Þann 29. janúar 1986 náði Yoweri Kaguta Museveni völdum í Uganda með því að steypa forsetanum Tito Okello af stóli. Hinn fráfarandi forseti hafði komið frá Acholihéraði í Norður-Úganda og olli valdaránið mikilli ólgu í héraðinu. Hermenn sem áttu rætur að rekja til héraðsins og voru hliðhollir fráfarandi forseta stofnuðu í kjölfarið UPDA (e. Ugandan People´s Democratic Army) sem hóf uppreisn gegn stjórnvöldum. Það er óhætt að segja að uppreisnarmennirnir hafi ekki riðið feitum hesti frá uppreisninni. Þeir náðu nánast engu landsvæði á sitt vald sem hafði slæm áhrif á bardagamóð þeirra sem olli síðan enn frekari ósigrum. Leystist UPDA algjörlega upp árið 1988.
Uppreisnin í Acholihéraði komst ekki verulega á skrið fyrr en kona að nafni Alice Auma kom fram á sjónarsviðið. Alice hélt því fram að hún væri spámaður guðs og stofnaði uppreisnarhreyfingu sem átti að vera tengd heilögum anda (e. Holy Spirit Movement). Hernaðartækni Alice verður að teljast afar framúrstefnuleg en hún byggðist á tuttugu boðorðum sem allir hermenn hennar þurftu að fylgja. Ber þar helst að nefna að hermennirnir þurftu að maka líkama sinn með hnetuolíu til að verjast byssukúlum, þeim var bannað að leita skjóls í bardaga, bannað að hörfa út úr bardaga og síðast en ekki síst þá var þeim algjörlega bannað að drepa snáka og hunangsflugur.
Eins ótrúlegt og það kann að hljóma þá náði Alice fljótt miklu betri árangri en fyrrverandi atvinnuhermenn UDPA í stríðinu gegn stjórnvöldum í Úganda þótt hún hafi eðli málsins samkvæmt orðið fyrir töluverðu mannfalli. Vann hreyfing hennar þónokkra lykilsigra á stjórnarhernum og hóf stórsókn í átt að Kampala, höfuðborg Úganda í nóvember 1987. Guð og lukkan yfirgáfu hana hins vegar þegar hún var komin í klukkutíma fjarlægð frá Kampala. Þar beið hún algjöran ósigur gegn stjórnarhernum og þurfti í kjölfarið að flýja til Kenýa. Settist hún að í Dadoob flóttamannabúðunum í Norður-Kenýa ásamt nokkrum afar heittrúuðum fylgismönnum og er þar enn.
Þegar Alice hóf stórsókn sína út úr Acholihéraði í átt að Kampala dúkkaði ungur maður að nafni Joseph Kony upp í héraðinu. Hann hélt því fram að hann væri andsetinn af hinum ýmsu öndum. Ber þar helst að nefna anda Juma Oris sem var ráðherra í ríkisstjórn Idi Amin, einhvers kínversks hershöfðingja, einhverrar óþekktar konu frá Súdan og síðast en ekki síst anda Bandaríkjamanns að nafni Jeff Brickey sem enginn kann því miður nánari deili á. Varð Joseph Kony fljótt álitinn einhvers konar trúarfígúra í héraðinu.
Joseph notaði tækifærið þegar Alice var fjarverandi í hernaðarleiðangri sínum, safnaði saman þeim fylgismönnum hennar sem voru í héraðinu ásamt fyrrverandi meðlimum UPDA og stofnaði hliðarhreyfingu við hreyfingu Alice sem fékk hið frumlega nafn “Holy Spirit Mobile Force II”. Nafn hreyfingarinnar þróaðist hins vegar brátt í LRA (e. The Lords Resistant Army).
LRA kveðst byggja aðallega á hinum 10 boðorðum guðs. Joseph Kony hefur hins vegar lýst því yfir að hann sé fjölgyðistrúar og hefur hann látið fylgismenn sína iðka trúarbrögð þar sem kristni, íslam og gamalli trú frá Acholi héraði er blandað saman. Herforingjaráð LRA samanstendur aðallega af Joseph Kony og öndunum. Á hver andi að stjórna ákveðnum hluta af herafla LRA og miðla skipunum sínum í gegnum Joseph. Þó er rétt að geta þess að heimildum ber saman um að jeppaherfylkið sem Jeff Brickey stjórnar sé víst í raun og veru ekki til.
LRA kom sér fyrir í Suður-Súdan þar sem þeir njóta fulls stuðnings og hafa aðstoðað stjórnarher Súdan í stríðinu gegn SPLA (e. Sudanese People´s Liberation Army.) Framan af hefur LRA stundað frekar léttvægan skæruhernað gegn stjórnarhernum í Úganda en hafa verið þeim mun uppteknari af því að fara yfir landamærin og herja á saklausa borgara í Úganda. Allt til dagsins í dag er saga LRA í Úganda máluð ótrúlegum grimmdarverkum. Segja má að grimmilegur valdatími Idi Amin líkist oft á tíðum jólaboði þegar hann er borinn saman við ýmislegt í sögu LRA.
LRA hefur stundað limlestingar og fjöldaaftökur á óbreyttum borgurum í stórum stíl. Hafa þeir m.a. stundað það að skera nef og eyru af fólki. Til að toppa það þá hóf LRA, árið 1987, kerfisbundið að ræna öllum börnum í Úganda sem þeir náðu til. Í tengslum við slík barnarán er ekki óalgengt að LRA neyði börnin til að taka foreldra sína og fjölskyldu af lífi áður en haldið er til Súdan. Notar Joseph Kony börnin síðan sem hermenn, kynlífsþræla eða selur þau í Súdan fyrir vopn.
Hefur meðferð Josephs Kony á börnum þótt sérstaklega ámælisverð. Hann hefur miskunnarlaust neytt þau til að berjast fyrir sig. Jafnframt hefur hann ítrekað sent börn óvopnuð til bardaga og látið þau labba í flokkum á undan hermönnum til að verja þá fyrir kúlnahríð. Í skýrslu Human Rights Watch frá 1997 var viðtal við barnahermanninn “Stephen” sem hafði sloppið úr klóm LRA. Lýsti hann undirbúningi barnahermannanna sem mörg hver eru á milli 8 og 12 ára gömul með eftirfarandi hætti:
Ástandið í herbúðum Josephs Kony er oft alveg jafn hættulegt fyrir börnin og vígvöllurinn. Þau stúlkubörn sem eru ekki seld eru notuð sem kynlífsþrælar fyrir Joseph Kony og foringja hans. Hefur hann jafnframt stundað það að taka lítil börn af lífi með aftökusveit og að neyða börn til að taka þá jafnaldra sína af lífi sem hann hefur úrskurðað að heilagur andi hafi yfirgefið.
Árið 2002 hóf stjórnarher Úganda sókn gegn LRA og fóru meðal annars inn í Suður-Súdan með leyfi þarlendra stjórnvalda. Þetta olli miklum átökum á milli LRA og stjórnarhersins sem hafa staðið yfir fram á þennan dag. Það var ekki fyrr en á september 2005 að LRA voru að mestu leyti hraktir frá Suður-Súdan og Norður-Úganda inn í austurhluta Lýðveldisins Kongó. Er talið að meirihluti LRA haldi þar fyrir í Garamba þjóðgarðinum sem er undir eftirliti Sameinuðu þjóðanna.
Það er einnig ljós í myrkrinu að hinn nýstofnaði Alþjóðlegi Sakamáladómstóll hefur ákveðið að láta mál Joseph Kony og LRA til sín taka að beiðni stjórnvalda í Úganda. Þann 6. október 2005 voru gefnar út formlegar ákærur á hendur Joseph Kony og fjórum nánustu samstarfsmönnum hans. Er ákæran á hendur Joseph í 33 liðum. Tólf ákæruliðir varða glæpi gegn mannúð, þar á meðal fyrir morð, þrælahald, kynlífsþrælkun og nauðgun. Hinir ákæruliðirnir varða stríðsglæpi, þar á meðal fyrir morð, illa meðferð á saklausum borgurum, viljandi árásir á saklausa borgara, gripdeildir, nauðganir og að neyða börn til að taka upp vopn.
Flótti LRA og ákæran kynda undir von um að einhvern tímann verði hægt að stöðva Joseph Kony fyrir fullt og allt. Það er hins vegar ekki hægt að horfa fram hjá því að maðurinn hefur náð að stunda grimmdarverk sín nokkuð óáreittur í næstum 20 ár og virðist hafa furðulegt lag á því að forðast morðtilraunir eða handtöku. Tíminn verður því að leiða í ljós hvort réttlætið muni ná til Joseph Kony í þessum heimi.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020