Fjármálaráðherra kynnti í gær hugmyndir að breytingum á skattalögum og reglugerðum sem eiga að stuðla að betra starfsumhverfi fyrir nýsköpunarfyrirtæki. Vafalaust eru þessar hugmyndir ráðherra settar fram vegna vaxandi mótstöðu í þjóðfélaginu við frekari stóriðjuframkvæmdir og umræðu um slæm starfsskilyrði nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi. En í hverju felast þessar hugmyndir og munu þær skipta höfuðmáli við áframhaldandi uppbyggingu skapandi atvinnuvega á Íslandi?
Óhætt er að segja að undanfarin misseri hafi andstæðingum frekari stóriðjuuppbyggingar í landinu vaxið ásmegin. Umræða um neikvæð áhrif þeirra framkvæmda á efnahagsumhverfið og starfsskilyrði útflutningsfyrirtækja hefur þar vegið þungt. Sú skoðun stjórnvalda að stóriðja sé lausn allra vandamála landsbyggðarinnar og efnahagslífsins gerði það að verkum að háværar raddir, málsmetandi manna í atvinnulífinu, heyrðust sem gagnrýndu einstrengingslegan og gamaldags hugsanahátt ríkisstjórnarinnar. Ísland var að veðja á stóriðju í áframhaldandi heimsvæðingu en ekki mannauð og skapandi iðnað eins og flestar aðrar vestrænar þjóðir.
Í kjölfar þessarar umræðu lýsti fjármálaráðherra þeirri skoðun sinni að honum þætti ekki rétt að ráðast í sértækar aðgerðir til að hjálpa þekkingarfyrirtækjum þar sem öll fyrirtæki, óháð því í hvernig starfsemi þau væru, þyrftu að sitja við sama borð. Málið yrði því að hugsa vel. Það er lítið út á þá hugmyndafræði að setja að allir eigi að hafa sömu tækifæri á markaði. Hins vegar er gallinn við málflutning ráðherra sá að íslensk stjórnvöld niðurgreiða ýmsa starfsemi í dag með einum eða öðrum hætti. Má þar niðurgreiðslur til útgerðarfélaga í formi sjómannaafsláttar, beina styrki til bænda, niðurgreiðslur til stóriðju í formi raforkuverðs undir markaðsverði og endurgreiðslur hluta kostnaðar til erlendra kvikmyndaframleiðenda sem taka kvikmyndir á Íslandi.
Þau rök að ósanngjarnt sé að hygla einum geira atvinnulífsins umfram aðra eiga því ekki við. Það að taka upp ríkisívilnanir fyrir nýsköpunarfyrirtæki væri því ekki í fyrsta sinn sem slíkt væri gert á Íslandi og samanborið við aðra atvinnuvegi sem njóta sérkjara má ímynda sér verri kosti.
Fjármálaráðuneytið hefur þó vafalítið séð að sér og sýnir nú vilja í verki til að skoða hvað hægt sé að gera fyrir skapandi iðnað á Íslandi. Þær tillögur sem voru kynntar í gær eru þó ansi hjákátlegar og vandséð að þær breyti starfsumhverfi nýsköpunarfyrirtækja umtalsvert. Ein breytinganna felst í því að fyrirtækjum verður gert kleift að fá endurgreiddan virðisaukaskatt frá ríkinu af kostnaði í 12 ár í stað sex áður, jafnvel þó að starfsemin sé rekin með miklu tapi, þ.e. að innskattur sé ávallt hærri en útskattur. Þetta breytir að sjálfsögðu miklu fyrir fyrirtæki sem þurfa að leggja í miklar fjárfestingar í upphafi í dýrum tækjum og tólum en sjá ekki fram á verulega tekjur fyrr en eftir mörg ár eins og hjá fyrirtækjum í lyfjaþróun þar sem það getur tekið 10 ár eða meira að þróa og markaðssetja lyf.
Hins vegar er tekið fram í reglugerð varðandi þetta ákvæði að þetta eigi einungis við: “… fjárfestingu aðila í varanlegum rekstrarfjármunum, þar með talið fasteignum og ræktun, eða vörubirgðum … ekki er nægilegt að aðili hafi verulegan kostnað af virðisaukaskatti vegna almenns rekstrarkostnaðar.”
Ekki er hægt að túlka þetta öðruvísi en þannig að þetta gildi ekki fyrir fyrirtæki þar sem langstærsti hluti kostnaðarins er launakostnaður s.s. eins og hugbúnaðarfyrirtæki. Hitt ákvæðið sem fjármálaráðuneytið tilkynnti í gær að yrði breytt lýtur að því að lengja leiðréttingartímabil innskatts varðandi fasteignir. Þar sem langfæst nýsköpunarfyrirtæki eru í þeirri aðstöðu að geta fjárfest í eigin húsnæði þá skiptir þetta ákvæði nákvæmlega engu máli.
Niðurstaðan er því sú að þessar tillögur breyta líklega afskaplega litlu fyrir meginþorra nýsköpunarfyrirtækja. Til þess að verða ekki undir í samkeppni við önnur lönd sem bjóða þessum fyrirtækjum gull og græna skóga þarf augljóslega viðameiri aðgerðir en voru kynntar í gær. Vissulega þarf að fara varlega varðandi allar hugmyndir um opinberar niðurgreiðslur til atvinnuveganna. En í ljósi vaxandi samkeppni um mannauðinn meðal þjóða heims má vel færa rök fyrir því að í þessu tilfelli sé það nauðsynlegt til að tryggja samkeppnisstöðu Íslands.
Í hverju slíkar aðgerðir gætu falist er erfitt að segja en til að mynda mætti gefa afslátt af eða fella niður tryggingargjald fyrir nýsköpunarfyrirtæki á þróunarstigi. Nú svo höfum við í skattkerfinu í dag ákveðnar skattaívilnanir fyrir einn atvinnuveg. Hvað með að taka upp sjómannaafslátt hjá nýsköpunarfyrirtækjum?
Ráðherra hefur einnig skipað nefnd til að fara yfir reynslu annarra ríkja af sambærilegum aðgerðum. Það er því hugsanlegt að frekari aðgerðir til að styrkja samkeppnisumhverfi nýsköpunarfyrirtækja séu væntanlegar á næstu misserum.
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008