Í nóvember árið 2005 skrifaði undirrituð pistil um Hvíta-Rússland þar sem sjónum var beint að þeirri ógnarstjórn og grófu mannréttindabrotum sem landsmenn búa við í dag. Sagt hefur verið um landið að það sé síðasta einræðisríkið í Evrópu og því miður virðist ekkert þokast í lýðræðisátt enn sem komið er en forsetakosningar fóru fram í landinu fyrir rúmum mánuði síðan.
Lúkasjenkó hefur verið forseti Hvíta-Rússlands frá árinu 1994 en ríkið lýsti yfir sjálfstæði árið 1991 þegar Sovétríkin leystust upp. Ekkert annað fyrrum Sovétlýðveldi hefur jafn sterk pólitísk og efnahagsleg tengsl við Rússland og gerðu ríkin með sér samning (Russia-Belarus Union) til að stuðla að enn nánara samstarfi. Þegar stjórn Lúkasjenkó liggur undir harðri gagnrýni frá aðilum á borð við Bandaríkjastjórn, Evrópusambandið, Evrópuráðið og alls kyns mannréttindasamtök fyrir brot gegn þegnum sínum má ganga að því vísu að stjórnvöld í Rússlandi muni styðja við hann.
Harðstjórar, á borð við Lúkasjenkó, halda völdum með skrumskælingu á lýðræði, grófri misbeitingu á fjölmiðlum og harkalegri valdníðslu.
Grunnforsenda lýðræðis er að almenningur hafi þess kost að kjósa yfir sig valdhafa og sömuleiðis losa sig við þá séu þeir ekki starfinu vaxnir. Lúkasjenkó hlaut 83 prósent atkvæða í forsetakosningunum sem fóru fram 19. mars síðastliðinn og Milinkevic, leiðtogi stjórnarandstæðinga, fékk sex prósent atkvæða. Kosningar fara reglulega fram í Hvíta-Rússlandi líkt og í öllum lýðræðisríkjum, bæði til þings og forsetaembættis. En við hverjar einustu kosningar undanfarin ár hefur verið uppi gagnrýni frá erlendum eftirlitsaðilum. Engin breyting varð á við seinustu kosningar og í fréttatilkynningu frá Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) daginn eftir kosningarnar kemur fram að upplýsingum var haldið leyndum fyrir eftirlitsmönnum stofnunarinnar og að framkvæmd kosninganna hafi í mörgu verið alvarlega ábótavant til að standast þær reglur sem hafðar eru til viðmiðunar.
Umfjöllun um Lúkasjenkó var mikil og hagstæð í aðdraganda kosninganna að sögn eftirlitsmanna. Mótframbjóðendum var úthlutaður stuttur tími í útvarpi og sjónvarpi til að koma sínum málflutningi til skila sem var ritskoðaður áður.
Lúkasjenkó heldur fjölmiðlum landsins í járngreipum og nær með því að stýra almenningsálitinu að miklu leyti þar sem flestir geta sammælst um mikilvægi fjölmiðla í að koma upplýsingum og fræðslu á framfæri. Þar af leiðir að stór hluti almennings styður Lúkasjenkó í raun þó það sé vissulega fjarstæðukennt að það komist nálægt því að vera þau 83 prósent sem niðurstöður forsetakosninganna í seinasta mánuði gáfu til kynna.
Í Hvíta-Rússlandi eru samtök og stofnanir sem vilja koma á lýðræðislegum umbótum og stjórnarandstaða sem Milinkevic, forsetaframbjóðandinn sem fékk sex prósent, leiðir í dag. En Lúkasjenkó beitir ófyrirleitnum aðferðum við að berja niður alla andstöðu gagnvart sér. Stjórnarandstæðingar eru fangelsaðir og stofnanir lagðar niður vegna upploginna saka. Það eru mörg tilvik þar sem andstæðingar stjórnar Lúkasjenkó hafa hreinlega horfið og margir telja þau dæmi sýna að Lúkasjenkó svífst einskis við að tryggja valdastöðu sína.
Eftir kosningarnar í mars efndu stjórnarandstæðingar til mótmæla á aðaltorginu í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands, þar sem fjöldi kom saman og hélt kyrru fyrir næstu daga á eftir. Yfirvöld héldu að mestu að sér höndum í nokkra daga eða þangað til að flestir erlendir blaðamenn og eftirlitsaðilar kosninganna voru farnir. Dagana 24. og 25. mars létu þau svo til skarar skríða gegn mótmælendunum með barsmíðum og fjöldahandtökum.
Ríki, alþjóðastofnanir og alþjóðasamtök hafa fordæmt framkvæmd kosninganna og þessar aðgerðir stjórnvalda við að brjóta á bak aftur friðsamleg mótmæli. Kom til tals að frysta eignir Hvíta-Rússlands erlendis og lengja lista þarlendra embættismanna sem mega ekki ferðast til Evrópusambandsins. Einnig hafa stjórnarandstæðingar reynt að vekja athygli alþjóðasamfélagsins á aðstæðum í Hvíta-Rússlandi. Milinkevic hefur til að mynda farið til fundar við erlenda þjóðarleiðtoga og óskað eftir liðsinni þeirra í baráttunni.
En líklegasta leiðin til að ná árangri í að koma á breyttu stjórnarfari er að breytingarnar komi innan frá. Stjórnarandstaðan þarf að vera samstíga, reyna að ná til fjöldans og skilgreina sig sem raunhæfan kost til móts við Lúkasjenkó.
Með forseta við völd sem múlbindur fjölmiðla, fangelsar pólitíska andstæðinga og lýgur að kjósendum virðist útlitið ekki bjart en tíminn mun leiða það í ljós.
Mikilvægt er að fjölmiðlar í öðrum ríkjum hafi úthald til að halda við umfjöllun um ástandið í Hvíta-Rússlandi, og hún einskorðist ekki bara við dagana í kringum kosningar. Íbúar þessa Evrópuríkis búa við það að daglega er brotið á mannréttindum sem teljast sjálfsögð í vestrænum samfélögum.
- Vinnum upp mannfagnaði - 11. maí 2021
- Sameiginlegir hagsmunir - 6. apríl 2021
- Draumaverksmiðju-kryddið - 9. mars 2021