Tvær hliðar á ESB-andstöðu

Í Póllandi á andstaðan við aðild að Evrópusambandinu sér tvö andlit. Annað snýr út á við og skartar sínu fegursta frjálslyndi og hægristefnu, hitt snýr inn á við og er það öllu dekkra yfirlitum. Á pólska módelið eitthvað skylt við hin nýstofnuðu samtök Heimssýn?

Evrópuandstæðan í Póllandi hefur tvær hliðar. Út á við koma andstæðingar Evrópusambandsins fram sem upplýstir heimsborgarar. Lausir við ksenófóbískt hatur tala þeir um frelsishamlandi skrifræðisbákn í Brussel. Hin hliðin byggist á gamaldags útlendingahatri og haftastefnu.

Af þeim flokkum sem sitja á pólska þinginu leggjast tveir gegn aðild landsins að ESB: LPR – Bandalag pólskra fjölskyldna og Samobrona – Sjálfsvörn.

LPR er kaþólskur þjóðernisflokkur. Roman Giertych úr LPR hefur skipað sér í fremstu röð pólskra ESB andstæðinga. Hann ber sig vel, er kurteis og agaður stjórnmálamaður. Dæmigerð ESB ræða hans er e-ð á þessa leið: „Hvers vegna ættum við að loka okkur innan tollabandalags? Það er barnalegt að einblína á Evrópu í stað þess að líta á allan heiminn sem markað! Landbúnaðarkerfi ESB er úrelt, stofnanir þess hægvirkar auk þess sem þær skortir lýðræðislegt aðhald. Við getum gert betur en svo!“

Þetta hljómar vel í eyrum hinna vestrænu ESB-andstæðinga – hægrimanna. Andstæðan felst, jú, augljóslega í sókn í meiri alþjóðavæðingu, meiri alþjóðavæðingu en ESB getur boðið okkur upp á.

Hinir sömu mundu reyndar verða fyrir vonbrigðum ef þeir læsu heimasíðu flokksins, www.lpr.pl, og ýmis blöð honum tengd. Síðan er aðeins til á pólsku enda ekki þar fyrir útlending að finna. Efst má finna texta andþýsks lags sem samið var fyrir um 100 árum á tímum þýskrar hersetu. Þar fyrir neðan stendur: „Nú þegar Pólverjar hafa verið arðrændir eignum sínum og þær seldar óvinalýð, jafn erlendum sem innlendum, er pólsk jörð það eina sem við eigum eftir! Við mótmælum sölu jarða til útlendinga.“ Sannkölluð nýfrjálshyggja.

Þegar póstlisti samtakanna er lesinn má finna nánari skýringar á þessu. Óvinaöflin eru Gyðingar sem, eins og allir vita, settu á svið Helförina til að afla sér samúðar. Einnig má finna „áhyggjur“ um að aðild Póllands leiði til bættrar réttarstöðu samkynhneigðra, en samkynhneigð er ónáttúra og hommar ekki fólk heldur mannhundar.

Samoobrona (Sjálfsvörn) eru öfgafull bændasamtök sem rekin eru í kringum persónudýrkun á Andrzej Lepper, stofnanda þeirra. Í kringum kosningar friðaðist Lepper. Hann gagnrýndi ESB fyrir að niðurgreiða landbúnaðarvörur og og torvelda pólskum bændum útflutning. Hann náði kjöri en er í banni frá þinginu vegna ofbeldisfullrar hegðunar og brotum á þingsköpum. (Kom með sinn eigin megafón til að framíköll hans heyrðust í sjónvarpi)

Helstu áhugamál samtakanna eru að lama samgöngur og valda skemmdum á eignum annarra. Til dæmis hafa þau ráðist á lestarvagna með innfluttu korni og skemmt það, því nóg er víst kornið í Póllandi.

Þannig er þetta víðar í Evrópu. Á alþjóðlegum ráðstefnum og í sjónvarpskappræðum er stillt upp hinum frelsislelskandi alþjóðasinnum. Þeir sjá um samskipti við útlendinga og menntafólk. Hinn hópurinn höfðar til bænda og láglaunafólks gegnum andþýskan hræðsluáróður. Þeir draga fánann að húni, syngja þjóðsönginn og hrópa kjörorð sín: „Kirkjan, þjóðin og föðurlandið.“

Samtökin Heimssýn voru stofnuð fyrir skömmu. Nafnið er í samræmi við hina ytri ímynd sem ESB andstæðan vill hafa á sér. Ég efast reyndar ekki vilja margra félagsmanna til að opnara samfélags, afnáms tolla og friðsamlegra samskipta við aðrar þjóðir. Af hverju það fólk hafi ákveðið að stofna félag með sósíalistum og þjóðernissinnum er mér torskilið.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.