Ódæðin í Outreau

Í nóvember árið 2001 lágu augu allra frakka að bænum Outreau (borið fram Ú-dró) á norðurströnd Frakklands. Í kjölfarið á handtöku á tveimur hjónum sem talin voru hafa misnotkað börnin sín voru alls átján manns handteknir í einu stærsta barnaníðingsmáli sem Frakkland hefur séð. Franska þjóðin var í uppnámi.

Sexmenningarnir koma hér út úr réttarsalnum 1. desember 2005

Boulogne sur Mer er fábreyttur bær í norðurhluta Frakklands með tæplega 50.000 íbúa. Bærinn er helst þekktur fyrir að vera ein stærsta innflutningshöfn Frakklands í fiski. Atvinnuleysi á svæðinu er í kringum 20% og það ber lítið á uppbyggingu.

Eitt úthverfi Boulogne heitir Outreau og það var þar sem hjónin Thierry og Miriam Delay (einnig þekkt sem Myriam Badaoui) byrjuðu ásamt nágrönnum sínum David Delplanque og Aurelie Grenon kerfisbundið að níðast á börnum þeirra fyrrnefndu á árunum 1995 til 2000.

Árið 2000 byrjaði grunur að vakna hjá félagsmálayfirvöldum um að ekki væri allt með felldu. Eftir lögreglurannsókn, þar sem vitnisburður barnanna gengdi lykilhlutverki, voru á endanum átján manns úr bænum (þar á meðal bæjarpresturinn) ákærð fyrir misnotkun á börnum.

Málið var það langstærsta sem komið hafði upp í Frakklandi og gerðist þetta skömmu eftir að réttarhöld yfir belgíska barnanýðingnum Marc Dutrox hafði verið allsráðandi í fjölmiðlum. Stemmningin í þjóðfélaginu var skýr. Þessum hræðilegu ódæðismönnum þurfti að refsa

Réttarhöldin vöktu mikla athygli í fjölmiðlum. Dómarinn rétt um þrítugt, sem þótti ekki hafa mikla reynslu af svipuðum málum, sýndi hinum ákærðu mikla hörku og ósveigjanleika. Sumir þeirra sáu ekki sín eigin börn í á þriðja ár á meðan á réttarhöldunum stóð.

En þá byrjaði eitthvað undarlegt að gerast.

Þegar réttarhöldin byrja í maí 2004 yfir átjánmenningunum þá kemur allt í einu fram óvænt yfirlýsing frá Myriam Delay Badaoui þar sem hún lýsir því yfir að þrettán af hinum ákærðu séu saklausir. Það er að segja allir nema hún og Thierry maður hennar og nágrannar þeirra David Delplanque og Aurelie Grenon. Stuttu seinna dregur hún yfirlýsingu sína til baka.

Í Júlí 2004 þá eru sjö af hinum ákærðu dæmd saklaus og tíu sek. Sex af þessum tíu áfrýja þegar í stað niðurstöðunni. Í næsta dómstigi heldur málið áfram að opnast betur og betur.

Málið var á grunninum byggt á vitnisburði 18 barna sem sögðust hafa verið beitt kynferðislegu áreyti. Sálfræðingar töldu vitnisburð þeirra vera traustan þrátt fyrir að læknar gætu ekki fundið nein líkamleg merki um misnotkun. Þegar litið var betur yfir vitnisburð þeirra barna sem höfðu verið lykilvitni í málinu, þá stóð ekki steinn yfir steini í málflutningi þeirra.

Hægt og rólega fóru að renna tvær grímur yfir saksóknarann sem í miðjum málaferlunum tók hið óvenjulega skref að hvetja dóminn til þess að dæma sex af hinum ákærðu saklausa. 1. desember 2005 voru þessir sex ákærðu dæmdir saklausir. Þeir einu sem voru sekir, og viðurkenndu sekt sína frá byrjun málsins voru áðurnefnd Thierry og Myriam Delay og David Delplanque og Aurelie Grenon.

Hinir þrettán aðilarnir höfðu þurft að berjast í fjögur ár fyrir æru sinni og mannorði. Þeim var haldið læstum í fangelsi, fengu ekki að hitta börnin sín. Þau misstu samband við maka sína, höfðu myndavélar framan í sér í hvert sinn sem þau komu í og úr dómssal hverrar myndir voru birtar á forsíðum allra blaða undir fyrirsögninni: “Barnanýðingar!”

Átjándi aðilinn ákærði framdi sjálfsmorð á meðan hann beið réttarhalda í undirrétti. Hann var að öllum líkindum saklaus. Einn af sexmenningunum sem var dæmdur saklaus í desember 2005 reyndi að fremja sjálfsmorð viku eftir sakleysisdóminn. Hann hafði misst vinnuna, konan hans var farin frá honum, hann hafði ekki séð börnin sín í nær fjögur ár og hann hafði verið málaður sem skrýmsli í fjölmiðlum. Hann gat bara ekki meira.

Heimildir og frekari lestur um Outreau málið:

http://news.bbc.co.uk/2/hi/europe/4490088.stm

http://en.wikipedia.org/wiki/Outreau_trial

http://www.economist.com/displayStory.cfm?Story_ID=5500115

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.