Kaupauðgisstefna (e. mercantilism) lifir góðu lífi á hinu háa Alþingi okkar Íslendinga. Þeir sem aðhyllast kaupauðgisstefnuna telja að útflutningur sé góður þar sem hann skapar störf en innflutningur sé vondur þar sem hann veldur því að störf tapast. Síðastliðinn miðvikudag fór Margrét Frímansdóttir fram á utandagskrárumræðu um stöðu garðplöntuframleiðenda. Tilefni umræðunnar var að Ísland og ESB hafa undirritað samning um niðurfellingu tolla á ýmsar landbúnaðarvörur. Meðal þeirra vara sem verða af tollvernd þegar samningurinn tekur gildi eru garðplöntur.
Þessi umræða er gott dæmi um hversu útbreidd kaupauðgishugsun er á Alþingi. Átta þingmenn tóku til máls. Fimm stjórnarandstæðingar hallmæltu samningnum en þrír stjórnarliðar vörðu hann. En jafnvel stjórnarliðarnir töluðu að mestu á kaupauðgisnótum. Guðni Ágústsson sagði: “Samningar af þessu tagi fela, eðli máls samkvæmt, í sér bæði eftirgjöf og ávinning” og átti við að niðurfelling tolla á útflutningsvörum væri ávinningur en niðurfelling tolla á innflutningsvörur væri eftirgjöf. Ræða Einars Odds var á þeim nótum að samninginn væri eins konar varnarsigur í vörn Íslendinga gegn ófreskunni sem frjáls viðskipti með landbúnaðarvörur eru. Einungis einn af þessum átta þingmönnum beitti ekki fyrir sér kaupauðgishugsun. Ingvi Hrafn Óskarsson varði samninginn með þeim rökum að frjáls viðskipti efli hag almennings með lægra vöruverði. Fyrir bragðið hélt Björgvin Sigurðsson því fram að Ingvi væri yst á hægri væng Sjálfstæðisflokksins.
Já, miðjan er á mjög annarlegum stað á Alþingi þegar kemur að fríverslun.
Það er oft gert grín að hagfræðingum fyrir að vera ósammála. En þrátt fyrir að þeir séu ósammála um margt eru þeir sammála um að kaupauðgisstefna er eins öfugsnúin og unnt er að vera. Í raun er innflutningur góður þar sem veitir okkur tækifæri til aukinnar neyslu. Og útflutningur er gjaldið sem við þurfum að greiða fyrir innflutninginn.
En alveg burt séð frá þeirri augljósu staðreynd að við borðum innflutninginn en ekki útflutninginn er sorglega lítill skilningur til staðar á Alþingi á því samhengi sem er milli innflutnings og útflutnings. Þegar við flytjum inn t.d. pakka af Cheerios þá látum við útlendingi í té lítinn bréfsnepil með mynd af Brynjólfi Sveinssyni eða Ragnheiði Jónsdóttur og fáum í staðinn dýrindis morgunkorn. Útlendingurinn hefur engan sérstakan áhuga á þessum fallegu seðlum nema vegna þess að hann (eða einhver annar útlendingur) getur keypt fyrir þá íslenskan útflutning. Innflutningurinn á Cheeriosinu (já eða garðplöntunni) hefur því annað hvort þær afleiðingar að litlir pappírssneplar með myndum af þjóðhetjum okkar Íslendinga safnast upp hér og þar í útlöndum eða að útlendingarnir snúa sér við og nota þessa íslensku peningaseðlana til þess að kaupa íslenskan útflutning.
Þegar öll kurl eru komin til grafar veldur fríverlsun því hvorki fjölgun né fækkun starfa. Það sem fríverslun gerir er að gefa okkur Íslendingum tækifæri til þess að einbeita okkur að framleiðslu þeirra vara sem við höfum hlutfallslega yfirburði í því að framleiða. Fríverlsun hjálpar okkur því að hámarka verðmæti þeirra dagsverka sem við vinnum.
Á sama hátt og það er óhagkvæmt fyrir lækninn og smiðinn að sóa verðmætum vinnutíma sínum í að rækta sitt eigið grænmeti og setja saman sinn eigin bíl er óhagkvæmt fyrir okkur Íslendinga sem þjóð að sóa vinnuafli þjóðarinnar í framleiðslu vara sem við erum ekki sérlega góðir í að framleiða í samanburði við aðrar þjóðir.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009