Stórfurðuleg umræða hefur verið á Alþingi undanfarna daga um nýtt frumvarp til vatnalaga. Stjórnarandstaðan hefur haldið uppi málþófi til að tefja afgreiðslu frumvarpsins og vill hreinlega vísa málinu frá. Það er erfitt að skilja allt þetta vesen í stjórnarandstöðunni. En þegar málflutningur þeirra er skoðaður nánar blasir við hreinræktuð og hefðbundin þjóðnýtingarstefna. Umræðan frá 1923 er að endurtaka sig og aftur þarf að berjast fyrir eignaréttinum.
Í frumvarpinu er lagt til að eignaréttur að vatni verði skilgreindur neikvætt. Það þýðir að eigandi lands njóti allra eignaréttarheimilda nema þeirra sem eru með beinum hætti undanskildar eignarráðum hans hvort sem það hefur gerst með lögum eða samningi. Til upplýsingar er eignarétturinn í gildandi lögum skilgreindur jákvætt. Sem þýðir að taldar eru upp allar eignaréttarheimildir eiganda lands sem í eignarrétti geta talist. Verið er að breyta skilgreiningunni til samræmis við áratugalanga dómaframkvæmd Hæstaréttar um inntak og eðli eignaréttarins. Jafnframt er þetta mikil réttarbót því eðli málsins samkvæmt leiðir það til mikillar einföldunar að telja ekki lengur upp með tæmandi hætti hverja heimild til vatnsnota sem fyrir hendi er heldur ganga út frá að öll nýting vatns sé heimil svo framarlega sem ekki eru settar við henni sérstakar skorður.
Þessu er stjórnarandstaðan ósammála og vill að einkaeignaréttur að vatni verði kastað í lækinn og vatnsréttindi skilgreind sem sameign þjóðarinnar eða eitthvað í þá áttina. Hvernig væri ef vinstri menn færu nú að útskýra hugtakið sameign þjóðarinnar í stað þess að básúna því út í tíma og ótíma við hverja umræðu um landsins gagn og nauðsynjar. Lögfræðileg merking hugtaksins sameign þjóðarinnar er ekki til. Enda getur þjóð ekki átt neitt, borið skyldur né gert löggerninga sem rétta hafa samkvæmt landslögum. Þetta er merkingalaust hugtak. Það sem vinstri menn virðast vera að meina er að eignaréttur að vatni verður í höndum ríkisvaldsins. Ríkið eigi að hafa undir höndum eignaréttindin að vatni. Ríkið eigi svo að útdeila ráðstöfunar- og nýtingarrétti til landeigenda eftir nánari reglum.
Ekki er hægt að kalla þessa stefnu stjórnarandstöðunnar neitt annað en hreinræktaða þjóðnýtingarstefnu. Því miður er ekki búið að kveða þann gamla draug alveg niður. Umræðan um frumvarp til vatnalaga snýst því um hugmyndafræðilega baráttu um skilgreiningu og inntak eignaréttarins. Þjóðnýting eða frelsi einstaklinga til nýtingar og ráðstöfun eigna sinna? Svarið er augljóst. Einkaframtakið og frelsi einstaklinga til orðs og athafna er lykillinn að þeirri velferð sem íslenskt samfélag býr nú við. Að hverfa af þeirri braut væri mikið ógæfuspor. Það er vonandi að stjórnarandstaðan fari nú að átta sig á þessu og láti af stefnu sinni um að þjóðnýta hér eignir manna.
Eignarétturinn er friðhelgur samkvæmt stjórnarskránni. Réttur landeigenda til að nýta og ráðstafa eign sinni ásamt vatnsréttindum er óumdeildur. Aðför að grundvallarréttindum stjórnarskrárinnar verður mætt af hörku.
- Stjórnarhættir sjávarútvegsfyrirtækja - 26. maí 2021
- Dokkan og Ríkið - 18. febrúar 2021
- Villuljós og vinnuleit - 15. desember 2020