Það er óhætt að segja að sjaldan hafi jafnlítill flokkur ráðið jafnmiklu, með jafnlitlum árangri og Framsóknarflokkurinn gerir í dag. Forsætisráðuneyti, viðskiptaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti og félagsmálaráðuneyti er öllum stýrt af framsóknarmönnum. Þeir ætla líka að nota rækilega þetta einstaka tækifæri og hver vitleysishugmyndin á eftir annarri vellur upp úr þeim. En það er líka kannski eins gott fyrir þá að nota tækifærið þegar það býðst því ef fram heldur sem horfir eru núverandi ráðherrar flokksins að reka síðustu naglana í pólitíska líkkistu sína sem verður borin til grafar eftir næstu Alþingiskosningar.
Það er af mörgu að taka þegar Framsóknarflokkurinn og vondar hugmyndir eru annars vegar. En líklega er versta hugmyndin sem flestir framsóknarmenn hafa sú að þeir verði að skipta sér af öllu sem er að gerast í þjóðfélaginu. Þeir eru haldnir þeirri vitfirru að afskipti þeirra af þjóðmálum séu ávallt af hinu góða. Líklega er ekkert sem pirrar framsóknarmann eins mikið og að geta ekki handstýrt gangi þjóðmálanna. Þannig virðist það t.a.m. fara óskaplega í taugarnar á þeim ef að frjáls markaður hegðar sér ekki í samræmi við þeirra hugmyndafræði, algjörlega óháð því hvort lög hafi verið brotin eða ekki. Dæmi um þetta var Sparisjóðafrumvarp Valgerðar Sverrisdóttur þar sem komið var í veg fyrir samning milli tveggja aðila með síðbúinni lagasetningu.
Nýrra dæmi um ankannalegar hugmyndir framsóknarmanna og þörf þeirra fyrir afskipti er orð landbúnaðarráðherra, Guðna Ágústssonar, um ábúðaskyldu á bújörðum. Að vísu skal viðurkennast að orð hans komu í kjölfarið á fyrirspurn samfylkingarþingmanns en meðalið er hið sama – afskipti. Ráðherra sagði það vel koma til greina að binda í lög ábúðaskyldu á bújarðir til að koma í veg fyrir kaup efnamanna á jörðum. Vandamálið er stórkostlegt, bændum gefst loksins kostur á því að hætta búskap með sóma og leysa til sín verðmæti.
Þetta má að sjálfsögðu ekki viðgangast og er sá kostur skömminni skárri að bændastéttin, tekjulægsti hópurinn í þjóðfélaginu, neyðist til að lifa við sult og seyru. Það er náttúrulega forkastanlegt að bændur sem yrkja landið skuli allt í einu hafi það val að annað hvort halda áfram búskap eða selja jarðir sínar á góðu verði. Jarðir á að rækta enda skilyrði fyrir landbúnað á 66. gráðu norðlægrar breiddar eins og best verður á kosið í heiminum. Ráðherra mun því skoða það hvort það sé ekki ástæða til að skipta sér af þessum frjálsu gjörningum og skylda menn til starfa sem skila þeim litlu öðru en bakverkjum í framtíðinni og almenningi í landinu háu matvælaverði.
Guðni er þó ekki eini framsóknarráðherrann sem hefur kastað fram stórkostlegum hugmyndum undanfarið. Álgerður Sverrisdóttir, ráðherra allra Norðlendinga, hefur ákveðið að búa til fyrirbærið Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Báknið verður samsuða úr Iðntæknistofnun, Byggðastofnun og Rannsóknarstofnun byggingariðnarins og verður staðsett í Mekka nýsköpunar og tækni á Íslandi – Sauðárkróki. Núverandi starfsmönnum verður að sjálfsögðu boðin staða hjá Óskapnaðarmiðstöðinni á Króknum en illu heilli ætla fáir að þiggja það samkvæmt heimildum Deiglunnar. Öll þekking starfsfólks, sambönd og reynsla mun því að öllum líkindum verða eftir í höfuðvígi erkióvinar landsbyggðarframsóknarmannsins, höfuðborgarsvæðinu.
Um eða yfir 80% af starfsemi stofnananna sem renna inn í samsuðubáknið fer fram á höfuðborgarsvæðinu í dag. Miðstöðin mun því bera nafn með rentu því að hvað er betra en Nýsköpunarmiðstöð þar sem það þarf að skapa allt nýtt innandyra frá grunni? Hér er um ákaflega sterkan leik að ræða hjá Álgerði. Hún hyggst flytja þekkinguna þaðan sem hún nýtist best, þangað sem hún nýtist sýnu verr. Nýskapnaðarmiðstöðin verður eflaust miklu öflugri á Króknum með nýjum starfsmönnum enda hlýtur þekkingin og verðmætin að vera fólgin í stofnunum sjálfum en ekki í reynslu og mannauð starfsmanna viðkomandi stofnana. Maður kemur í manns stað.
Kannski að framsóknarmenn ættu að slá tvær flugur í einu höggi og koma á fót ábúðaskyldu í Nýsköpunarmiðstöðinni. Þannig yrðu starfsmenn þessara þriggja stofnana að vinna áfram hjá nýju stofnuninni enda væri það kvöð í ráðningarsamningi þeirra. Þannig mætti tryggja að öll starfsemin myndi færast þegjandi og hljóðalaust yfir á Krókinn og allir yrðu sáttir.
Eins og áður segir virðast framsóknarmenn hafa sterka tilhneigingu til að skipta sér af hlutum sem eiga að vera þeim alls óviðkomandi. Þeir hafa í gegnum tíðina haft allt of mörg tækifæri til að fullnægja þessari áráttu sinni. Í sögulegu samhengi er þó kannski sérstaklega gott að vera framsóknarmaður nú um stundir þar sem þessi minnsti stjórnmálaflokkur landsins er í þeirri aðstöðu að ráða óskaplega miklu. En mikið væri nú gott ef við kjósendur, sem höfum þó alltaf lokaorðið í þessari rimmu dæmum daga framsóknarmanna talda eftir næstu kosningar. Þó fyrr hefði verið.
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008