Síðan um miðjan febrúar mánuð má segja að hlutabréf í Kauphöll Íslands hafi verið í frjálsu falli. Úvalsvísitalan hefur t.a.m. lækkað um ríflega 20% frá hæsta gildi sínu á árinu og er nú komin niður fyrir áramótagildi sitt. Ástæða lækkunarinnar er vafalaust tengd veikingu krónunnar og aukinni umræðu um óstöðugleika á markaðinum. En er þessi þróun eðlileg og í samræmi við væntingar um afkomu fyrirtækjanna sem skráð eru í Kauphöllinni?
Síðustu tvö ár hafa verið afar góð fyrir fjárfesta á íslenskum hlutabréfamarkaði. Það má segja að stefnan hafi verið upp á við hvar sem litið er á markaðinum með örfáum undantekningum. Frá 1. janúar 2004 til 15. febrúar í ár hækkaði Úrvalsvísitalan (ICEX-15) um hvorki meira né minni en 229% en það jafngildir um það bil 74% á ári að meðaltali.
Það er því ljóst að margir hafa líklega efnast mjög mikið á síðustu misserum. Það er þó spurning hverjir það hafi verið sem hafi verið nógu framsýnir til að taka þátt í ævintýrinu. Líklega var hækkunin á markaði, a.m.k. framan af, að miklu leyti drifin áfram af stórum hrókeringum þar sem fyrirtæki sameinuðust eða sundruðust. Dæmi um þetta er þegar Straumur og Burðarás sameinuðust, umbreyting Flugleiða í FL Group og svo kaup Kaupþings á erlendum bönkum. Síðan má segja að gott gengi fyrirtækja, sérstaklega fjármálafyrirtækjanna sem skiluðu hverju metuppgjörinu á fætur öðru, hafi drifið markaðinn áfram. Þar var þó vissulega um ákveðna skrúfu að ræða því að gengishagnaður var stór hluti af hagnaði bankanna. Á síðasta ári og þessu ári eykst svo þátttaka einstaklinga á markaðinum. Margir þeirra voru jafnframt að gíra sig til að taka stærri stöður og tóku jafnvel erlend lán í þeim tilgangi.
Það var orðið ljóst þegar Úrvalsvísitalan var í hæstu hæðum fyrr á árinu að hlutabréf væru töluvert hátt metin. Bæði var mikil spenna í hagkerfinu vegna ofurgengis krónunnar og verðbólgu sem gæti farið af stað með hækkandi olíuverði og gengissveiflum. Jafnframt má benda á að möguleikar fyrir samruna eða aðrar leikfimisæfingar félaga í Kauphöllinni, sem höfðu skilað fjármálafyrirtækjum góðri hlutabréfahækkun síðustu ár, voru ekki til staðar eða í það minnsta ekki eins augljósir og áður. Með hliðsjón af þessu hefur væntanlega söluhrina hafist um miðjan febrúar. Fyrst í stað hafa framsýnir fjárfestar leyst út söluhagnað en með veikingu krónunnar má gera að því skóna að enn aðrir hafi einfaldlega neyðst til að selja til að greiða af hækkandi gengislánum (þ.e. fengið “margin call”).
Svartar skýrslur erlendra greiningardeilda virkuðu eins og olía á eldinn og stuðluðu að enn frekari lækkunum á hlutabréfaverði og gengi krónunnar. Þegar verð hlutabréfa og krónunnar lækkar jafnhratt samtímis og raun ber vitni eykur það enn líkurnar á því að fjárfestar verði neyddir út úr gengisbundnum hlutabréfasamningum sem orsaka meiri lækkanir vegna söluþrýstings. Sömuleiðis má segja að greiningardeildir Danske bank og annarra erlendra banka hafi hrætt líftóruna úr a.m.k. einstaklingum sem hafa vafalítið verið að losa stöður að undanförnu.
Nú er svo komið verð hlutabréfa lækkar þrátt fyrir góðar fréttir. Skjálftinn á markaðinum virðist vera gríðarlegur og óttinn við algjört hrun eins og heimsendaspámennirnir í Danmörku ganga út frá, er raunverulega til staðar. Nú hafa t.a.m. nokkur fyrirtæki skilað uppgjöri fyrir fyrsta ársfjórðung 2006 og nánast undantekningalaust hafa þau verið umfram væntingar.
Sú var tíð að það þótti góð Latína að gera betur en vænst var og skilaði það sér í hækkunum á hlutabréfaverði. Síðustu daga hafa Kaupþing, Bakkavör, Glitnir og Landsbankinn öll skilað góðum uppgjörum og umfram væntingar. Þar að auki hafa Kaupþing og Glitnir skilað bestu ársfjórðungsuppgjörum í sögu fyrirtækjanna. Þrátt fyrir góð uppgjör og það að greiningardeildir telji bréfin vanmetin lækka bréf fyrirtækjanna í verði. Hugsanlega eru starfsmenn bankanna, sem margir hverjir eiga stórar stöður að losa út hagnað, og mynda þannig söluþrýsting þar sem þeir geta einungis selt í tengslum við birtingu uppgjöra.
Allavega er ljóst að óróa gætir á markaðinum og segja má að hann hafi ekki hagað sér rökrétt, bæði í undangengnum hækkunarhrinum og núverandi lækkunarhrinu. Dagssveiflurnar eru mjög miklar og meiri en margir vilja meina að eigi að sjást á þroskuðum hlutabréfamarkaði. Kannski er staðreyndin því sú að íslenski hlutabréfamarkaðurinn sé enn í barndómi þrátt fyrir að hafa styrkst mikið undanfarin fimm ár. Hin ástæðan gæti líka verið sú að íslenski hlutabréfamarkaðurinn sé einfaldlega svo lítill að hann nái aldrei að þroskast almennilega.
Kannski er það eðlilegt á markaði, þar sem örfá viðskipti eða í meðallagi efnaðir einstaklingar geta haft veruleg áhrif á verðmyndun, að sveiflur verði umtalsverðar. Kannski er það eitthvað sem íslenskir fjárfestar verða að sætta sig við. En í því felast vissulega tækifæri því að möguleikar til að hagnast (og tapa) eru þá miklu meiri en á þroskuðum mörkuðum. Það er því spurning hvort nú sé komið aftur að því að lækkanir hafi verið óeðlilega miklar undanfarið og Úrvalsvísitalan taki að hækka á ný, jafnvel í 7.000 stig eins og greiningardeildir hafa spáð. Það er þó kannski líklegra að hlutabréf haldi áfram að lækka eitthvað áfram enda virðist titringur á markaðinum enn fullmikill.
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008