningi undirritaðar hefur nágranna sína sterklega grunaða um.
Félagslega íbúðakerfið er þungur baggi á nokkrum sveitarfélögum á landinu. Frá því var greint í frétt sem birtist á mbl.is í gær og fjallaði fyrst og fremst um þann vanda sem fyrir hendi er í Vestmannaeyjabæ. Svo virðist sem hver íbúi Vestmannaeyjabæjar skuldi 275 þúsund krónur vegna félagslega íbúðakerfisins. Þrír staðir á landinu standa sínu verst þegar kemur að þessum málum og eru það auk Vestmannaeyjabæjar, Vestfirðir og Norðurland vestra. Fróðlegt hefði verið að sjá einhverjar skýringar á hverju þessu sætti. Hvort hlutfall félagslegra íbúða sé margfalt stærra í þessum byggðarlögum en annars staðar o.s.frv.
Það er víða en hér á Íslandi sem félagslega íbúðakerfið reynist sveitarfélögum erfitt viðureignar. Undirrituð man vel eftir umræðu í Danmörku fyrir ári eða tveimur þar sem bæjarfélagið Ishøj í nágrenni Kaupmannahafnar fór fram á að kvóti yrði settur á fjölda innflytjenda sem fengju að setjast að í bænum. Hlutfall innflytjenda í Ishøj er óvenju hátt og svo virtist sem ákveðin fylgni væri á milli þess og fjölda félagslegra íbúða. Sú þróun leiddi til þess að bæjarfélagið átti í stökustu vandræðum með að standa undir kerfinu.
Svo virðist ekki raunin hér á landi, a.m.k. í Reykjavík, eftir því sem kom fram í viðtali við fulltrúa Velferðarráðs borgarinnar í Fréttablaðinu um helgina. Þar kom fram að færri útlendingar en Íslendingar hafa sótt og sækja um félagslega aðstoð. Útlendingar reyni frekar að standa á eigin fótum. Engu að síður hafa margir útlendingar sest að í þeim hverfum borgarinnar, þar sem áður voru fjöldi félagslegra íbúða. Skýrist það meðal annars af því að þar er íbúðarverðið lægra.
Sú var tíðin að heilu fjölbýlishúsalengjurnar og jafnvel hverfin samanstóðu af félagslegum íbúðum. Eflaust hafa þeir sem bjuggu í svokölluðum „bæjarblokkum“ þurft að þola stimplun og fordóma annarra borgarbúa. Reynt hefur verið að sporna gegn slíku með umfangsmiklum breytingum á þessu kerfi hér í Reykjavík á undanförnum árum. Keyptar hafa verið stakar íbúðir í flestum hverfum borgarinnar og félagslegum íbúðum verið dreift. Þetta nýja fyrirkomulag hefur gefið góða raun var títtnefndum kunningja undirritaðar tjáð í samtali sínu við starfsmann Félagsbústaða.
Félagslegt íbúðakerfi af einhverju tagi er mjög þarft í okkar samfélagi eins og sýnt hefur sig í gegnum tíðina, en er jafnframt ákaflega vandmeðfarið. Þótt íbúar séu ekki alltaf á eitt sáttir við að fá íbúð Félagsbústaða inn í sinn stigagang eru það fordómar, sem vonandi eiga eftir að hverfa í fyllingu tímans. Íbúar Félagsbústaða eru ekki endilega verri nágrannar en aðrir. Þegar allt kemur til alls eru nágrannar af öllu tagi það sem við þurfum að þola ef við ætlum okkur að búa í þéttbýli.
- Árleg mannekla - 18. september 2007
- Lítilla breytinga að vænta - 5. maí 2007
- Jarðgangagerð, opinber störf og niðurgreiðslur - 17. mars 2007