Hafnarbolti er furðuleg íþrótt en er engu að síður ákaflega vinsæl í Bandaríkjunum, Japan og á Kúbu. Leikurinn er ekki óskvipaður gamla leikfimisleiknum kýló að viðbættum kylfum og munntóbaki. Leikurinn er eins of flestir vita þjóðaríþrótt Bandaríkjamanna og eru tengsli við ameríska þjóðrækni svo sterk að leiðtogi hins frjálsa heims er oftast fenginn til þess að henda fyrsta boltanum á hverri leiktíð.
Hafnarboltahetjur eru ekki láglaunamenn. Laun þeirra nema milljónum dala á ári og þeir allra bestu geta keypt nauðsynjavörur og húsakjól fyrir fjölskyldur sínar fyrir tugi milljóna dala á ári. En þeir hafa þó ekki verið sérlega ánægðir upp á síðkastið og hafa hótað verkfallsaðgerðum í allt sumar. Í gær var þessum verkfallsaðgerðum reyndar aflýst, degi eftir að forseti Bandaríkjanna lýsti því yfir að hann myndi ekki skipta sér að launadeilunni.
Það er sögulegt við þann samning sem náðist í gær að ekki hefur áður tekist að koma í veg fyrir verkfall leikmanna í samningaviðræðum siðan árið 1969. Verkamann í hafnarboltaiðnaði hafa því verið ákaflega verkfallsglaðir og hefur deildarkeppni stöðvast níu sinnum síðan árið 1972. Á þessum sama tíma hafa meðalárslaun leikmanna hækkað úr 51.505 dölum í 2.380.000 sem virðist dálaglegt en er í raun ekki nema 13,6% hækkun að nafngildi á ári og því kannski ekki eins stórfenglegt og virðist í fyrstu.
Á þessu þrjátíu ára tímabili hefur orðið algjör bylting í markaðssetningu íþrótta og tekjur tengdar íþróttaviðburðum aukist stórlega. Íþróttamenn í öllum greinum hafa hagnast stórlega á þessari þróun enda er leitun að markaði sem kemst nær því að vera fullkominn markaður í hagfræðilegum skilningi heldur en íþróttamarkaðurinn. Mælingar á frammistöðu liða og leikmanna gefa óvéfengjanlegar upplýsingar um hæfileika þeirra og einfalt er að setja verðmiða á vinnuframlag hvers og eins. Það er því líklegra en ekki að tíð verkföll leikmanna hafi síður en svo verið til þess að auka hag leikmannanna – heldur hefði launaþróunin orðið áþekk eða meiri ef leikmennirnir hefðu hamið sig betur í kjaradeilum sínum.
Tíðar launadeilur leikmanna hafa dregið mjög úr áhuga almennings á íþróttinni, enda þykir venjulegu fólki það fremur til marks um heimtufrekju en sérstaka stéttarvitund þegar menn með svo há laun telja sig þurfa að beita verkfallsvopninu fyrir sig til þess að fá “kjör sín leiðrétt”. Áhorf á hafnarbolta hefur minnkað á síðustu árum og aðsókn á leiki dalað all nokkuð. Ástæðan er auðvitað sú að almenningur hefur ekki snefil af samúð með kjarabaráttu hafnarboltaleikmanna og finnst hegðun þeirra bera merki um gegndarlausan hroka og botnlausa græðgi – og skort á því sem Kaninn kallar “love for the game”.
Atvinnumenn í íþróttum fá tækifæri til þess að lifa drauminn sem flest börn ala með sér. Þeir vinna við það sem þeim finnst skemmtilegast að gera og fá greidda dágáða þóknun fyrir. Það er ekki bara sorglegt að margir atvinnuíþróttamenn hafa misst sjónar á þessu heldur er það einnig skaðlegt fyrir þá sjálfa – því ef þeir ganga of langt í misbjóða aðdáendum sínum – sem ekki hafa sömu forréttindi í lífinu – þá hverfur smám saman grundvöllur þess draums sem þeir hafa fengið að lifa.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021