Nýlega fannst maður á þrítugsaldri látinn í bifreið sinni fyrir utan sumarbústað eftir að vinir og ættingjar höfðu leitað hans í nokkurn tíma. Segja þeir sem þekkja til að hann hafi átti góða fjölskyldu og vini og notið virðingar fyrir óeigingjarnt ungmennastarf í þágu íþrótta í Kópavoginum. Þrátt fyrir það virtust honum öll sund lokuð og ákvað hann því að enda líf sitt.
Samkvæmt fréttum NFS var útför hans í síðustu viku. Þar safnaðist saman stór hópur ættingja, vina og samferðarmanna sem, ásamt þeim sem fylgdust með beinni útsendingu á netinu, heiðruðu minningu hans. Athygli vakti hversu opinskátt presturinn, séra Gunnar Sigurjónsson sóknarprestur í Digraneskirkju, talaði um hvernig spilafíkn dró þennan unga mann í blóma lífsins fram á ystu nöf. Samkvæmt sr. Gunnari var ræðan í fullu samráði við aðstandendur unga mannsins sem vildu slá á allar getgátur um ástæður sjálfvígsins og vekja upp umræðu um sívaxandi vandamál tengd spilafíkn. Tók hann jafnframt fram að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem hann fylgdi einstaklingi í svipuðum aðstæðum til grafar.
Svo virðist sem þessi óeigingjarna og hugrakka afstaða aðstandendanna hafi skilað tilætluðum árangri og vakið upp umræðu um hversu alvarleg vandamál geta fylgt fjárhættuspili og stjórnlausri spilafíkn. Fólk er slegið yfir því að svo hæfileikaríkur ungur maður sem átti framtíðina fyrir sér og þétt stuðningsnet fjölskyldu og vina hafi lent í þvílíku öngstræti og gripið til örþrifaráða.
Enginn þarf að efast um gagn hreinskilni þeirra sem stóðu honum nærri. Ef spilafíkn gat valdið svona mikilli vanlíðan í þessu tilfelli, er vandamálið víðar og við verðum að opna augun gagnvart því.
Með hugrekki sínu hafa aðstendur þessa unga manns valið að halda þessu mikilvæga máli á lofti og það er okkar sjá til þess að halda umræðunni gangandi. Vinir, kunningjar og ættingjar geta fallið í svipaðar gildrur og því verðum við að vera meðvituð um svartnættið sem umlýkur þá sem lenda í slíkum aðstæðum.
Opinská umræða er alltaf betri en þögnin og oftast fyrsta skrefið í átt að farsælli lausn.
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021