Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti nýlega ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að afnema bæri hámarkstaxta leigubíla. Þetta þýðir að leigubifreiðastöðvum landsins verður í raun ekki heimilt að gefa út hámarkstaxta til handa bílstjórum sem aka undir merkjum þess félags (ef skilja má fréttirnar rétt). Ekki nema sótt verði um undanþágu. Ekki er víst að allar stöðvarnar sæki um undanþágu. Né heldur er það víst að undanþágur fáist í öllum tilvikum.
Það er í raun býsna erfitt að sjá fyrir sér áhrif þessara breytinga. Munu allar stöðvarnar sækja um undanþágur og samræma þannig taxtana? Eða munu einhverjar stöðvar leyfa bílstjórum sínum að ákveða taxtann eftir hentugleika? Breytist verðlagningin eitthvað og þá hvernig?
Hvernig sem fer þá situr eitt eftir í manni. Ef markmið með afnámi hámarkstaxta er það að auka frelsi á leigubílamarkaðnum og væntanlega að tryggja betur hagsmuni neytandans, er þá ekki ráð að byrja á réttum enda? Og byrja á að afnema þær haftir sem settar er á framboð þessarar þjónustu?
Í 4.gr reglugerðar um leigubifreiðar er fjallað um takmörkunarsvæði. Þar segir orðrétt „Takmarkanir á fjölda atvinnuleyfa í leiguakstri gilda á eftirtöldum svæðum: (I) Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ og Bessastaðahreppi. Hámarkstala er 520 atvinnuleyfi“. Reglugerðin tilgreinir þrjú önnur svæði með álíka takmörkunum. Síðan segir „… samgönguráðuneytið [skal] fara yfir og endurskoða fjölda atvinnuleyfa á hverju svæði og grípa til aðgerða ef marktækt ójafnvægi hefur myndast milli eftirspurnar og framboðs“.
!?!
Af hverju er þessi takmörkun? Af hverju þarf hið opinbera að grípa inn með þessum hætti og ákveða jafnvægið milli framboðs og eftirspurnar? Hvað gerir þennan markað svo sérstakan að það krefst jafn róttækrar íhlutunar?
Nú telur reglugerðin upp margar nytsamlegar og sjálfsagðar kröfur um lágmarks skilyrði sem ökumenn í þessum rekstri þurfa að uppfylla. En þessi takmörkun á fjölda atvinnuleyfa á stærstu markaðssvæðunum er illskiljanleg.
Afnám hámarkstaxta er væntanlega viðleitni í að auka frelsi á markaðnum. Og leyfa honum sjálfum að ákveða jafnvægi í framboði og eftirspurn. Þar með megi væntanlega fá betri mynd á hvað sé rétt verð og hvað ekki fyrir þá þjónustu sem í henni felst. En mun það nokkuð gerast fyrr en menn innleiða fullt frelsi á þessum markaði? Og afmema þessar hálf-glórulausu takmarkanir á útgáfu atvinnuleyfa?
Heimildir:
Frétt ruv.is
- Hálendisfrumvarpið er dautt, lengi lifi hálendisfrumvarpið - 10. júní 2021
- Gamalt vín á nýjum belgjum - 7. apríl 2021
- Borgarlína á toppnum - 20. febrúar 2021