Það er full ástæða til að óttast um alla þá sem hafa verið handteknir af öryggislögreglunni. Stjórnvöld í Eþíópíu eru annáluð fyrir harkalegar aðgerðir til að koma í veg fyrir mótþróa. Skýr dæmi um það er aðför stjórnvalda gegn akademísku frelsi með því að brjóta niður alla gagnrýna hugsun innan menntakerfisins.
Stuttu eftir að fyrrum uppreisnarmennirnir komust til valda árið 1991 fóru þeir að sýna menntakerfinu mikin áhuga. Á árunum 1994-1995 tóku þeir upp á því að reka háskólaprófessora og ráða í þeirra stað menn sem voru handgengnir stjórnvöldum. Í kjölfarið brutust út friðsamleg mótmæli stúdenta í Addis Ababa háskólanum til að mótmæla uppsögnunum og kröfðust stúdentar þess að fá að njóta akademísks frelsis. Að vanda þá brást öryggislögreglan við með því að skjóta á mótmælendur og handtaka þúsundir námsmanna. Voru fjölmargir þeirra pyntaðir í kjölfarið.
Stjórnvöld héldu áfram á sömu braut og eftir grófar uppsagnir „sjálfstæðra“ prófessora og menntaskólakennara árið 2001 brutust út mikil mótmæli á meðal stúdenta í Addis Ababa háskólanum og menntaskólum í kring þar sem uppsögnunum var mótmælt. Stjórnvöld brugðust við því með því að handtaka hundruð stúdenta og var sumum þeirra haldið í marga mánuði.
Undirritaður hefur átt viðtöl við einn af stúdentunum sem áttu þátt í að skipuleggja mótmælin árið 2001. Lýsir hann því hvernig þessi friðsömu mótmæli leystust upp í algjöra martröð. Mótmælendur héldu eingöngu til á háskólasvæðinu. Mótmælin voru friðsamleg og hópuðust stúdentarnir saman, sungu söngva og hrópuðu slagorð um virðingu fyrir akaemísku frelsi. Allt í einu ruddist lögreglan inn á háskólasvæðið með barefli og hóf að berja og limlesta alla sem þeir hittu fyrir. Við það hljóp flótti í mannskapinn og hóf öryggislögreglan þá að handtaka alla viðstadda.
Hann náðist ásamt hundruðum annarra, var handtekinn af öryggislögreglunni og kastað í dimman fangaklefa án dóms og laga. Hann fékk ekki neina lögfræðiaðstoð og var algjörlega blokkaður frá umheiminum. Í þrjá mánuði var hann í klónum á öryggislögreglunni og pyntaður reglulega með stöðugum barsmíðum og öðrum óhugnanlegri aðferðum. Í fyrstu reyndi öryggislögreglan að pynta upp úr honum einhver tengls við stjórnarandstöðuna en þar sem hann var ópólitískur stúdent varð þeim snemma ljóst að slíkt var tilgangslaust. Var honum þá gert ljóst að öryggislögreglan hefði hug á því að pynta hann og drepa ásamt nokkrum tugum af öðrum forystumönnum stúdenta svo þeir yrðu öðrum víti til varnaðar.
Rétt er að geta þess að eftir þetta var markmið pyntinganna ekki að ná fram upplýsingum þar sem um var að ræða, eins og áður sagði, ópólitískan stúdent sem hafði eingöngu skipulagt mótmæli til að berjast gegn óréttlæti. Í þrjá mánuði var stúdentinn pyntaður í þeim eina tilgangi að niðurlægja hann, níðast á honum og valda honum þjáningum.
Það er varla hægt að ímynda sér þá stöðu að vita að maður verði hægt og bítandi pyntaður til dauða til þess eins að láta það spyrjast út eftir á. Að engin upplýsingagjöf eða neitt annað geti orðið til þess að forða manni frá þessum grimmu örlögum.
Það sem varð honum og fleirum til happs var að alþjóðasamfélagið brást ókvæða við og krafðist þess að eþíópísku stúdentunum yrði sleppt. Þegar öryggislögreglan sleppti stúdentinum sem um ræðir trúði embættismaðurinn sem hafi stjórnað pyntingunum, honum fyrir því að öryggislögreglan væri virkilega skúffuð yfir að hafa ekki fengið að drepa hann. Lofaði hrottinn honum því að ef þeir kæmust einhvern tímann í tæri við hann aftur þá myndu þeir klára verkið.
Rétt er að geta þess að viðkomandi stúdent telur að það óréttlæti sem landar hans verða fyrir vera svo alvarlegt að líf hans sé harla léttvægt í samanburði. Hann er staðráðinn í því að fara aftur til Eþíópíu til að skipuleggja baráttu fyrir frelsi, mannréttindum og rétti þeirra sem minna mega sín.
Að lokum verður að minnast á að þrátt fyrir ítrekaðar fjöldahandtökur, skothríð og pyntingar þá neita eþíópískir stúdentar að gefa eftir gagnvart kúgurunum. Árið 2004 brutust aftur út friðsamleg mótmæli í háskólanum í Addis Ababa og menntaskólunum í kring þar sem aðför að akademísku frelsi var mótmælt. Í kjölfarið voru þúsundir mótmælenda handteknir og margir þeirra gróflega pyntaðir.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020