Til þess að fá að aka bifreið þarf skriflegt leyfi frá stjórnvöldum sem einungis er veitt að undangenginni læknisskoðun og skriflegu og verklegu prófi. Til þess að eignast og ala upp barn þarf einungis kynþroska.
Ökumaður bifreiðar þarf að tryggja eigið öryggi og annarra við akstur og því setur samfélagið skyldur og reglur á alla ökumenn og krefst þess að þeir gangist undir hæfnismat. Sé þetta sett í samhengi við barneignir og uppeldi þá er áhugavert að ekki skuli gerðar neinar sérstakar “hæfniskröfur” til verðandi foreldra. Halda mætti fram að barnauppeldi hefði með óbeinum hætti mótandi áhrif á hagsæld, öryggi, frelsi og “hamingju” hvers þjóðfélags og því afar mikilvægt að foreldrar sinni uppeldishlutverkinu af kunnáttu svo vel takist til. Samt sem áður er hverjum sem er frjálst að ala upp barn án sérstakrar menntunar eða fræðslu um þá samfélagslegu ábyrgð sem því fylgir að ala upp barn.
Skýringin er líklega sú að með því krefjast þess að einstaklingar gangist undir hæfnismat áður en þeir fjölga mannkyninu er vegið að sjálfri tilvist okkar sem einstaklinga. Það má aldrei gerast að stjórnvöld ákveði hverjir mega fjölga sér og hverjir ekki en það ætti ekki að koma í veg fyrir aukna fræðslu um barnauppeldi til verðandi foreldra, þeim til aðstoðar og leiðbeiningar því mikið er í húfi.
Fræðsla um barnauppeldi í skyldunámi er af mjög skornum skammti og foreldrar, misáhugasamir, notast flestir við eigin reynslu í uppeldi barna sinna sem og að viða að sér þekkingu í gegnum umhverfi sitt og ættingja. Sem er gott og blessað ef tryggt er að sú þekking sé nægjanleg til þess að skila sjálfstæðum einstaklingum með heilbrigðar hugsanir út í samfélagið. Því miður vitum við að svo er ekki í öllum tilvikum og “vanþekking” uppalenda á afleiðingum einstakra “uppeldisaðferða” getur oft leitt af sér umtalsverðan samfélagslegan kostnað og óhamingju.
Verðandi foreldrum stendur að vísu stutt námskeið til boða en það efni þess fjallar einungis um meðgöngu barns fram að fæðingu en ekkert um það stóra verkefni sem tekur við þegar barnið er komið í heiminn. Töluverð þekking er til um baranuppeldi og gerðar hafa verið viðamiklar rannsóknir sem geta nýst uppalendum í starfi. En því miður er það oft þannig að þeir uppalendur sem mest þyrftu á þekkingunni að halda leita síst eftir henni. Þess vegna má velta því fyrir sér þessari þekkingu væri best miðlað og hvort rétt væri að spyrða henni að einhverju leiti saman við námsefni á grunn- og/eða menntaskólastigi.
Gleðilega Páska.
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009