Helgarnestið hefur einsett sér í dag að vera á jákvæðum nótum og fjalla um viðhorf okkar til lífsins í þessum síðasta pistli fyrir helgi á Deiglunni. Í stað kaldhæðinnar analýsu um fuglaflensu eða brotthvarf hersins er fjallað um einfalt ráð til þess að létta sér tilveruna.
Að velja sér viðhorf!
Að velja sér jákvætt viðhorf!
Óumdeilt er að líf einstaklings í alþjóðavæddu upplýsingasamfélagi, þar sem hraði og skilvirkni eru kröfur sem sífellt aukast, veldur meiri streytu heldur en áður var. Krafa samfélagsins um aukna menntun, aukin lífsgæði, aukna ábyrgð, aukna framleiðni og skilvirkni, aukna kaupgetu, aukna skemmtun, auknar tómstundir, auknar frístundir og gæðatíma með fjölskyldu og vinum, gerir það að verkum að fjöldinn allur siglir í gegnum lífið í einu stóru samviskubiti og stresskasti og nær varla að njóta lífsins-jú nema kannski útúrdrukkinn á sólarströnd með skuldaklafa vegna ferðarinnar á bakinu!
Og því er mikilvægt að velja sér viðhorf til alls sem við er að glíma í erli dagsins.
Með því að tileinka sér jákvætt viðhorf til lífsins, til starfsins, til fjölskyldunnar og svo framvegis er unnt að lágmarka streytu og neikvæðar hugsanir sem kviknað geta vegna of mikils álags. Margir verða ósjálfrátt neikvæðir þegar öll spjót standa á þeim og hugsanir eins og: ,, Ég klára þetta aldrei” eða : ,, Ég kemst ekki í gegnum daginn/vikuna/ árið án þess að brjálast” sækja þá iðulega á.
Það er óumdeilanlega freistandi að hugsa slíkt, í stað þess að segja: ,, Ég get þetta vel” eða ,, Ég redda þessu”. Slíkt viðhorf lágmarkar ekki aðeins neikvæðar hugansir heldur er líka til þess fallið að auka afköstin til muna. Með því að beina hugsunum í jákvæðan farveg í stað þess að einblína á neikvæða þætti er unnt að beina þeim tíma og þeirri orku sem fer í svartagallsrausið í þann farveg sem þarf til þess að klára þau verkefni sem fyrir liggja. Með því að staldra við og skoða vinnuferli og viðhorf má spara tíma og orku sem annars er bara að fara til spillis.
Vissulega er það svo að við stjórnum alls ekki öllu því sem gerist í lífi okkar; við ráðum kannski ekki því hvaða verkefni okkur eru falin, hvað gerist í lífinu, eða hver viðbrögð samferðarmanna okkar verða. En með því að setja sér það viðhorf að einblína frekar á það jákvæða í hverri stöðu er líklegra að okkur takist að leysa úr vandamálum og erfiðleikum með mun minni fyrirhöfn og tíma en við myndum eyða með því að fókusera fyrst og fremst á neikvæðu punktana.
Með jákvætt viðhorf að leiðarljósi, ætti að vera hægt að minnka það áreiti og streytu sem við völdum okkur sjálfum að mestu leyti og með því að gefa okkur aukinn tíma til þess að verja í annað en orkufrekar neikvæðar hugsanir.
Ofangreind hugmyndafræði er ekki algild eða einhlít, en það er almennt betra að hafa hana að leiðarljósi, heldur en ekki!
Og miðað við gengi krónu og hlutabréfa, stöðu markaða, brotthvarf hersins, yfirvofandi fuglaflensu og gengi okkar í Evrovision á liðnum árum, má segja að ofangreint eigi fullt erindi við okkur.
Förum því jákvæð inn í helgina!
Góða helgi!
- Kveikt er ljós við ljós – burt er sortans svið - 24. desember 2020
- Hæstivirtur forseti,Royal Straight Flush! - 21. febrúar 2008
- Má Kaupþing þetta? - 7. nóvember 2007