Ákvörðun Seðlabanka Íslands um að hækka stýrivexti um 75 punkta úr 10.75% í 11.5% sem tilkynnt var á fimmtudaginn var góð ákvörðun. Rökstuðningur bankans fyrir þessari aðgerð var að verðbólguhorfur hafi versnað til muna á síðustu mánuðum vegna umtalsverðrar lækkunar á gengi krónunnar og einnig vegna þess að nýjar upplýsingar benda til þess að framleiðsluspenna í hagkerfinu sé mun meiri en áður var talið. Bankinn komst að þeirri niðurstöður að “að óbreyttum stýrivöxtum og gengi virðast nú hverfandi líkur á því að verðbólgumarkmiði Seðlabankans verði náð innan tveggja ára.” Bankinn sagði ennfremur að “launaþróunin og viðskiptahallinn til samans valda því að verðbólguhorfur eru óviðunandi jafnvel til langs tíma.”
Í ljósi þessa var nauðsynlegt fyrir bankann að hækka stýrivexti sína verulega. Ef hann hefði ekki hækkað vexti verulega nú hefði það haft umtalsverð neikvæð áhrif á trúverðuleika peningamálastefnunnar og ýtt undir það að háar verðbólguvæntingar festust í sessi. Trúverðuleiki peningamálastefnunnar hefur átt undir högg að sækja að undanförnu þar sem verðbólga hefur nú mælst talsvert yfir markmiði bankans í langan tíma. Þar að auki hefur nokkur óvissa ríkt um hvaða áhrif skipun Davíðs Oddssonar sem bankastjóra myndi hafa á stefnu bankans. Aðgerð bankans á fimmtudaginn tekur af öll tvímæli um það að Seðlabankinn með Davíð í broddi fylkingar er ófeiminn við að beita stjórntækjum sínum til þess að halda aftur af verðbólgu og ofþenslu.
Auk þess að hækka vexti verulega boðar bankinn að frekari hækkanir á vöxtum séu líklegar á næstu mánuðum. Í þessu sambandi nefnir bankinn að spálíkön hans bendi til þess að vextur þurfi að hækka e.t.v. um nokkrar prósentur til viðbótar til þess að verðbólgumarkmið bankans náist innan viðunandi tímamarka. Þessi mjög svo afdráttarlausa melding um stefnu bankans á næstu mánuðum er stór breyting frá því orðalagi sem bankinn notaði síðastliðinn desember. Á þeim tíma gagnrýndi Deiglan bankann fyrir tvískinnung. Það er ánægulegt að að þessu sinni eru skilaboð bankans skýr og afdráttarlaus.
Viðbrögð greiningaraðila við aðgerð Seðlabankans hafa almennt verið jákvæð. Ekki eru þó allir sammála um að aðgerð bankans muni fyllilega bera þann ávöxt sem Seðlabankinn vonast til að hún geri. Þannig segir greiningardeild KB banka að vaxtahækkunin “geti ekki stöðvað þá verðbólgu sem nú er í pípunum” þar sem áhrif hennar komi ekki fram fyrr en eftir 6-18 mánuði.
Hér er greiningardeild KB banka ef til vill óþarflega svartsýn. Sú verðbólga sem er í pípunum orsakast að miklu leyti af lækkun krónunnar undanfarnar vikur. Að svo miklu leyti sem aðgerð Seðlabankans nær að stöðva lækkun krónunnar eða jafnvel snúa henni við mun hún eyða hluta verðbólgunnar sem er í pípunum og þannig hafa jákvæð áhrif á verðbólguþróun innan örfárra mánaða. Aðgerðir Seðlabankan Íslands hafa hraðari áhrif á verðbólguþróun en aðgerðir annarra seðlabanka þar sem verðbólga á Íslandi ræðst að meira leyti af þróun gengisins (sem vaxtaákvarðanir hafa áhrif á án tafar) en í flestum öðrum löndum.
Þær aðstæður sem Seðlabankinn hefur glímt við undanfarin misseri eru afskaplega sérstakar. Það sem helst hefur gert aðstæðurnar sérstakar er hið tímabundna eðli þenslunnar sem ríkt hefur. Þensluna má að stórum hluta rekja til byggingar álversins á Reyðarfirði og Kárahnjúkavirkunar. Lengst af leit út fyrir að þenslan myndi hjaðna af sjálfu sér þegar þeim framkvæmdum lyki. Þetta tímabundna eðli þenslunnar gerði það að verkum að færa mátti rök fyrir því að skynsamlegast væri fyrir Seðlabankann að bregðast við með mildari hætti en ella og dreyfa viðbrögðunum yfir lengri tíma. Slík stefna myndi leiða til þess að verðbólga ykist eitthvað á meðan á þenslutímanum stæði. Seðlabankinn myndi síðan vinna á þeirri verðbólgu yfir nokkurra ára skeið eftir að þenslunni lyki. En á móti kæmi að aðlögun hagkerfisins væri ekki jafn harkaleg á meðan á þenslunni stæði. Segja má að aðgerðir Seðlabankans undanfarin misseri hafi samrýmst slíkri stefnu.
Nú hefur hins vegar komið á daginn að stjórnvöld hafa áhuga á því að halda áfram að spenna hagkerfið með handafli eftir að framkvæmdunum á Austurlandi lýkur. Nú er í auknum mæli rættu um byggingu fleiri álvera og fleiri virkjanna. Þessi þróun breytir í grundvallaratriðum forsendunum fyrir því að Seðlabankinn geti brugðist við með þeim hætti sem lýst er í málsgreininni hér fyrir ofan. Ef það þensluástand sem nú ríkir á að halda áfram í fjölda ára hefur Seðlabankinn engra annarra kosta völ en að bregðast við af fullri hörku til þess að stöðva hækkun verðbólgunnar. Það segir sig sjálft að ef enginn endir er í sjónmáli hvað þensluna varðar getur Seðlabankinn ekki leyft verðbólgunni að halda áfram að hækka jafnt og þétt. Slík stefna myndi innan fárra ára leiða til þess að verðbólgan væri orðin algerlega óásættanleg. Kostnaðurinn við að ná verðbólgunni niður eykst þar að auki þeim mun lengur og betur sem verðbólgan nær að festa sig í sessi. Áform um áframhaldandi uppbyggingu stóryðju á árunum eftir 2007 hafa því veruleg áhrif á peningamálastefnu Seðlabankans í dag.
Að lokum er vert að gefa því gaum hvernig peningamálastefnu Ísland myndi búa við ef Seðlabankanum hefði ekki verið veitt sjálfstæði árið 2001. Halldór Ásgrímsson hefur ítrekað lýst því yfir að hann telji vaxtahækkanir Seðlabankans óskynsamlegar. Hann hefur auk þess dregið í efa að hækkun vaxta leiði til lægri verðbólgu. Ef Seðlabankanum hefði ekki verið veitt sjálfstæði væru ákvarðanir um hækkun og lækkun vaxta í höndum Halldórs. Af ummælum hans má ráða að hann hefði kosið að Seðlabankinn lækkaði vexti á fimmtudaginn í stað þess að hækka þá. Raunar er líklegt að fæstar af vaxtahækkunum síðustu missera hefðu átt sér stað ef Halldór hefði fengið að ráða. Það er umhugsunarefni hvað erlend matsfyrirtæki væru að segja um Ísland í dag ef peningamálastefna landsins hefði verið með þeim hætti.
- Uppgjör og ábyrgð - 15. apríl 2010
- Evrópusambandið í hlutverki handrukkara - 13. nóvember 2008
- Standa þarf vaktina - 26. september 2008