Það vakti mikla ánægju þegar einræðisstjórn EPRDF (e. Ethiopian People´s Revolutionary Democratic Front) tók það þýðingarmikla skref í maí á síðasta ári að halda lýðræðislegar kosningar og opna þær fyrir alþjóðlegu kosningaeftirliti. Þetta voru stærstu og lýðræðislegustu kosningar í sögu þjóðarinnar og voru þær af alþjóðasamfélaginu taldar vera merki um að hin fornu einræðisöfl sem lengi hafa haldið Afríku í heljargreipum væru á undanhaldi fyrir lýðræðinu.
Flest bendir til þess að forysta EPRDF hafi verið fullviss um að hreyfingin nyti stuðnings þjóðarinnar og myndi vinna auðveldan sigur í kosningunum. Í skýrslu kosningareftirlits Evrópusambandsins kemur fram að lítið hafi verið um misbresti í aðdraganda kosninganna. Kosningarnar voru svo haldnar þann 15.maí 2005 og var kjörsókn framar björtustu vonum.
Stuttu eftir að kjörstöðum var lokað virðist sem að tvær grímur hafi runnið á stjórnvöld. Neyðarástandi var lýst yfir og mönnum bannað að safnast saman í höfuðborginni Addis Ababa en bannið náði í raun yfir allt landið. Ríkisfjölmiðlarnir tóku strax til við að lýsa yfir sigri stjórnvalda þrátt fyrir að talning hafi verið í fullum gangi. Talningin sjálf gekk hins vegar hægt og bárust tölur með óreglulegu millibili fram eftir maí og júní.
Þegar tölur fóru að berast frá talningu var ljóst að stjórnarandstöðuflokkarnir hefðu bætt við sig mörgum þingsætum án þess þó að ná meirihluta. Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn CUD (e. Coalition for Unity an Democracy) neitaði að viðurkenna úrslitin og hélt því fram að brögð hefðu verið í tafli. Það studdi óneitanlega kröfu þeirra að þeir höfðu unnið stórsigur í sveitarstjórnarkosningunum sem voru haldnar samhliða. Stjórnvöld í Eþíópíu brugðust við ásökunum með því að saka CUD um að ætla að stela völdum í landinu með vopnaðri uppreisn án þess að hægt væri að styðja þær ásakanir með neinum skynsamlegum rökum.
Í byrjun júní 2005 brutust út friðsamleg mótmæli í Addis Ababa. Öryggislögregla og hermenn brugðust við af mikilli hörku og hófu skothríð á mannföldann þrátt fyrir að hann væri friðsamur og óvopnaður. Er talið að að minnsta kosti 36 óbreyttir borgarar hafi fallið og yfir 100 hafi særst í þessum aðgerðum. Í kjölfarið handtók öryggislögreglan þúsundir manna um allt landið á þeim forsendum að þeir væru grunaðir um að andsnúnir stjórnvöldum. Fjölmargir hinna handteknu voru pyntaðir af öryggislögreglunni og sumir eru enn í haldi.
Eftir kosningarnar var komin upp pattstaða í eþíópískum stjórnmálum því stjórnarandstaðan viðurkenndi ekki kosningarnar og neitaði að taka sæti á þinginu nema með skilyrðum um lýðræðislegar umbætur. Stjórnvöld og stjórnarandstaðan hófu viðræður til að reyna að ná sáttum án árangurs.
Þegar þær viðræður runnu út í sandinn í nóvember 2005 braust út önnur alda mótmæla í flestum stærstu borgum Eþíópíu. Öryggislögreglan brást á sama hátt við og áður með því að skjóta á mannfjöldann þótt hann væri óvopnaður og friðsamur. Létust að minnsta kosti 46 óbreyttir borgarar í þessum aðgerðum og hundruð særðust.
Í kjölfarið handtók öryggislögreglan þúsundir einstaklinga (opinberar tölur segja 4000 en í raun voru líklega yfir 10.000 handteknir) sem voru grunaðir um andstöðu við stjórnvöld. Sumir eru enn í haldi og fjölmargir hinna handteknu hafa sætt pyntingum og annarri illri meðferð. Öryggislögreglan lét hins vegar ekki þar við sitja heldur handtók einnig stjórnarandstöðuþingmenn, blaðamenn, ritstjóra og mannréttindafrömuði. Versta tilvikið átti sér stað þegar öryggislögreglan skaut óvopnaða eiginkonu eins stjórnarandstöðuþingmannsins með köldu blóði fyrir að krefjast skýringa á handtökunni. Voru viðkomandi stjórnarandstæðingar ákærðir fyrir landráð en dauðarefsing liggur við því broti. Einnig voru þeir ákærðir fyrir þjóðarmorð en sá málatilbúnaður er algjörlega út í bláinn og tilbúningur frá upphafi til enda.
Farsinn hélt áfram því þegar þeir höfðu verið í haldi í nokkra mánuði voru lögfræðingar þeirra einnig handteknir án nokkurra skýringa. Eru þeir enn í haldi öryggislögreglunnar.
Eþíópía er ekkert einsdæmi þegar kemur að grófu ofbeldi og mannréttindabrotum á óbreyttum borgurum. Í skýrslu Human Rights Watch fyrir árið 2006 eru tugir ríkja nefnd til sögunnar sem eru að fremja svipuð eða verri brot á þegnum sínum. Það er hins vegar ákveðið áhyggjuefni hversu kærulaus við erum gagnvart því sem er að gerast í heiminum í kringum okkur. Þegar skotið var á mótmælendur í Addis Ababa á síðasta ári þá var þess atburðar tæplega getið í fréttum og þegar stúdentar voru handteknir á árunum 1994-1995, 2001 og 2004 í frægum aðgerðum (fjallað um þær í seinni pistli dagins) þá var ekki minnst á það einu orði.
Sinnuleysi fjölmiðla kemur hins vegar ekki á óvart. Íslendingar njóta þeirra forréttinda að koma frá afar vernduðu umhverfi þar sem pyntingar og gróf mannréttindabrot eru svo fjarlæg að flest okkar eiga virkilega erfitt með að ímynda okkur þau, hvað þá að setja okkur í spor þeirra sem verða fyrir þeim. Við megum hins vegar aldrei gleyma að mótmælendurnir sem voru skotnir eða pyntaðir eru fólk eins og við. Fólk af holdi og blóði með maka, börn, fjölskyldur, vini, hús, bíl og atvinnu.
Eini munurinn á þeim og okkur var að þetta fólk fæddist inn í umhverfi þar sem þau réttindi sem við búum við eru ekki sjálfsögð. Umhverfi þar sem einræðisstjórn liggur eins og blóðsuga á þegnum sínum og hikar ekki við að drepa, pynta og limlesta alla óbreytta borgara sem standa í veginum. Við þær aðstæður sýndi þetta fólk hins vegar það hugrekki að reyna með friðsömum hætti að ná fram breytingum og galt fyrir með lífi sínu eða grófum pyntingum.
Við erum virkilega lánsöm að þurfa ekki að standa frammi fyrir vali um hvort við viljum búa við einræði eða reyna að ráðast með friðsömum hættu gegn byssukjöftum. Hvort við viljum lifa frjáls eða deyja. Heimurinn er hins vegar heimili okkar allra og við skuldum því fólki sem lætur lífið við að reyna að gera hann að betri stað að láta það ekki falla í gleymsku.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020