Pistlahöfundur stundar þetta skólaár nám við University of Essex, rétt rúmlega 50 mínútum norðan við London. Skólinn er í minna lagi á breskan mælikvarða og telja nemendur rétt um átta þúsund, eða færri heldur en við Háskóla Íslands. Þrátt fyrir þessa smæð skólans er hér boðið upp á mjög gott námsúrval á flestum fræðasviðum. Á meðal þess sem kennt er við Háskólann í Essex eru einmitt íslenskar bókmenntir. Áfanginn er 7.5 einingar á íslenskan mælikvarða og er heilsárs áfangi. Enn sem komið er er hámarksskráning aðeins sextán nemendur en áhuginn er til staðar og þykir líklegt að nemendum verði fjölgað á næsta ári. Það þarf ekki að koma á óvart að mest áhersla er lögð á að fara yfir áðurnefnda menningararfleifð Íslendinga. Þrátt fyrir að einnig sé farið yfir helstu þróanir og hreyfingar í íslenskri bókmenntasögu.
Þau verk sem farið er yfir í kúrsinum eru meðal annars af eldri verkum: Egils saga Skallagrímssonar, Brennu-Njáls saga og Laxdæla og svo Sjálfstætt Fólk, Englar Alheimsins og 101 Reykjavík af seinni tíma verkum. Kennari áfangans, Joe Allard, er mikill aðdáandi íslenskrar menningar og þá sérstaklega Sturlungatímabilsins. Á þessari stundu er til að mynda í undirbúningi útgáfa bókar um forn-norsku eða “Old-Norse”, það tungumál sem var útbreiddast í Skandinavíu á tíma sagnaritunar, þar sem ofangreindur kennari hefur tileinkað tveimur köflum í umfjöllun um Íslendingasögurnar. Undirritaður var svo heppinn að, sökum þjóðernis, vera beðinn um að prófarkarlesa kaflana. Það verður ekki af því skafið að sú upplifun að lesa um frægðarferðir og ljóðmælgi forfeðrana á erlendu tungumáli er vægast sagt upplífgandi og ýtir undir þjóðarstoltið.
Rúsínan í pylsuendanum var þó án vafa þegar undirritaður komst að því að í heimsborginni London, hittast fræðimenn víðsvegar af Englandi, annann hvern föstudag, til þess að lesa og ræða um íslenskar bókmenntir og þá sér í lagi Íslendingasögurnar. Þessi hópur ber hið mjög viðkunnalega og alíslenska nafn Orðhenglar. Ennfremur að þá stendur deild skandinavískra fræða við University College London fyrir árlegri ráðstefnu um íslenskar og skandinavískar bókmenntir. Þessi árlega ráðstefna, sem gengur undir nafninu Skáldamjöðurinn, mun einmitt fara fram fimmtudaginn 30. mars næstkomandi. Ánægjulegt er að segja frá því að ekki verður einungis fjallað um merkar sögur líkt og Ólafs sögu Tryggvasonar heldur verður einnig í boði bæði hákarl og brennivín.
Það er ljóst að þrátt fyrir að íslensk menning og saga sé ekki sú lengsta og viðburðarríkasta í heimssögunni að þá er hún nokkuð sem hver Íslendingur ætti að læra og tileinka sér. Í sögunum höfum við að geyma ómetanlegan menningararf sem mikilvægt er að halda í heiðri. Eitt er víst og það er að pistlahöfundur hefur sett sér nýtt áheit fyrir árið og það felur í sér að lesa í hið minnsta tvær af sögunum góðu áður en árið er úti. Enda lætur maður það ekki koma nema einu sinni fyrir að láta einhvern útlending, sem varla hefur stigið fæti á okkar ástkæru móðurjörð, leiðrétta sig og uppfræða um efnistök móðurmjólkurinnar.
- Fimm til að fylgjast með - 17. ágúst 2011
- Raunveruleika útgáfan af FM (CM) afturkölluð af UEFA - 15. júlí 2011
- Þorláksmessa knattspyrnuaðdáenda - 10. júní 2010